is / en / dk

07. Desember 2017

Kosningar til varaformanns KÍ eru að hefjast. Umræðan síðustu daga á samfélagsmiðlasíðum kennara hefur lítið snúist um kosti og galla frambjóðendanna og hvað þeir hafa til málanna að leggja. Þess í stað hefur umræðan snúist um samsæriskenningar, blokkamyndanir og leikfléttur sem eiga að vera úthugsaðar og lævísar. 

Á eigin forsendum
Framboð mitt til varaformanns KÍ er algerlega á mínum eigin forsendum. Ég er ekki framlenging á valdi eins né neins og geng erinda minna eigin hugsjóna. Síðustu ár hef ég verið svo heppin að vera formaður skólamálanefndar Félags framhaldsskólakennara. Í því starfi hef ég unnið að fjölmörgum áhugaverðum verkefnum sem tengjast menntakerfinu, störfum kennara og starfsumhverfi þeirra. Í þeirri vinnu hef ég sannfærst um að hvert samfélag verður aldrei betra en menntakerfið sem það býður upp á. Forsenda góðs menntakerfis eru öflugir kennarar. Kennarahúsið eitt og sér gerir kennara ekki öfluga. En þeir sem þar eru í forsvari fara fyrir stéttinni og leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að efla hana. Ég tel að hér skipti rödd mín og reynsla máli og einmitt þess vegna langar mig til að standa í stafni.

Reynsla og nýliðun
Reynsla og þekking skipti máli til að þoka málum áfram. Ég tel að það komi kennurum vel að ég nýti áfram þá reynslu og þekkingu sem ég hef málum þeirra til framdráttar. Bæði þekkingu á vinnu stéttarfélaga og ekki síður þekkingu eftir yfir 20 ára kennslu. Þó nýliðun í forystunni sé af hinu góða hlýtur líka að vera gott að byggja á reynslu. Í Kennarahúsinu er rekin mikil og flókin starfsemi. Þar eru hýstir margir sjóðir og þar vinna stjórnendur KÍ og forsvarsmenn aðildarfélaganna. Síðast en ekki síst eru félagsmenn þjónustaðir þaðan í mikilvægum í félags- og kjaramálum. Þekking á gangverki félagsins hlýtur því að koma nýjum varaformanni KÍ til góða. 

Heiðarleiki og virðing
Ég vil taka þátt í að auka virðingu fyrir stéttinni, leggja rækt við vinnuumhverfismálin og starfsþróun stéttarinnar sjálfrar, taka þátt í að móta kennaramenntun, styrkja nýja kennara í starfi og legg jafnframt mikla áherslu á jafnrétti í skólastarfi sem og innan stéttarinnar. Ég hef ekki svör við öllum vandamálum heimsins og kem hvorki á friði í heiminum eða hækka laun kennara svo þau verði á pari við ráðherralaun.

En ég lofa að ganga yfirvegað til minna verka, gera mitt allra besta og taka ekki stöðu með einhverjum og á móti öðrum. Mér finnst skipta máli að tala fallega til og um kennara sem og meðframbjóðendur og reyni ætíð að nálgast alla af virðingu. Orðræðan verður að einkennast af væntumþykju og hlýju, við megum ekki grafa okkur svo djúpt ofan í skotgrafirnar þannig að við missum sjónar á því sem virkilega skiptir máli. 

Ég tel að jákvæðni mín og reynsla gagnist og ég heiti því að vinna vel fyrir alla kennara. Fyrir þá vil ég vinna með virðingu og heiðarleika sem leiðarljós.

Anna María Gunnarsdóttir, frambjóðandi til varaformanns KÍ

 

 

Tengt efni