is / en / dk

30. október 2017

Vandinn í íslensku skólakerfi er ekki skortur á vilja stjórnvalda til að gera vel. Menntun er undirstaða atvinnu, nýsköpunar og þar með hagvaxtar og framlegðar. Þetta vitum við kennarar og flestir stjórnmálamenn. Það er bara eitt sem skortir, meira fjármagn. Og það skortir forgangsröðun í þágu menntunar þegar fjármagn er af skornum skammti.

Á Íslandi eru frábærir leikskólar, grunnskólar, tónlistarskólar og framhaldsskólar. Innan kennarastéttarinnar starfar fagfólk af miklum metnaði. Það býr yfir mikilli reynslu og góðri menntun. Miklar breytingar hafa orðið á síðustu árum innan skólakerfisins, bæði hvað varðar inntak náms og kennsluhætti. Það hefur gerst vegna eldmóðs fjölda fagfólks innan skólakerfisins. Það er fyrst og fremst þeim að þakka að áfram hefur þokast þar sem fjármagn hefur aldrei fylgt breyttum áherslum í menntamálum.

Formaður KÍ má sín kannski lítils þegar kemur að því að móta menntastefnu í landinu. Þar eru aðrir við stjórnvölinn. En í þeirri vegferð verðum við öll að leggjast á árarnar, raddir rúmlega 10 þúsund félagsmanna skipta máli ef talað er inn í stjórnmálin og fjölmiðlana. Hvert og eitt okkar er mikilvægt þegar kemur að því að veita stjórnvöldum aðhald í öllum málum og þar verður formaður að fara fremstur í flokki og tala af reynslu og þekkingu; ábyrgur og sterkur.

Vissulega eigum við í KÍ að leiða umræðu um menntamál og hafa sterka rödd þegar kemur að skólamálaumræðu, en af því við erum fyrst og fremst stéttarfélag og af því okkar helsta verkefni er að berjast fyrir bættum kjörum okkar félagsmanna, er forgangsverkefni okkar núna að ná fram sanngjörnum og eðlilegum launahækkunum og bæta starfsaðstæður kennara.

Núna eigum við að setja á dagskrá styttingu vinnuvikunnar. Íslendingar búa við langa vinnuviku í samanburði við nágrannaþjóðir og vinnudagur barna í leikskóla og yngstu bekkjum grunnskólans er alltof langur.

Við eigum að ræða starfsaðstæður kennara og merkjanlegt meira álag í starfi, langtímaveikindi og kulnun meðal kennara. Við þurfum að ræða sveigjanlegri vinnudag og meira rými til undirbúnings kennslu.

Við eigum að taka höndum saman með forystu annarra opinberra stéttarfélaga og ræða sameiginleg hagsmunamál okkar og þar er stærsta áskorunin launajöfnun milli hins opinbera og almenna markaðar, mál sem varðar framtíð okkar allra.

Það er í mörg horn að líta fyrir formann KÍ, sem verður kosinn dagana 1. til 7. nóvember. Formaður þarf að leiða kennara áfram til virðingar í samfélaginu og til betri launa og starfsaðstæðna og veita stjórnvöldum margvíslegt aðhald. Þá munar um að formaður KÍ hafi staðið í eldlínu, þekki forsendur og forsögu, þori og geti tekið erfiðar ákvarðanir í flóknum málum. En formaðurinn mun ekki standa einn í brúnni, við munum gera þetta öll saman.

Guðríður Arnardóttir

 

 

Tengt efni