is / en / dk

16. Maí 2018

Margt er kennurum vitlausara en að lesa hundrað ára gamlar greinar um skólamál. Það getum við auðveldlega gert því Landsbókasafn Íslands hefur gert þær margar aðgengilegar á vef sínum. Prentmáli síðustu aldar hefur að verulegu leyti verið bjargað. Við slíkan lestur áttar maður sig fljótt á því að það sem hugsað er um menntamál í dag er, í öllum meginatriðum, það sama og hugsað var fyrir heilli öld.

„Það er auðvitað, að blaðið mun af fremsta megni styðja að umbótum að kjörum kennara. Það er einhver allra brýnasta nauðsynin. En kennurum má ekki heldur gleymast það, hverjar skyldur þeir hafa tekið á sig með því einu að gefa kost á sér í kennslu. Kjörin eru ill. En kennslan má ekki fara eftir kaupinu.“

Þetta skrifaði Jón Þórarinsson fræðslumálastjóri í fyrsta leiðaranum sem skrifaður var til kennara eftir að þjóðin varð fullvalda fyrir hundrað árum. Á öndverðri síðustu öld þótti fullkomlega eðlilegt að kennsla væri illa launuð. Hún fór fram á veturna og á veturna var vinnuafl ódýrt. Þetta er enda þjóðin sem hélt því fram fullum fetum, og gerir sumpart enn, að bókvitið verði ekki í askana látið. Þess vegna þurfti að brýna fyrir kennurum að virðingin fyrir starfinu kæmi að mestu leyti innanfrá.

Talandi um bókvit. Sjálft fullveldisárið sat íslenskur unglingur við skriftir og kláraði sína fyrstu skáldsögu. Hann átti eftir að verða heimsfrægur rithöfundur. Stolt þjóðar sinnar. Fyrsta skáldsagan fjallar um sterkefnaðan mann með rómantískar hugmyndir um dásamlegt brauðstrit í íslenskri sveit og stúlku sem elskar hann en vill að þau fari saman og rannsaki heiminn. Ástin sigrar í sögunni. Maðurinn elskar sveitina og stúlkan elskar manninn – og því gerast þau bændur og fara ekki neitt. Bóndi er bústólpi – og bú er landstólpi.

Mig langar afar mikið að eyða hér nokkrum orðum í Stefán Hannesson sem fæddist í íslenskri sveit um miðjan mars árið 1876. Hann var sonur bláfátækra hjóna. Fram yfir fermingu var hann á sveitarframfæri. Honum var ekki ætlað að erfa bústofn eða jörð. Þess í stað tók hann ungur að sér kennslu barna í sveitinni. Það þótti ekki sérlega virðingarverð staða og launin voru ömurleg. Hann gafst þó ekki upp. Hann lauk nokkrum árum seinna kennaraprófi frá Flensborgarskólanum og kenndi sleitulaust fram á gamalsaldur.

Þegar Stefán Hannesson dó hafði hann skrifað fjölda greina um skólamál og kennslu. Margar þeirra eru afbragðsgóðar og nútímalegar með afbrigðum. Hann ferðaðist um og hélt erindi um skóla- og samfélagsmál. Hann talaði yfir forsetanum. Hann talaði í útvarpið. Hann fékk fálkaorðuna. Mestu skipti þó að hann hafði komið að námi fjölda barna sem mundu eftir honum sem hlýjum og hugmyndaríkum kennara. Í endurminningum nemenda hans stóð skólahúsið ævinlega í bjarma þeirra fjölmörgu ævintýra sem Stefán hafði sagt þeim. Úti á vellinum fór hann í boltaleiki með börnunum og við hlið skólans lét hann þau rista stóra mynd af Íslandi með fjöllum og fossum og vötnum því kort voru takmörkuð – en ímyndunaraflið ekki.

Stefán ólst upp við basl en leyfði baslinu ekki að skilgreina sig eða smækka. Hann gekk til liðs við hina nýju stétt kennara. Með honum óx virðing stéttarinnar. Meðan hann var enn mjög ungur skrifaði hann magnaða hugvekju til starfssystkina sinna. Hann benti á að enginn væri annars bróðir þegar kæmi að skiptingu samfélagsgæðanna. Bændur myndu hugsa um landbúnaðinn og sjómenn um sjávarútveginn. Um kennara þyrftu kennarar sjálfir að hugsa. 

„Vjer verðum að bindast samtökum,“ sagði hann. „Stofnum kennarafjelög um alt land, það er fyrsta sporið í áttina. [...] En vjer erum ekki komnir að takmarkinu! Þetta er aðeins spor í áttina. Það er engin trygging fyrir, að slík smáfjelög geti verndað rjett meðlima sinna. Til þess eru þau of fámenn, of veik, þess vegna þurfum vjer að mynda kennarasamband um land alt; það er næsta sporið. Smáfjelögin eiga að taka höndum saman, verða eitt stórt fjelag; þetta á ekki að verða einhverntíma heldur sem allra fyrst. Kennarasamband landsins á að taka þar við, sem orka kennarafjelaganna þrýtur. Það á að vera þeim til aðstoðar og verndar. [...] Krafturinn býr í sjálfum oss. Vjer þurfum aðeins að fá tækifæri til þess að nota hann, beita honum, verða samtaka, samhuga. Vjer þurfum að hittast að máli, hafa áhrif hvert á annað vekja öflin sem í oss leynast.“

Þegar Stefán Hannesson, einn af merkum frumkvöðlum ­íslenskrar kennarastéttar, dó titlaði Morgunblaðið hann bónda.

Það hefur lengi þótt fínna að rækta fé en fólk á Íslandi.

Skólavarðan er Kennarasambandi Íslands dýrmæt. Í gegnum hana fær kennarastéttin tækifæri til að virkja þann kraft og þá orku sem í henni býr. Hún segir frá starfi okkar. Hún á að hafa áhrif á okkur og við á hana. Aðeins með faglegri samræðu getum við orðið samtaka og samhuga. Eftir önnur hundrað ár munu kennararnir sem þá eru uppi geta leitað í þennan sjóð. Það er okkar að sjá til þess að hann sé jafn ríkulegur og sá sem skilinn var eftir handa okkur. Það er okkar að sjá til þess að virðing okkar fyrir starfinu og okkur sjálfum skíni þá í gegnum skrifin.

Mig langar að nota þetta tækifæri til að færa Stefáni Hannessyni kennara síðbúnar þakkir frá Kennarasambandi Íslands sem mun gera sitt allra besta til að standa undir því trausti sem hann bar til þess. 

 

Leiðari Ragnars Þórs Péturssonar, formanns Kennarasambands Íslands, birtist fyrst í Skólavörðunni, 1. tbl. 2018.
Blaðið er hægt að lesa hér. 

 

Tengt efni