is / en / dk

22. Ágúst 2018

Í skólastarfi er haustið dásamlegur tími. Nú streyma börn af öllum stærðum inn í skólana og þar taka á móti þeim kennarar sem munu leiða þau áfram menntaveginn. Það er vissulega ekki alltaf í tísku meðal barna að lýsa því yfir að þeim þyki skólinn skemmtilegur en í langflestum þeirra býr tilhlökkun vegna skólabyrjunar, þótt það sé stundum í leyni. Flest hlakka þau bara heilmikið til. Hið sama gildir um starfsfólkið.

Mig langar að nota þessi tímamót til að óska okkur öllum góðs gengis í verkunum í vetur. Enn fremur langar mig að minna okkur á mikilvægi þess að passa upp á hvert annað.

Í vetur munu kennarar í öllum skólagerðum og á öllum skólastigum upplifa álag og jafnvel mikla erfiðleika á stundum. Álagið getur farið úr böndunum og gerir það því miður stundum. Þá skiptir öllu máli að njóta stuðnings fólksins í kringum sig. Kennarar og stjórnendur þurfa að hjálpast að. Starf með nemendum er vissulega mjög gefandi en það er um leið krefjandi. Ekkert starf, jafnvel þótt það sé unnið af mikilli hugsjón, getur gert þá kröfu til fólks að það fórni fyrir það heilsunni.

Verum meðvituð í vetur. Munum til dæmis eftir röddinni. Fjöldi kennara þjáist af raddþreytu. Verkir og stirðleiki í kjálka, kinnum og öðrum talfærum geta verið vísbending um alvarlegan undirliggjandi skaða. Í flestum tilfellum má vinda ofan af slíku. Þó er mikilvægt að starfsumhverfið breytist varanlega í kjölfarið ef vandamálið á ekki að blossa upp aftur. Kemur þar þrennt helst til greina: Umhverfinu má breyta, hljóðvist þarf að vera góð og huga þarf að loftgæðum. Hægt er að leita til talmeinafræðings sem greinir vandann og finnur leiðir til bata. Loks má ekki vanmeta áhrif þess að reyna að tryggja að börn og fullorðnir noti röddina á heilbrigðan og uppbyggilegan hátt í skólaumhverfinu. Það gerist nefnilega ekki að sjálfu sér. Það þarf að passa það meðvitað.

Pössum hvert annað. Höfum í huga að langvarandi álag og erfiðleikar taka oft það mikinn toll af fólki að það sjálft getur tapað áttum og er þá ekki í góðri aðstöðu til að bjarga sér eða leita sér hjálpar. Eitt megineinkenni kulnunar er t.d. ákveðið kaldlyndi, neikvæðni og tómlæti. Þar sem það eru ekki sérlega jákvæðir eiginleikar í samskiptum er auðvelt að snúa baki við viðkomandi. Þá er voðinn vís. Fólk getur auðveldlega einangrast með illyfirstíganleg vandamál. Reynum því að muna að neikvæðni er stundum eðlilegt viðbragð við of miklu álagi og látum hana ekki hindra okkur í að bjóða fram stuðning.

Höfum líka í huga að alvarleg kulnun hefur veruleg áhrif á frammistöðu okkar og dómgreind. Í starfi þar sem allt veltur á dómgreind og færni getur auðveldlega orðið til vítahringur. Við þurfum vera meðvituð um þetta því oft er fyrsta viðbragð við versnandi frammistöðu eða skorti á dómgreind í skólastarfi tortryggni og jafnvel viðurlög eða refsingar.

Reynum eins og við getum að vera hófsöm og sanngjörn í kröfum okkar til samstarfsfólksins. Það er mikilvægt að standa á grundvallaratriðum og taka afstöðu í faglegu skólastarfi. En það er líka mikilvægt að sýna stuðning og hlýju. Munum sérstaklega eftir stjórnendum. Margt bendir til þess að þeir séu oft undir hvað mestu álagi. Styðjum þá í þeirra verkum svo þeir séu færir um að styðja við aðra.

Ég veit að eini hópurinn sem ekki þarf að minna okkur á að passa upp á eru síðan nemendurnir.

En í því liggur kannski rót vandans.
 

 

 

 

 

 


 

Tengt efni