is / en / dk

15. Janúar 2018

Þegar stór verkefni blasa við er hættan sú að farið verði í skyndilausnir sem til lengri tíma skemma meira en þær laga. Nú þegar mikill kennaraskortur blasir við í grunnskólum landsins, þá er vísast að umræðan fari að snúast um að stytta nám grunnskólakennara og stytta skólagöngu grunnskólanemenda frekar en að ráðast að rót vandans sem eru lág laun kennara og erfitt starfsumhverfi.

Samtök atvinnulífsins eru reyndar þegar byrjuð að halda þessum hugmyndum á lofti. Og lausn þeirra við kennaraskortinum kemur ekki á óvart, hún er nefnilega að stytta grunnskólann um eitt ár. Í greininni segir að nota megi þá peninga sem sparast við styttinguna til að bæta skólastarfið. Þetta er svo rökstutt með því að þetta muni ekki rýra menntun nemenda af því að þetta er ekki spurning um magn heldur gæði. Þetta er einnig rökstutt með því að stytting framhaldsskólans sem gerð var fyrir nokkrum árum hafi tekist svo vel. En er það svo? Rektor Menntaskólans í Reykjavík kom fram í fréttum síðastliðið vor og sagði að fórnarkostnaðurinn við að stytta framhaldsskólann sé að vegna námsálags hætti nemendur í íþróttum og öðru tómstundastarfi. Framhaldsskólakennarar hafa líka haldið því fram að sparnaðurinn hafi ekki verið notaður til að bæta skólastarfið heldur hafi þessir peningar farið út úr skólunum.

Auðvitað er menntun spurning um gæði. En gæðin taka líka tíma.

En hvað mælir þá gegn því að stytta grunnskólann?

Í dag geta nemendur sem hafa námslega og félagslega getu lokið grunnskólanum á níu árum ef þeir svo kjósa, það þarf ekki að breyta neinu til þess.

Við sem kennum í grunnskólum vitum að það er mikið álag á mörgum nemendum, þeir eru í tímafrekum tómstundum, margir hverjir að vinna með skóla og eiga svo að sinna náminu. Eitthvað af þessu lætur undan ef enn á að auka álagið, hætt er við að það verði annað hvort skólinn eða tómstundirnar.

Annað sem rétt er að nefna í þessu samhengi er frábær árangur síðastliðinna 20 ára í því að minnka neyslu vímuefna hjá grunnskólanemendum. Hlutfall þeirra nemenda sem hafa einu sinni eða oftar orðið ölvaðir í 10. bekk fór úr 63% í 13% á þessum 20 árum. En um leið og því mikla aðhaldi sem grunnskólinn veitir sleppir eru því miður vísbendingar um að vímuefnaneysla aukist, þó hún sé góðu heilli líka á niðurleið hjá nemendum í framhaldsskóla.
 

Af hverju á ekki að stytta kennaranám?
Í kjölfar lengingar kennaranáms í Finnlandi varð námsárangur grunnskólanemenda betri en þar voru kjör kennara líka bætt um leið og námið var lengt.

Í dag er brottfall kennara á fyrstu sjö árum í kennslu hátt í 30% sem gefur vísbendingar um að verknámshluti námsins sé ekki nægur. Þess vegna væri ráð eins og mikið er rætt um þessa dagana að gera eitt af þessum fimm árum að verknámsári frekar en að stytta námið.

Hugsum til framtíðar, ekki láta skyndilausnir leysa þetta brýna mál. Búum vel að kennurum bæði í launum og starfsumhverfi og þá leysist þetta mál af sjálfu sér. Auðvitað vill ungt fólk mennta sig til kennslustarfa ef starfskjörin eru góð. Kennsla er nefnilega skemmtilegasta starf í heimi.
 

Rósa Ingvarsdóttir, grunnskólakennari og frambjóðandi til formanns Félags grunnskólakennara.

 

Tengt efni