is / en / dk

16. Janúar 2018

Sem ung stúlka austur á landi varð ég ekki mikið vör við ójafnræði kynjanna, í það minnsta gerði ég mér ekki endilega grein fyrir því. Ég lék mér við stráka sem jafningja, ég beitti, ég vann í fiski, ég fór á sjó, eins og bræður mínir. Ég fékk lægri laun en tveir þeirra af því ég var yngri, en ég fékk líka hærri laun en yngri bróðir minn. Þegar ég hugsa til baka virðist þetta ekki hafa verið svo einfalt. Undir niðri kraumaði rótgróin kynbundin mismunun. Ég flakaði til að mynda aldrei fisk. Minningin úr blautvinnslusal harðfiskverkunarinnar eru karlarnir sem standa við fiskikarið og keppast við að skvetta slorinu í allar áttir, því hraðari handtök, því betra. Ég, mamma og aðrar konur sem stundum unnu þar vorum að dunda okkur við að tína orma og bein úr hvítum flökum. Konum sem voru mér eldri og bræðrum mínum var þó stundum treyst til að roðfletta, þar til roðflettivélin kom og sá um verkið. Einhvern veginn var aldrei boðið upp á kennslu í flökun, það var bara ekkert í umræðunni, enda karlaverk …

Föðurfjölskylda mín er komin af miklum skotveiðimönnum, sem telur marga ættliði. Lífsviðurværi heilu fjölskyldnanna valt á þessum skotveiðimönnum langt fram á 20. öldina. Sem unga konu langaði mig oft að prófa að fara á veiðar. Ég bað aldrei um að fá að fara með, eða fá veiðileyfi, enda var það aldrei í umræðunni. Bræður mínir báðu ekki, svo ég viti, um það heldur en ekkert virtist sjálfsagðara en að þeir fengju að vera með og ættu að vera með, þeir höfðu bara ekkert sérlega mikinn áhuga. Ég fékk þó að raða í uppþvottavélina og læra að prjóna … ég er ekki svo viss um að bræður mínir gætu reddað sér einfaldri yfirbreiðslu væru þeir að krókna á Norðurpólnum og prjónar, lopi og uppskrift lægu fyrir framan þá.

Þetta eru lítilvægleg dæmi í stóra samhenginu en svo sannarlega ekki einu dæmin um kynbundna gíslingu úreltra gilda. Sem kona hef ég allt mitt líf vanist því að menn leyfi sér framgöngu gagnvart mér sem augljóslega er ekki í lagi. Það hefur ítrekað reynt á öll mín gildi og viðmið. Hin meðvirka ég hefur reynt að laga sig að aðstæðum, bíta á jaxlinn, samþykkja ósamþykkjanlega hluti. Hinum hlutanum af mér hefur misboðið. Hvers vegna skyldi ég sætta mig við að lifa lífinu í mótvindinum af vængjablaki karlskyns vinabanda og stuðnings.

Árið 2010 birti Hagstofa Íslands gögn sem sýndu að kynbundinn launamunur hefði aukist í góðærinu en minnkað í hruninu. Þá kom líka í ljós að háskólamenntun hefði meiri áhrif til hækkunar hjá körlum en konum og að barneignir hefðu neikvæðari áhrif á laun kvenna en karla. Fyrir rúmu ári birti Bandalag háskólamanna (BHM) úttekt sem sýndi að innan þeirra raða væri kynbundinn launamunur að aukast og hefði raunar aukist um 2,4 prósentustig á milli ára. Góðærið er komið aftur.

Kynbundinn launamunur er þjóðarskömm. Það eru ekki margar vikur síðan íslensk stjórnvöld státuðu sig af því í erlendum fjölmiðlum að Ísland væri fyrsta landið í heiminum til að setja lög um bann við kynbundnum launamun. Á sama tíma halda sömu stjórnvöld svokölluðum kvennastéttum sínum í láglaunagíslingu. Þessi kynbundni launamunur er afleifð úreltrar karlamenningar sem á síðustu vikum og mánuðum hefur verið endanlega afhjúpaður. Ræturnar liggja djúpt og víða. Þessi ómenning elur á ósanngirni og ranglæti.

Það finnst varla nokkur manneskja í dag sem tilbúin er að verja kynbundinn launamun. Það er helst að þeir sem vilja réttlæta hann telji þennan mun alls ekki ósanngjarnan og hann útskýrist af mismunandi atvinnuvali. Konur hafi tilhneigingu til að velja sér mýrkri störf sem sjálfkrafa séu verr launuð á meðan karlar sæki á mið peninganna.

Það eru alvarlegar ranghugmyndir að grunnskólakennsla sé á einhvern hátt „mjúkt starf“. Þetta er erfitt starf og flókið. Starf í stöðugri þróun. Til að sinna því þarf mikla menntun og flestir kennarar hafa að auki gríðarlega reynslu. Þar að auki fellur starfið í flokk þeirra starfa sem teljast mestu álagsstörfin í samfélaginu.

Fáar stéttir eða engar fórna í jafn miklum mæli heilsu sinni við að reyna að standa undir nánast óraunhæfum kröfum við óboðlegar aðstæður. Það að kennarar, af öllum kynjum, skuli þrátt fyrir þetta mæta til vinnu hvern einasta dag og taka brosandi á móti nemendum og veita þeim stuðning og hlýju, gerir starfið ekkert mýkra en að höndla með verðbréf eða endurskoða reikninga. Þetta er einfaldlega enn ein sönnun þess hvílíkir fagmenn kennarar eru.

Þessi tvíhyggja um störf er svo augljóslega röng, svo augljóslega rakalaus vitleysa, að hún tekur engu tali. Það er nákvæmlega ekkert við kennarastarfið, hvorki starfskröfurnar né -aðstæðurnar sem réttlætir það hve lág launin eru. Þegar kennarar barna voru að stærstum hluta karlmenn voru laun þeirra á par við laun þingmanna og síðar presta.

Kjarabarátta grunnskólakennara er barátta fyrir fagmennsku – en hún er um leið barátta gegn ranglæti. Hún er barátta gegn kerfisbundinni mismunun kynjanna. Hún er barátta gegn kerfislægri lítilsvirðingu í garð kvenna.

Aðeins einn frambjóðandi í forvali til sveitarstjórnarkosninga hefur tjáð sig um kjaramál grunnskólakennara. Hann telur eðlilegt að borga grunnskólakennurum miklu betri laun – en bara ef þeir eru karlkyns. Þannig virki lögmál markaðarins. Konur séu tilbúnar að selja sig ódýrt til kennslu en karlar ekki. Það geri þá verðmætari.

Það verður kaldur dagur í Víti þegar þessi frambjóðandi fær raunveruleg völd. Það verður samt ekki horft framhjá því að í sveitarstjórnarkosningunum sem framundan eru hafa jafnvel hinir hófsömu frambjóðendur fótfestu í sömu forinni. Kjarastefna sveitarfélaganna grundvallast að verulegu leyti á því að viðhalda ranglæti. Að viðhalda kerfisbundnum karlakúltúr með tilheyrandi vanvirðingu fyrir starfsstéttum sem innihalda ekki nógu marga karla.

Það skiptir engu máli af hve mikilli blíðmælgi reynt er að draga fjöður yfir þennan veruleika.

Það skiptir engu máli hve stíft viðsemjendur okkar láta sem þetta sé ekki raunin. Við vitum öll að eina ástæða þess að ég fæ lægri laun en bræður mínir í dag, þrátt fyrir kröfuhart starf og góða menntun, er sú að ég starfa dags daglega með fleiri konum en körlum – og að samfélagið hefur vanist því að konur selji sig ódýrt.

Þá ranghugmynd er kominn tími til að selja fyrir fullt og allt. Fagmennska kvenna er ekki minna virði en fagmennska karla. Slíkt getur ekki liðist í samfélagi nema það grundvallist á skammsýni og ranglæti.

Kjarabarátta grunnskólakennara er barátta fyrir réttlæti. Hún má ekki einkennast af þeim sofandahætti sem verið hefur síðustu ár. Ranglæti hefur aldrei í veraldarsögunni verið leiðrétt öðruvísi en að mæta því af fullu afli.

Það er löngu tímabært að við hættum að reyna að sanna okkur og rökræða við samningaborð við fólk sem neitar að viðurkenna ranglætið sem blasir við. Við þurfum ekkert að sanna verðmæti okkar eða gildi.

Það er samfélagið, það eru sveitarstjórnirnar sem þurfa að horfast í augu við þann bitra veruleika að þær viðhalda hér kerfisbundnu, kynbundnu ranglæti. Þær munu aldrei gera það að fyrra bragði. Við þurfum að halda speglinum á lofti sjálf. Við getum það og við kunnum það. Það sýndum við, öll saman, fyrir rúmu ári síðan!

Hjördís Albertsdóttir, grunnskólakennari og frambjóðandi til formanns Félags grunnskólakennara.

 

Tengt efni