is / en / dk

09. Maí 2018

John Steinbeck skrifaði einu sinni: „Það er alkunna að vandamál sem óleysanleg voru að kvöldi leysast farsællega að morgni eftir að nefnd svefnsins hefur tekið þau til meðferðar.“

Svefn er vanmetinn. Hann er ekki andstæða þess að lifa, hann er ein (og mjög mikilvæg) mynd þess. Ef upphaf skóladags miðaði við algengustu svefnþarfir barna væru yngri börn að hefja störf milli hálf níu og níu, unglingar myndu byrja um miðjan morgun og framhaldsskólinn byrjaði ekki fyrr en ellefu, hálf tólf. Þessi munur stafar af náttúrulegri dægursveiflu líkamans. Þetta, og fleira, var til umræðu í erindi Ernu Sifjar Arnardóttur í hádegisfundaröð Háskóla Íslands um aðstæður barna og ungmenna í íslensku samfélagi.

Börn og fullorðnir bregðast ekki eins við svefnleysi. Á meðan fullorðnir dotta fyrir framan sjónvarpið eða yfir bók brýst svefnleysi barna oft út sem almennur atgervisbrestur. Einkennin minna gjarnan á athyglisbrest og ofvirkni. Sterkar vísbendingar eru um að svefnvana ungmenni sæki frekar í óhollt fæði – og auðvitað koffíndrykki, sem síðan auka vandann enn frekar.

Ástandið í þessum efnum er sérstaklega slæmt á Íslandi vegna þess að hin líkamlega dægursveifla er úr takti við klukkuna. Af yfirborðskenndum, viðskiptalegum ástæðum vaknar íslenska þjóðin 60 til 90 mínútum of snemma á hverjum morgni og sofnar að sama skapi of seint. Þetta bitnar harðast á unglingum með sína seinkuðu dægursveiflu.

Dægursveiflan er sveigjanleg upp að einhverju marki og hægt er að draga úr skekkjunni að einhverju leyti, til dæmis með því að nota örvandi ljós til að draga úr syfju á morgnanna. Á móti kemur að lífsstíll þjóðarinnar (og þar með talinna unglinga) felur í sér að komið er í veg fyrir eðlilega syfju langt fram eftir kvöldi með uppljómuðum skjám. Staða þessara mála er orðin grafalvarleg. Nemendur í 10. bekk sofa margir sex tíma á nóttu í stað þeirra 8-10 tíma sem þörf er á. Við það verður ekki unað mikið lengur.

Nokkrar nærtækar aðgerðir sem hægt væri að grípa til er að halda betur og lengur utan um háttatíma barna. Foreldrar ættu að gefa sér tíma með börnum sínum á kvöldin. Lang best væri að koma upp rútínu þar sem bjartir skjáir spila sífellt minni rullu eftir því sem nær dregur háttatíma. Þetta getur í staðinn verið dýrmætur tími samskipta og afslöppunar. Auk þess ætti að lesa fyrir börn miklu lengur en gert er.

Samfélagið þarf síðan að ræða vinnudaginn, upphaf hans og lengd. Óeðlilega mörg ungmenni á Íslandi þrífast illa og hverfa úr skóla of snemma. Það er algerlega ljóst að almennt svefnleysi er ekki til að bæta úr skák. Þá er fullkomlega óeðlilegt út frá lýðheilsusjónarmiðum að unglingar í mikilli íþróttaiðkun séu á stífum æfingum eldsnemma á morgnunum eða seint á kvöldin eins og nú tíðkast.

Og svo eru það skólarnir. Hvað er því til fyrirstöðu að byrja seinna á skóladeginum?

Fyrsta svar er auðvitað það að vinnumarkaðurinn stýrir hér för. Börnin mæta yfirleitt í skólann áður en foreldrarnir mæta í vinnuna. Jafnvel þótt skóladeginum yrði seinkað er líklegt að mörg börn þyrftu að vera í gæslu í skólanum frá því að vinnudagur hinna fullorðnu hefst. Þannig gæti farið svo að börn með félagslega veikt bakland væru áfram svefnvana á meðan börn foreldra í sterkari stöðu nytu þess að sofa lengur. Slíkt væri auðvitað algjörlega óásættanlegt.

Hvað unglingana varðar má velta fyrir sér hvort áræði vanti í skólaþróun á Íslandi. Ef það er raunverulega svo að unglingar ættu að vera að byrja í skólanum á tímabilinu frá 10 til 11:30 þá þarf kannski stórtækari tilraunir en gerðar hafa verið til að athuga mögulegan ávinning. Tilraunir til að seinka skóladegi til níu eða hálf tíu, eins og gert hefur verið víða, ganga líklega of stutt og hafa það eitt í för með sér að unglingarnir sofa oftar yfir sig því þeir eiga að vakna rétt eftir að foreldrarnir eru farnir í vinnuna.


Við erum kannski að verða býsna ónæm fyrir fréttum af því að andleg heilsa íslenskra ungmenna sé ekki nógu góð. Það má ekki gerast. Við þurfum að grípa til aðgerða. Börnum og unglingum á að líða vel. Skólinn á síðan að skapa þeim vettvang til að rækta hæfileika sína og blómstra. Íslenska samfélagið hefur að þessu leyti vanrækt hagsmuni ungmenna – og erfitt er að sjá hvaða hagsmunum það þjónar að breyta þessu ekki.

„Við erum góð í átökum“ sagði Ingibjörg Gunnarsdóttir, sem við sama tilefni ræddi mataræði ungmenna. Hún átti við að þessum hlutum væri hægt að breyta með kraftmiklu átaki. Við erum lítil þjóð með sterkar og opnar samskiptalínur. Tvíræðni fullyrðingarinnar fór þó ekki fram hjá neinum. Sem þjóð erum við ótrúlega átakasækin. Sá litli hluti þessarar umræðu sem lýtur að klukkunni er t.d. löngu orðinn að bitbeini, rifrildi og nöldri. Sum mál verða aldrei leyst nema í samstarfi margra. Slík mál leysast ekki hjá þjóð sem sífellt endar í þrasi. Og það er stutt í þrasið hjá þreyttri þjóð.

Þetta er vissulega stórt vandmál – okkur væri kannski fyrir bestu að sofa á því.

 

Tengt efni