is / en / dk

11. Ágúst 2018

Helgi Seljan, fjölmiðlamaður, birti á dögunum mynd af tæplega fjörutíu ára gömlu svarbréfi frá Útvarpsstjóra til Samtakanna 78. Bréfið er svar við ósk samtakanna um útvarpsauglýsingu. Starfsfólk Ríkisútvarpsins treysti sér ekki til að setja auglýsinguna í loftið þar sem fyrir koma orðin „hommi“ og „lesbía“ og töldu það andstætt almennu velsæmi. Þessari tilraun homma og lesbía til að vera sýnileg í samfélaginu er mætt með andstöðu. Þau mega sjást, en þá bara sem „félagsmenn“.

 

Stökkvum nú tuttugu ár fram í tímann.
Sara Dögg Svanhildardóttir útskrifast sem kennari. Í viðtölum við aðra samkynhneigða kennara kemur fram að öll telja þau mikilvægt að hinsegin kennarar séu sýnilegir í skólastarfinu. En öll upplifa þau feluleik. Þeim finnst skólasamfélagið krefjast leyndar. Ræða megi samkynhneigð í skólum en fela skuli samkynhneigða. Næstu ár á eftir staðfesta fleiri rannsóknir neikvæð viðhorf til samkynhneigðar og samkynhneigðra í skólasamfélaginu. Hinsegin kennarar mega sjást, en þá bara sem „kennarar“. 

Stökkvum nú til dagsins í dag.
Ung háskólakona sest niður til að skrifa bréf til hennar sjálfrar þegar hún var á unglingastigi grunnskóla fyrir nokkrum árum. 


Það er skrítið samfélag sem vill að hinsegin félagsmenn séu bara félagsmenn. Það er skrítið samfélag sem vill að hinsegin kennarar séu bara kennarar. Það er skrítið samfélag sem vill að hinsegin börn troði sér í kassa sem þau passa ekki í. 

Það eru nefnilega ekki bara einstaklingar sem blómstra þegar þeir fá að vera þeir sjálfir – það er samfélagið allt.

Horfumst í augu við það.
Hættum að vera svona skrítin.

 

 


 

Tengt efni