is / en / dk

10. Janúar 2018

Þegar nemendur sem hefja nám í grunnskóla næsta haust ljúka sinni grunnskólagöngu verður staðan sú að ekki verður menntaður kennari nema í þriðju hverri stöðu grunnskólans, ef ekkert verður að gert.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar segir meðal annars: „Mikilvægt er að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði þeirra og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum. Bregðast þarf við kennaraskorti í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og stéttarfélaga.”

En hvernig hefur ríkisstjórnin hugsað sér að gera þetta? Það er ekki mikill tími til stefnu.

Laun grunnskólakennara í dag ná ekki meðallaunum í landinu þrátt fyrir að krafist sé fimm ára náms til að öðlast réttindi til grunnskólakennslu. Samkvæmt rannsókn, sem Helgi Eiríkur Eyjólfsson og Stefán Hrafn Jónsson gerðu nýverið, þá eru mánaðartekjur þeirra sem starfa við kennslu í grunnskóla um 140 til 190 þúsundum krónum lægri en þeirra menntuðu grunnskólakennara sem velja sér annan starfsvettvang en grunnskólakennslu. Það er því mikill fórnarkostnaður sem fylgir því að starfa innan grunnskólans og þess vegna fer vel menntað fólk til annarra starfa. Lesa má um þessa rannsókn hér.

Starfsumhverfi grunnskólakennara hefur breyst mjög mikið síðustu ár. Nemendahópurinn verður sífellt margbreytilegri. Nemendum af erlendu bergi fjölgar stöðugt, sumir með mjög erfiða reynslu í bakpokanum og tala aðeins tungumál sem fáir hérlendis skilja. 

Skóli margbreytileikans býður alla nemendur velkomna en það eitt og sér kallar á fleiri hendur og smærri nemendahópa sem oft og tíðum eru ekki fyrir hendi í grunnskólanum. Þar af leiðandi verður til mikið álag sem er að sliga marga kennara.

Á meðan launin eru lág og álagið mikið er ekki líklegt að breyting verði á þeirri mjög svo alvarlegu stöðu sem blasir við. Til að breyta þessu þarf samfélagslega sátt um að leiðrétta laun grunnskólakennara þannig að þau standist samkeppni og halda áfram að finna leiðir til að bæta starfsumhverfið.

Þetta er ekkert flókið.

Rósa Ingvarsdóttir, grunnskólakennari og frambjóðandi til formanns Félags grunnskólakennara.

 

Tengt efni