is / en / dk

14. Mars 2018

Í dag er Dagur leikskólans haldinn hátíðlegur um land allt. Þetta er í ellefta skipti sem haldið er upp á daginn en 6. febrúar er merkilegur dagur í leikskólasögu þjóðarinnar því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín. Það vita allir að þessir frumkvöðlar voru hetjur síns tíma sem báru hag barna í brjósti og vildu leggja sitt að mörkum til að veita þeim þá gæðamenntun í gegnum leik sem þau eiga skilið.

Kyndlum þessara hugsjóna hafa margir tekið við og haldið á lofti síðan. Leikskólastigið er ríkt af einstaklingum sem brenna fyrir hugsjónir sínar og vinna markvisst að þeim. Áskoranir leikskólastigsins eru margar. Sú stærsta snýr að nýliðun stéttarinnar og er verkefni sem er hvað mest aðkallandi fyrir samfélagið okkar. 

Brúin milli fæðingarorlofs og leikskóla verður ekki byggð nema stórátak verði gert í að fjölga leikskólakennurum. Það er mikilvægt að þeir sem fara með valdið geri sér grein fyrir því. Það er auðvelt að vera sammála því að nauðsynlegt sé að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. En ef ekki verða leikskólakennarar til að manna þessa leikskóla erum við ekki að hugsa málið til enda. Það er nauðsynlegt að læra af sögunni og skoða þróunina. 

Staðreyndin er þessi að síðan 1998 hefur hlutfall leikskólakennara er sinna uppeldi og menntun í leikskólum verið það sama um 33% eða 1/3 en samkvæmt lögum 87/2008 á það að vera 66.66% eða 2/3.

Ef takast á að auka nýliðun að einhverju viti þarf að ráðast markvissar og af meira afli í eftirfarandi fjóra þætti:

  1. Gera þarf laun samkeppnishæfari við aðra sérfræðinga á markaði
  2. Fækka þarf börnum í rými og á hvern starfsmann
  3. Fjölga þarf undirbúningstímum
  4. Færa þarf starfsumhverfið að því er þekkist á öðrum skólastigum hvað varðar vinnu- og starfstíma

Í dag sem alla aðra daga mun stór hópur fagmanna standa vaktina og halda á lofti hugsjónum fyrirrennara sinna og veita börnum gæðamenntun í gegnum leik. 

Ástæða er til að fagna því. 

Til hamingju með daginn!

Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara. 

 

Tengt efni