is / en / dk

07. Desember 2017

Hlutleysi er afstaða í sjálfu sér. Sá saklausi tapar alltaf á hlutleysi. Hvort sem það er þolandi sem sagði satt eða gerandi sem var ranglega ásakaður.

Hlutleysi segir í raun að allur þinn orðstír og allt það traust sem þú hefur byggt upp í gegnum árin skipti engu máli, að þessi ásökun skilgreini þig héðan í frá í huga hins „hlutlausa“.

Það er ábyrgð okkar sem einstaklinga þegar erfið og óþægilega mál koma upp að leggja allt á vogarskálar og taka afstöðu.

Í máli nýkjörins formanns stendur ekki bara orð gegn orði. Málið var rannsakað og Ragnari Þór hefur verið treyst til að kenna börnum og unglingum síðan rannsókninni lauk.

Ef minnsti vafi hefði leikið á framferði hans hefði hann ekki fengið að gera það.

Afstaða mín byggir á þeirri grundvallarreglu að hann, eins og aðrir, eigi að vera saklaus uns sekt er sönnuð.

Það eru fáar eða engar stéttir eins útsettar og varnarlausar og kennarar gagnvart tilhæfulausum ásökunum en barn skal ALLTAF njóta vafans og vera tekið alvarlega segi það frá ofbeldi eða misnotkun, alveg sama hverjum ásökunin beinist gegn.

Komi fram ásökun skal skilyrðislaust fara fram rannsókn undir stjórn þar til bærra yfirvalda.

En svo verðum við að hlíta niðurstöðum hennar.

Það getur ekki verið nóg að „ásökun hafi komið fram“ til að mannorði okkar sé rústað til frambúðar og við útilokuð frá starfsframa eða opinberum störfum.

Þeir sem bjóða sig fram til forystu verða að vera færir um að taka afstöðu í erfiðum málum. Þeir verða að vera færir um að fylgja sannfæringu sinni og segja hana upphátt. Að því leyti ber ég virðingu fyrir afstöðu Þórunnar Sifjar og Halldóru Guðmundsdóttur fyrrum varaformannsframbjóðanda.

Hlutleysi er ekki kostur í jafn stórum málum.

Hlutverk Kennarasambandsins
Hlutverk Kennarasambandsins hlýtur að vera að stuðla að rannsókn mála og miðað við frásögn Ragnars af gangi mála verður ekki annað séð en það hafi vitað af málinu og fylgst með rannsókn þess frá upphafi.

Það er hlutverk Kennarasambandsins að standa með kennurum sem hafa verið ranglega ásakaðir.

Það er ekki hlutverk Kennarasambandsins að breiða út fregnir af vandræðum kennara sem hefur verið ásakaður.

Það vekur því talsverða furðu mína og óhug, svo ekki sé meira sagt, að bæði Félag framhaldsskólakennara og Félag grunnskólakennara skulu hafa verið með þeim fyrstu til að deila frétt Vísis um helgina á opinberum facebook síðum félaganna.

Ég hlýt að ganga út frá því að Guðríður Arnardóttir formaður FF og Ólafur Loftsson formaður FG beri ábyrgð á þessum síðum og spyr:

#1 Hvaða hagsmunir kölluðu eftir þessari deilingu fréttarinnar?

#2 Er það stefna KÍ eða aðildarfélaga að dreifa fréttum um ásakanir gegn félagsmönnum sem víðast?

#3 Hefur fregnum af erfiðum málum annarra félagsmanna verið deilt með þessum hætti fram til þessa eða er um nýja stefnu að ræða?

#4 Teljið þið að deiling þessi hafi verið stéttinni eða KÍ til framdráttar?

Að lokum
Rannsókn þarf alltaf að fara fram á ásökunum um kynferðisbrot um það deilum við ekki.

Rannsókn í máli Ragnars Þórs tók marga mánuði og leiddi ekkert misjafnt í ljós, hvað viljum við meira?

Er einhver eða engin leið til að hreinsa sig af ásökunum?

Ætlum við kennarar að láta svipta okkur réttinum til að vera saklaus uns sekt er sönnuð?

Einhver okkar eiga eftir að standa saklaus í sömu sporum og Ragnar Þór.

Ef það ert þú, vilt þú þá eiga möguleika á að hreinsa mannorð þitt?

Ég hvet þig til nýta kosningarétt þinn og kjósa.

Ég hvet þig til að kjósa breytingar!

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, frambjóðandi til varaformanns KÍ

Tengt efni