is / en / dk

30. Apríl 2018

Síðustu 100 ár hafa mikilvægar framfarir orðið á íslenskum vinnumarkaði. Flestar þeirra eða allar hafa orðið fyrir tilstilli verkalýðshreyfingarinnar. Stéttarfélögin sinna ráðgjöf og semja um laun og önnur starfskjör og gæta hagsmuna félagsfólks síns á vinnumarkaði með almennri réttindavörslu. Fjölmargar úrbætur sem nú þykja sjálfsagðar hafa verið gerðar á íslensku vinnuumhverfi fyrir tilstilli verkalýðshreyfingarinnar. Sem dæmi má nefna almannatryggingakerfið, samningsrétt, uppsagnarfrest, fæðingarorlof, vinnuvernd og orlofsrétt. Eins má nefna að árið 1957 varð Ísland fyrst Norðurlandanna til að binda jafnrétti í lög og afnema sérlega launataxta kvenna.

Alþjóðlegur baráttudagur launafólks ber í ár yfirskriftina: Sterkari saman. Það eru orð sem við kennarar getum tekið til okkar. Þótt þjóðfélagið hafi breyst er enn þörf á að Kennarasambandið standi vörð um réttindi kennara og skólastarfs í landinu. KÍ á fulltrúa sem gæta hagsmuna kennara í ýmsum starfshópum á vegum stjórnvalda og er málsvari kennara. Og markmiðin eru margvísleg. Ef samfélagið vill öflugt skólakerfi þarf mat á störfum og skólum að breytast.

Íslensk starfaflokkun sem byggir á alþjóðlegum stöðlum flokkar störf kennara og náms- og starfráðgjafa sem sérfræðingsstörf sem krefjast sérfræðilegrar þekkingar og reynslu. Á sama hátt eru störf skólastjórnenda flokkuð sem störf þar sem viðfangsefnin felast í að ákveða og framkvæma stefnu hins opinbera, setja lög og semja reglugerðir, fylgjast með framkvæmd þeirra og koma fram fyrir hönd ríkis eða sveitarfélaga.

En hvað gerist ef laun í þessum flokkum fræðslustarfa borin saman við laun annarra sérfræðinga og stjórnenda?

Séu mánaðarlaun fullvinnandi Íslendinga árið 2016 skoðuð út frá starfaflokkun Hagstofu Íslands kemur í ljós að hvort sem störf sérfræðinga eða stjórnenda eru skoðuð eru störf þeirra sem vinna í flokki fræðslustarfa langsamlega lægst metin. Hvernig má það vera að þá hafi heildarmánaðarlaun sérfræðinga sem unnu í framleiðslu verið rúmlega 800 þúsund en þeirra sem unnu í fræðslustörfum verið 570 þúsund? Ef laun stjórnenda sem vinna við fræðslustarfsemi eru skoðuð tekur síst betra við meðan stjórnandi í fræðslukerfi hefur 780 þúsund í heildarlaun á mánuði hefur sá eða sú sem vinnur við stjórnun í gas-, rafmagns- eða hitaveitu yfir 1400 þúsund í heildarlaun á mánuði.

Menntun stuðlar að friði, lýðræði, sköpun, samstöðu, félagslegri samheldni og skuldbindingu við sjálfbæra þróun og skilningi milli þjóða og menningarsvæða.

Sérstaklega þarf því að huga að og leggja áherslu á stuðning hins opinbera við menntun og aðra þá þjónustu sem hefur áhrif á lífshorfur fólks. Með því að standa saman um að úthluta meiru af efnahagslegri innkomu til menntunar og heilbrigðisþjónustu í dag eru meiri líkur á betri skilyrðum fyrir komandi kynslóðir. Stöndum því saman um öflugt menntakerfi.

 

 

Tengt efni