is / en / dk

19. Júní 2018

Í dag 19. júní minnumst við þess þegar konur fengu kosningarétt árið 1915. Og þá bara konur yfir fertugt. Jafnt og þétt en mishratt hafa konur barist fyrir fullum réttindum og stöðu í samfélaginu til jafns við karla. Staðan í dag er nokkurn veginn þannig að okkur konum eru allir vegir færir til jafns við karla hvað varðar grundvöll hins formlega regluverks sem felst í lögum og reglum samfélagsins.

En óskráðu reglurnar, hefðirnar og staðalmyndirnar eru enn hindrun á svo margan hátt. Samkvæmt þeim óskráðu reglum eru karlar enn í forréttindastöðu í íslensku samfélagi. Ekkert endilega af því þeir byggja víggirðingar um forréttindi sín, heldur fyrst og fremst vegna þess að við öll, ómeðvitað höfum dregið línu í sandinn um ýmis gildi sem eru ýmist kvenlæg eða karllæg.

Þess vegna er baráttan framundan barátta okkar allra. Það er ekki nóg að breyta formlegum lögum til að breyta samfélagi, til þess þarf líklega ein kynslóð að fæðast og deyja, jafnvel fleiri.

Það er athyglivert að á síðustu áratugum hafa konur sótt inn í hinar gömlu karlastéttir til að mynda læknisfræði, lögfræði og verkfræði. En lítið gengur að fjölga körlum í hefðbundnum kvennastéttum. Leikskólakennarar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar, þetta eru nánast allt konur.

Ætli launin geti haft eitthvað með þetta að gera? Það er gömul saga og ný að mennta- og umönnunarstéttir hafa lægri laun. Kannski vegna þess að almennt í gamla daga voru útivinnandi konur almennt með fyrirvinnu. Launin skiptu mögulega ekki öllu máli, þetta var meira til að drýgja mjólkurpeningana eftir að börnin voru farin að sjá um sig sjálf.

Þannig er eftir litlu að slægjast að mennta sig í þessum greinum og mögulega gerir samfélagið ríkari kröfu til karla að „skaffa vel“.

Það verður að hækka laun kvennastétta. Það er ekki síður brýnt að gera það en standa vörð um jafnréttislög í landinu. Um leið og það er bannað að mismuna fólki í launum á grundvelli kynferðis er það umborið í íslensku samfélagi að meðallaun kvennastétta í landinu, hvort heldur sem er á opinberum eða almennum markaði, eru langtum lægri en meðallaun hinna gömlu klassísku karlastétta. Meira að segja sýna gögn að eftir því sem konum hefur fjölgað í karlastéttum fara meðallaun lækkandi. 

Þess vegna er það næsta mikilvæga skrefið í jafnréttisbaráttunni að leiðrétta laun kvennastétta. Það á að vera eftirsóknarvert að verða kennari, hjúkrunarfræðingur eða ljósmóðir og þeim sem það velja þarf að bjóða samkeppnishæf laun. Eins og með öll önnur stór skref sem hafa verið stigin í jafnréttisbaráttunni verður hið opinbera að stíga fyrsta skrefið í átt til alvöru launajafnréttis í landinu og setja fram tímasetta aðgerðaráætlun um hækkun launa kvennastétta umfram karlastétta.

 

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara

Birtist á vef Fréttablaðsins þann 19. júní 2018

 

   

Tengt efni