is / en / dk

02. Júlí 2018

Í byrjun síðasta skólaárs voru fréttamiðlar fullir af fréttum af mönnunarvanda leikskólanna. Ekkert bendir til annars en að staðan verði svipuð ef ekki verri í upphafi næsta skólaárs. Vandinn var mest áberandi í Reykjavík og ekki mun áætlun borgarinnar að taka inn yngri nemendur minnka vandann.

Þær aðgerðir sem Reykjavíkurborg ætlar í til að bæta starfsumhverfi starfsfólks leikskóla, auka rými barna, fjölga starfsfólki á elstu deildum, auka við undirbúningstíma og fleira getur þó haft jákvæð áhrif á ráðningar fyrir komandi skólaár.

Í skýrslu OECD frá júní 2017 um stöðu leikskólamála er meðal annars bent á að íslensk börn eru methafar í viðveru í leikskóla og starfsfólk leikskóla methafar í viðveru með börnum. Til að bæta leikskólastarf bendir OECD á að lækka þurfi hlutfall barna á hvern starfsmann, laun þurfi að vera samkeppnishæf, vinnufyrirkomulagi þurfi að fela í sér hæfilegt álag, draga þurfi úr starfsmannaveltu og bæta þurfi vinnuumhverfi og hafa hæfa leikskólastjóra við stjórn leikskólanna. Sóknarfæri okkar til að bæta leikskóla á Íslandi eru mikil miðað við þessa upptalningu.

Langhlaupið
Góðu fréttirnar eru þær að mikil aukning er í leikskólakennaranám bæði í Háskóla Íslands (HÍ) og Háskólanum á Akureyri (H). Þessi aukning mun skila sér inn í leikskólanna árið 2023 eða eftir fimm ár. Til þess að þessi aukni áhugi skili sér inn í skólana þarf að bæta laun og starfsaðstæður leikskólakennara og leikskólastjórnenda – og um það eru flestir sammála.

Einnig er HÍ að fara af stað með 60 eininga fagháskólanám í leikskólafræðum við Háskóla Íslands. Um er að ræða tveggja ára tilraunaverkefni þar sem námið yrði skipulagt sem fjarnám með vinnu ásamt staðbundnum lotum/dögum á Suðurlandi. Námið gæti nýst sem hluti af B.Ed gráðu í leikskólakennarafræðum. Á kynningarfundi sem haldnir voru á Suðurlandi mættu rúmlega 40 manns og áhuginn er mikill.

Menntamálaráðherra setti af stað starfshóp í vetur sem kom með tillögur um hvernig hægt er að auka nýliðun í stétt kennara og móta leiðir til að sporna við brotthvarfi úr kennarastétt. Félag stjórnenda leikskóla hefur tekið þátt í þeirri vinnu.

Í tengslum við verkefnið hafa verið settir á fót eftirfarandi hópar:
Rýnihópur sem rýnir tillögur sem fyrir liggja innan ráðuneytis og er ætlað að auka nýliðun kennara og sporna við brotthvarfi, kanna samlegð við tillögur annarra hópa utan ráðuneytis sem þegar hafa verið unnar, auk þess að skoða og greina aðgerðir sem reynst hafa árangursríkar hjá öðrum þjóðum. Rýnihópur leggur fram rökstuddar og forgangsraðaðar tillögur sem verða kostnaðargreindar, tímasettar og áhættumetnar. Í hópnum sitja fulltrúar MRN, Sambands íslenskra sveitarfélaga, KÍ og háskóla, auk verkefnastjóra.

Kostnaðar- og áhættumatshópur sem greinir kostnað og metur áhættu af þeim tillögum sem lagðar verða fram af rýnihópi og skilar til verkefnastjórnar. Í hópnum sitja fulltrúar MRN, FJR, KÍ, Sambands íslenskra sveitarfélaga og háskóla.

Verkefnastjórn sem hefur yfirumsjón með og ábyrgð á verkefninu, fer yfir tillögur að aðgerðum eftir að þær hafa verið kostnaðargreindar og tímasettar og skilar aðgerðaáætlun til yfirstjórnar aðgerða um menntamál sem tekur endanlega ákvörðun um næstu skref. Í verkefnastjórn sitja fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis, fjármálaráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands og háskóla, auk verkefnastjóra.

Kynningar- og almannatengslahópur ber ábyrgð kynningarmálum í tengslum við verkefnið og að miðla upplýsingum um tillögurnar eftir afgreiðslu yfirstjórn. Í hópnum sitja fulltrúar mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, KÍ og háskóla.

Eftirfarandi tillögur sendi rýnihópur til kostnaðar- og áhættumatshóps:

  • Lagt er til að fjölga útskrifuðum kennurum með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn fyrir kennaranema og nýliða í starfi og markviss leiðsögn nýliða.
  • Lagt er til að nýliðar með kennsluréttindi fái kennsluafslátt/aukinn undirbúningstíma og skilgreinda leiðsögn frá kennara með menntun í starfstengdri leiðsögn eða sérfræðingi í starfstengdri leiðsögn við háskóla fyrstu þrjú starfsárin. Skilgreina þarf hlutverk leiðsagnarkennara á vettvangi í náinni samvinnu við hagsmunaaðila.
  • Lagt er til að við endurskoðun á lögum um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla nr. 87/2008 verði hugað að breytingum á 21. gr. laganna í þeim tilgangi að ná markmiði laganna um að auka samfellu, sveigjanleika og flæði milli leik-, grunn- og framhaldsskóla.
  • Lagt er til að 5. árið í kennaranámi fyrir leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og tónlistarskóla verði launað starfsnámsár. Tryggja þarf kennaranemum í starfsnámi leiðsögn kennara með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn.
  • Lagt er til að við endurskoðun á lögum um LÍN verði gert ráð fyrir að LÍN veiti styrki til kennaranema í leik-, grunn-, framhalds- og tónlistarkennaranámi í stað námslána. Styrkur nemi grunnframfærslu skv. útreikningum LÍN fyrir hverja ECTS einingu sem námsmaður lýkur á 1. – 4. námsári miðað við fulla námsframvindu (60 ECTS einingar á ári). Auk þess nái styrkur til nemenda með bakkalár- eða meistarapróf í faggrein sem leggja stund á 60 – 120 ECTS eininga nám til kennsluréttinda. Einnig er lagt til að veittir verði styrkir vegna skólagjalda.
  • Lagt er til að sett verði reglugerð við 21. gr. laga nr. 87/2008 til að skilgreina heimildarákvæði 21. gr. laganna í þeim tilgangi að ná markmiði laganna um samfellu, sveigjanleika og flæði milli leik-, grunn- og framhaldsskóla.
  • Lagt er til að laun og önnur starfskjör kennara og skólastjórnenda verði samkeppnishæf og standist samanburð við starfskjör og meðaltal launa annarra sérfræðinga og stjórnenda með hliðstæða menntun og ábyrgð. Unnið verði í samræmi við sameiginlega stefnu aðila um að laun og önnur kjör hjá hinu opinbera séu samkeppnisfær, sbr. 7. gr. um jöfnun launa í samkomulagi um breytingar á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna, dags. 19. sept. 2016.

Nú hefur menntamálaráðherra kynnt áætlun sína sem snýr að námslánakerfinu og að 5. árið í kennaranámi verði launað starfsnám og bind ég miklar vonir við að rekstraraðilar leikskólanna sjái til þess að framkvæmd þess líti dagsins ljós sem fyrst. Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögin sjálf eru meðvituð um leikskólakennaraskort og eins og við sáum í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga nú í vor þá er vilji til að bæta laun og starfsaðstæður kennara. Við þurfum að halda þessu á lofti.

Vilji Félags stjórnenda leikskóla, sem og annarra aðildarfélaga KÍ, er mikill til að laga þetta ástand og til þess að þetta gangi fljótt og örugglega fyrir sig þá verða sveitarfélögin að taka sig á og gera laun kennara og stjórnenda samkeppnishæf við laun annarra sérfræðinga og stjórnenda og standa við samkomulag um jöfnun launa sem gert var 19. september 2016 um breytingar á á skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna.

Það er hægt að líkja þessu verkefni við að standa í grunnbúðum Everest. Við erum komin á staðinn með allan okkar búnað og tilbúin í verkefnið. Í góðu skyggni er hægt að sjá í toppinn en það þarf ekki mikið til að spilla útsýninu. Til að komast á toppinn þarf að taka eitt skref í einu, hvert skref þarfnast einbeitingar, dugnaðar, þolinmæði og mikils viljastyrks, ekki bara frá okkur kennurum og stjórnendum skóla heldur líka samferðarfólki okkar, fulltrúum rekstraraðila.

Sigurður Sigurjónsson, formaður Félags stjórnenda leikskóla


 

Tengt efni