is / en / dk

26. Apríl 2018

„Það er erfitt að blómstra ef maður hefur ekki umhverfi.“ Þannig komst ung móðir að orði í rannsókn sem Sigrún Harðardóttir, lektor í félagsráðgjöf, kynnti í erindi á dögunum. Hin unga móðir var ein af fimm konum í svipaðri stöðu sem sögðu frá reynslu sinni af menntakerfinu. Þær höfðu allar alist upp við fátækt og mikla erfiðleika – og þær höfðu allar horft til skólans í leit að aðstoð og stuðningi. En þær urðu flestar fyrir vonbrigðum. Í stað stuðnings mættu þeim fordómar og einelti. Þær hættu að treysta fólki og skólagangan varð endaslepp. Þetta vantraust ristir enn í dag djúpt í sálir þeirra. Þær umvefja sín eigin börn hlýju og reyna að vernda þau og gæta þeirra. Rótgróna vantraustið verður þó til þess að þær treysta fáum og alls ekki skólunum sem þær líta ekki á sem örugga staði. Þegar börnin rekast á veggi eða lenda í samskiptavanda er fyrsta viðbragð að forða þeim úr hinum erfiðu aðstæðum. Þannig lenda fjölskyldurnar á flakki. Börnin skipta oft um skóla og tengingin við samfélagið rofnar.

Í lögum um skóla kemur skýrt fram að meginhlutverk þeirra er að styðja við og stuðla að virkri þátttöku í samfélaginu. Skiptir þá engu hvaða skólastig er verið að ræða. Þetta er mál sem varðar ekki aðeins skólana. Hinir stóru átakafletir í samfélaginu okkar hafa snúist um nákvæmlega þetta: Þátttöku. Þátttöku í að axla byrðar – og þátttöku í að njóta gæða.

„Það er verið að ganga frá íslenskum konum,“ sagði Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, í ávarpi á ársfundi Virk-starfsendurhæfingarsjóðs í vikunni. Þar vísaði hún meðal annars til þess að leik- og grunnskólakennarar eru í auknum mæli að sligast undan erfiðum starfsaðstæðum og veikjast. Þetta er fólk á öllum aldri, í miklum meirihluta konur. Í meirihluta tilfella snýr fólkið ekki til baka í störfin sín.

Vinnumarkaðurinn á Íslandi er sumpart vanhugsaður og harðneskjulegur. Vinnuvikan er of löng og álagið víða óeðlilega mikið. Nú hefur þessi sama skekkja heltekið hluta framhaldsskólanáms í landinu og nemendum er þar í auknum mæli gert að fórna frístundum og afþreyingu fyrir aukin námsafköst – þvert á viðvaranir skólafólks. Gengið er á svig við grundvallaratriðið. Þátttaka í lífinu er ekki á kostnað náms – hún er meginmarkmið þess.

Skólarnir þurfa að verða betri staðir. Bæði fyrir nemendur og starfsfólk. Á uppskeruhátíð nema í starfs- og námsráðgjöf fyrr í þessum mánuði sagði Guðný Björg Guðlaugsdóttir frá sex kennurum sem allir höfðu snúið baki við kennslu. Ég hugsa að þeir séu býsna dæmigerðir fyrir hinn ört stækkandi hóp „flóttamanna“ úr kennarastétt. Flestir lýstu þeir bættum kjörum og minnkuðu álagi í kjölfarið. Umhugsunarvert var að þeir höfðu allir íhugað oft að skipta um starfsvettvang löngu áður en þeir hættu. Þegar tækifærið gafst varð ekki aftur snúið. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að kennari sem er farinn á yfirleitt erfitt með að ímynda sér að hann snúi til baka.

Laufey Kristjánsdóttir sagði við sama tilefni frá mælitæki sem hún hefur þýtt sem mælir annarsvegar yfirsýn eða könnun nemendanna á námsframboði og -möguleikum og skuldbindinu eða staðfestu hinsvegar. Til að nemandi sé í námi á réttum forsendum er mikilvægt að hann átti sig á þeim kostum sem hann stendur frammi fyrir og ekki er verra ef hann upplifir sterka, persónulega tengingu við það nám sem hann tekur sér fyrir hendur. Þegar annað er til staðar en ekki hitt getur það verið uppskrift að vandræðum.

Við vitum öll að skuldbinding kennara í starfi er mikil. Svo mikil raunar að hún er einn af álagsvöldum í starfinu. Kennari er ekki bara starfsheiti heldur lýsing á manneskju. En skuldbindingin ein og sér er ekki nóg. Það blasir við öllum kennurum að kjör þeirra eru langverst meðal sambærilegra stétta. Þess vegna ganga þeir margir til vinnu á hverjum degi með nagandi tilfinningu í maganum um að réttast væri að snúa sér að einhverju öðru.

Kennarar eru ein af grundvallarfagstéttum þessa lands. Við megum ekki láta það ráðast af hendingu eða tilfallandi tækifærum hvort þeir haldast í starfi. Við eigum að hlúa að þeim – og hlúa að skólunum. Í skólakerfinu á fólk að blómstra. Bæði nemendur og starfsfólk. Til þess þarf oft betra umhverfi en það sem nú er.

 

 

 

Tengt efni