is / en / dk

15. Desember 2017

Daginn sem ég var kjörinn varaformaður KÍ lærði ég mjög mikið. En ég er jafnframt fegin að hafa fengið eldskírn í samfélagsmiðlaumræðu og læra á fyrsta degi að að lesa alltaf yfir allt sem eftir mér er haft og athuga hvort það sé sett fram í réttu samhengi.

Mér þykir fyrir því að orð mín hafi verið tekin úr samhengi og það er skiljanlegt að framsetningin og fyrirsögn ergi kennara en því fer fjarri að það hafi verið ætlun mín. Í viðtalinu vildi ég leggja áherslu á að hlutverk varaformanns væri ekki að semja um kaup og kjör heldur fengi ég það hlutverk að draga fram að starfið væri flókið og því fylgdi mikið álag og ég myndi leggja mig fram um sýna fram á mikilvægi kennarastarfsins og tala til dæmis fyrir starfsþróun, stuðningi við nýliða, vinnuumhverfismálum, jafnrétti. Auðvitað þurfa laun kennara að hækka verulega þó sú barátta sé ekki með beinum hætti á borði varaformanns KÍ heldur hjá hverju aðildarfélagi fyrir sig.

Mér myndi aldrei nokkurn tíma, eftir langan kennaraferil detta í hug að tala niður til kennara og ég vil leggja áherslu á að ástæða þess að ég bauð mig fram er mikill áhugi á kennarastarfinu og sú von að ég gæti lagt gott eitt til. Ég er þess fullviss að kennarastarfið sé merkilegasta starf í heimi. Ég bauð mig fram til að vinna með kennurum en ekki á móti þeim.

Anna María Gunnarsdóttir
 

 

Tengt efni