is / en / dk

26. Júlí 2018

Það er í raun ótrúlegt að Ísland hafi orðið fullvalda árið 1918. Þjóðin var í sárum. Áratugirnir á undan höfðu einkennst af ítrekuðum harðindum og landflótta. Árin á undan hafði heimsbyggðin öll borist á banaspjót þar sem tæplega 150 Íslendingar eða börn þeirra létu lífið á vígvöllunum. Síðustu mánuðina fyrir fullveldistökuna hafði samfélagið lamast í tvígang, fyrst vegna kulda og síðar vegna ægilegrar drepsóttar. Það er óhætt að segja að lemstruð þjóð hafi gengið fram á völlin til fullveldis.

Það er nefnilega ekki svo að Ísland hafi orðið fullvalda í krafti þess sem landið var. Það var miklu frekar í krafti þess sem það gæti orðið. Og kannski ennfremur – í krafti þess sem það vildi ekki verða. Ég held það sé ekki tilviljun að stærstu stundir íslenskrar sjálfstæðisbaráttu eiga sér stað í lok heimsstyrjalda. Það er freistandi að vilja standa á eigin fótum, jafnvel þótt maður sé lítill, þegar maður sér risana falla allt í kringum sig.

Að mörgu leyti hefur landinu farnast vel. Um það þarf ekki að deila. Sumpart held ég þó að okkur væru hollt að staldra við á þessum tímamótum og gefa okkur augnablik til að lesa sumt af því sem varðveitt er frá þessum umbrotatíma í sögu okkar. Þannig er t.d. bráðholl lesning Helga Hjörvars, skólamanns með meiru, um ástandið í Reykjavík árið 1918. Hann lýsir því hvernig samfélagið hætti að vera samfélag þegar hver fjölskylda lokaðist inni á heimili sínu og glímdi þar ein við dauðann. Hann lýsir því líka hvernig samfélagið tók aftur við sér, en nú breytt frá því sem áður var:

„Bærinn er raknaður við og mennirnir koma á kreik. En þetta er ekki sama fólkið og hvarf inn í húsin fyrir skemstu. Svartklæddar ekkjur og grátandi smámeyjar koma nú út, og þögulir menn með móðurlaus börn. Og kynslóðin, sem var í blóma lífsins, hún kemur nú út föl og tekin, eins og farlama þjóð. En — það undarlegasta er einhver annarleg gleði í augunum. Það er gleði yfir lífinu. Lífið hefir sigrað. Þessir menn eru komnir úr blóðugum bardaga. Vinir þeirra og samherjar hafa hnigið alt umhverfis. En sigurinn er unninn. Og allir, sem mætast, eru meiri vinir en áður, því að þeir hafa átt sameiginlega þraut og sömu gleði; þeir fagna hver öðrum með augunum, þótt þeir hafi aldrei sjest fyrri. Aldrei fyr hefir slíkur lífsfögnuður farið um þennan bæ, aldrei fyr hefir lífið verið elskað eins brennandi heitt. Gleðin sitrar eins og vorregn um tregalönd sorganna.“

Föl og farlama þjóð með gleði í augunum, lífsþrótt í brjóstinu og kærleik í hjartanu. Þannig hóf Ísland fullveldi sitt. Nú er þjóðin sterk og stöndug – en mig grunar að við hefðum mátt varðveita gleðina, lífsþróttinn og kærleikann betur.

Á hundrað ára afmælinu fengum við gest frá Danmörku. Tilefnið sjálft hefur að mestu týnst vegna rifrildis um gestinn. Það er sorglegt.

Það má vel vera að danski þingforsetinn hafi varpað skugga á hátíðleika Alþingis með nærveru sinni. Miklu verr er þó að sá skuggi er ekki nema sýnishorn af þeim skugga sem nú liggur yfir stórum hlutum heimsins.

Dönsku kennarasamtökin berjast nú við stjórnvöld þar í landi með mjög takmörkuðum árangri. Dönsk stjórnvöld telja sér nefnilega töluverða fremd í því að brúka vald sitt. Á einfeldningslegan hátt skilgreina þau almannahagsmuni sem beitingu hins almenna valds. Þannig hafa þau grafið undan þeim stofnunum í samfélaginu sem veita þeim mótspyrnu.

Á tímabili horfðu ýmsir Íslendingar til Danmerkur með nokkurri velþóknun. Þeir dáðust að því að dönsk stjórnvöld hefðu hugrekki til að kæfa kjarabaráttu og berja á óþægum verkalýðsfélögum.

Það var hins vegar aðeins forleikurinn að því sem koma skyldi. Dönsk stjórnvöld hafa gengið sífellt lengra og nú er svo komið að þau hafa skilgreint tiltekin búsvæði sem gettó. Þar gilda önnur lög og aðrar reglur en annarsstaðar í landinu. Raunverulegum félagslegum vandamálum er mætt með sífellt meiri hörku og ósveigjanleika. Þungum refsingum er beitt á íbúana og skólakerfinu er markvisst beitt til að ná fram markmiðum stjórnvalda. Fjárhagslegum þvingunum er beitt í stað stuðningsúrræða og opinberir starfsmenn geta hlotið fangelsisdóma ef þeir eru ekki nógu duglegir að ganga erinda stjórnvalda.

Ef við höfum lært eitthvað á þessum hundrað árum sem liðin eru frá því að við urðum fullvalda þá ætti það að vera að hugrekki og völd eru hættuleg blanda. Stjórnmálamenn sem þora að kæfa niður andstöðu og fara sínu fram eru langoftast til óþurftar. Við höfum séð sýnishorn af því sama hér á Íslandi síðustu ár.

Samtök danskra kennara hafa barist fyrir því að innviðir þessara hverfa séu styrktir. Þau hafa ítrekað bent á að flókið viðfangsefni eins og aðlögun að framandi samfélagi sé faglegt viðfangsefni – og eigi ekki að vera undirorpið popúlískum áróðri. Þeir benda á að sífellt harðari refsistefna sé líkleg til að skapa mun fleiri vandamál en hún getur nokkru sinni leyst. Þeir benda líka á að það sé ekki og megi ekki vera hlutverk stjórnmálamanna að nota vald sitt til að handstýra faglegum kerfum, eins og menntakerfinu.

Stefna danskra stjórnvalda í málefnum innflytjenda er grimmdarleg og vitlaus. Þú neyðir ekki börn innflytjenda til að læra dönsku með því að leggja fyrir þau dönskupróf í sex ára bekk og halda þeim eftir í bekknum þar til þau ná. Þú ræktar ekki samband skóla og heimilis með því að gera kennara að njósnurum.

Flóttafólkið í Danmörku minnir sumpart á Reykvíkingana sem komu aftur út á göturnar eftir að hafa barist við dauðann í spænsku veikinni. Munurinn er hinsvegar sá að þá óx kærleikurinn í krafti hinnar sameiginilegu reynslu. Þín eigin þjáning varð undirstaða samúðar þinnar með öðrum. Úr þeim jarðvegi spratt gleðin, lífsþorstinn og kærleikurinn. Sem síðan var undirstaða þess að gerð var hér á norðurhjara tilraun til að vera fullvalda og sjálfstæð þjóð. Sá sem sér þjáningu í augum annarra án þess að skilja hana sjálfur hefur tilhneigingu til að líta undan.

Það eru ótrúleg forréttindi að tilheyra þjóð sem getur leyft sér að þrasa um það hvort útlendingar megi, formsins vegna, tala á fundum Alþingis eða hvort gamall pólitískur róttæklingur sé farinn að kulna. Það er samt voðalega tilgangslaust.

Staða innflytjenda á Íslandi hefur lítið eða ekkert verið rædd í kjölfar heimsóknarinnar. Er samt ærin ástæða til þess. Málið er nefnilega ekki hvort forseta danska þingsins var boðið hingað til lands í krafti skoðanna sinna eða stöðu. Málið er miklu frekar hver staða slíkra skoðana er hér á landi.

Fáar þjóðir standa sig verr við að leiða nýtt fólk inn í samfélag sitt en Íslendingar. Skólakerfið er á engan hátt reiðubúið að mæta þörfum þess. Atvinnulífið nýtir sér veika stöðu þess og gerir sér að fjárþúfu.

Við eigum mikið verk fyrir höndum.

Það er kannski ekki hægt að ætlast til þess að einn mannsaldur dugi til að gera þjóð fullburða. Við vorum veikburða fyrir heilli öld – að þessu leyti erum við það enn. Það er samt engin ástæða til að láta hugfallast. Við göngum hér fram á völlinn innan um milljónaþjóðirnar með mannvitið og menninguna að vopni og mörkum okkur stöðu.

Styrkur þjóðarinnar sést ekki best á því hvort við mætum fúlum sendingum eins og Piu Kjærsgaard með nægilega hofmóðugri reiði og vanþóknun. Heldur því hvort fólki eins og henni tekst að grafa undan lífsþorstanum, gleðinni og kærleikanum. Því þar býr bæði varnarleysi okkar og okkar helsti styrkur.
 

 

Tengt efni