is / en / dk

27. Nóvember 2017

Fyrir rétt rúmu ári síðan lét þáverandi fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson þessi orð falla í Kastljósi: „Ef maður skoðar stöðuna heilt yfir þá er í raun og veru hægt að segja að við höfum aldrei haft það jafn gott eins og í dag.“

Hér sit ég ári síðar og er að reyna að skoða stöðuna í heild sinni. Jú, við höfum það gott ef við hugsum einungis um launin okkar og þó, er það virkilega? Maður spyr sig hvort það sé í lagi að fólk sem búið er með háskólanám á framhaldsstigi þurfi virkilega að sætta sig við þann veruleika að þó svo að launahækkanir hafi skilað sér er það ekki alltaf nóg til þess að ná endum saman.

Ég upplifi að umræðugrundvöllurinn snúist einhliða um peninga. Það virðist vera þannig að ef kennarastéttin fær launahækkanir þá sé málið í höfn. En svo er ekki.

Að sjálfsögðu eru tekjur mjög mikilvægar fyrir okkur en einar og sér breyta þær ekki aðstæðum, s.s. álagi, stressi eða veikindum svo eitthvað sé nefnt.

Það er kominn tími til þess að breyta umræðugrundvellinum og láta vita hvernig við sem stétt höfum það. Ræða þarf hvað má betrumbæta til þess að koma í veg fyrir brotthvarf kennara úr stéttinni og vinna gegn auknum veikindum.

Ég spyr sjálfan mig hvort enginn af forystumönnum okkar heyri í þeim viðvörunarbjöllum sem hringja um þessar mundir?

Sjúkrasjóður KÍ er að tæmast á methraða. Kennarar eru að bugast undan álagi en samt halda verkefnin áfram að hrúgast á herðar okkar.

Leikskólar landsins eru á brauðfótum og hverjum er um að kenna? Ég las grein um daginn þess eðlis að leikskólar á höfuðborgarsvæðinu hafi þurft að breyta opnunartíma vegna manneklu og erfitt var að fá fólk til starfa. Það sem ég rak augun í var að þessi grein var birt árið 2000. Nú 17 árum síðar er staðan sú sama, ef ekki verri, og það er svo sannalega ekki leikskólakennurum að kenna. Þeir mæta með ást í hjarta til starfa og reyna að gera sitt besta.

Á síðasta ári blöstu hópuppsagnir grunnskólakennara við. Komið var illa fram við þá við samningaborðið svo illa að í tvígang þurfti að fella kjarasamninginn sem þeim var boðinn. Núna, þann 30. nóvember 2017, eru samningar lausir aftur og hvað gerist þá?
Brotthvarf kennara úr grunnskólum og veikindi þeirra eru að aukast hér á landi. Hvers vegna? Jú, vegna þess að vinnuumhverfi og vinnuálag í grunnskólum landsins er ekki viðunandi.

Er það kennurum að kenna. Nei.

Framhaldsskólar landsins berjast við að ná endum saman. Sumir hverjir þurfa að standa undir kostnaði vegna forfallakennslu því veikindi kennara eru að aukast á þessu skólastigi. Árið 2016 þurfti t.d. MR að taka inn færri nemendur vegna aukinna útgjalda til forfallakennslu. Hér koma málin sem framhaldsskólarnir eru að glíma við einnig niður á aðgengi nemenda að námi.

Stytting framhaldsskólans hefur haft í för með sér aukið álag bæði á kennara og nemendur. Hún hefur líka haft veruleg áhrif á efsta stig grunnskóla.
Er það kennurum að kenna. Nei.

Þegar sveitarfélög eða ríkisstjórn landsins boðar skólaumbætur og breytingar á kennarastarfi til hins betra er nauðsynlegt að gera það í samráði við skólana.
Því þar er fólkið sem veit hvernig skólastarf fer fram í skólum landsins og hvar rót vandans liggur.

Ég segi að það sé kominn tími til að breyta umræðugrundvellinum, það er kominn tími til að segja STOPP – hingað og ekki lengra. Við þurfum að vekja forystumenn landsins sem hafa sofnað á verðinum og hafa ekki gætt hagsmuna kennara. Það er þeim að kenna að ástandið og staðan er eins og hún er í dag.

Umræðan þarf að snúast um okkur og líðan okkar. Við þurfum sterka forystu í Kennarasambandi Íslands sem er ekki hrædd við taka þennan slag og þessar umræður.

Ég segi ykkur hér með kæru vinir, samstarfsmenn og félagar: ég er tilbúinn til þess að taka starf þetta að mér – okkur öllum í hag.

Simon Cramer, framhaldsskólakennari og frambjóðandi til varaformanns KÍ. 

 


 

Tengt efni