is / en / dk

27. október 2017

Íslenskum kjósendum býðst allskonar aðstoð við að gera upp hug sinn fyrir komandi Alþingiskosningar. Þar skiptir langsamlega mestu að tveir fjölmiðlar hafa samið ítarleg kosningapróf sem greina eiga hvaða samleið þú átt með flokkunum sem fram eru komnir.

Á kosningaprófi RÚV er 31 spurning. Þar er spurt um kannabisefni og kvótaflóttamenn. Tvær spurningar snúast um hagsmuni háskólanema. Ekkert er spurt um menntun að öðru leyti. Kosningapróf Stundarinnar er 63 spurningar. Þar er spurt um listamannalaun, sykruð matvæli og Donald Trump. Þar er engin spurning um menntamál.

Ragnar Þór Pétursson, frambjóðandi til formanns KÍ. 

Kosningaprófin endurspegla hina pólitísku umræðu síðustu ára. Þau staðfesta, það sem við flest vitum, að mistekist hefur að halda menntamálum vakandi í hugum fólks. Það hefur mistekist að berjast fyrir skólamálum á Íslandi.

Fyrir frambjóðanda í kosningabaráttu innan samtaka kennara væri freistandi að velta sér upp úr þessu og reyna að finna sökudólga. Ég ætla samt að sleppa því. Ég ætla að láta mér nægja að segja að þetta verður að breytast – og þetta verður að breytast hratt!

Það gengur ekki að klósett á ferðamannastöðum eða bjór í matvörubúðum vegi þyngra í ákvarðanatöku fólks í þingkosningum en það hvort gripið sé til björgunaraðgerða í menntakerfi sem hægt og rólega er að blæða út.

Fyrir sex árum skrifaði ég heimsósómapistil um hættuna sem byrjuð var að sækja að menntakerfinu okkar. Mig langar að rifja upp nokkur orð úr honum:

„Íslendingar hafa enn ekki áttað sig á því af hverju þeir heita Íslendingar. Þeir hafa ekki náð punktinum á bak við nafnið. Samt átti það að virka sem viðvörun. Eilífur minnisvarði um fyrstu íslensku lífskjarabóluna, sumarið sem Hrafna-Flóki dvaldi hér við að tína ber af runna og moka silungi úr ám. Eða réttara sagt minnisvarði um fyrsta íslenska hrunið: Veturinn eftir.

Ekkert ríki í heiminum kemst til velsældar og heldur sér þar nema tryggja góða undirstöðumenntun. Það eru eins örugg sannindi og þau að sá sem aflar ekki vetrarforða á vonda vist framundan.

En á Íslandi eru tímar velsældar alltaf notaðir til að kenna nýrri kynslóð að nám sé töpuð vinna.“

Sextíu og þriggja spurninga kosningapróf án spurninga um menntun er vísir að sextíu og þriggja þingmanna Alþingi án meðvitundar um menntun.

Áður en við eigum nokkra raunhæfa möguleika á að koma á í landinu þjóðarsátt um mikilvægi menntunar og kennara verðum við að brjótast inn í vitund fólks. Það gerum við ekki með þeim aðferðum sem beitt hefur verið hingað til.

Verði ég kosinn formaður Kennarasambands Íslands verður það eitt af forgangsmálum mínum.

Ég vil þakka þeim sem sent hafa mér spurningar um framboðið á ragnarkennari@gmail.com eða gegnum fésbókina. Ég hef hingað til náð að svara öllum spurningum sem mér hafa borist. Ég mun reyna að tryggja að svo verði áfram þrátt fyrir að ég sinni framboðinu í hjáverkum meðfram fullri kennslu.

Svo hlakka ég til að sjá ykkur, sem möguleika eigið á því, sem flest á opnum fundi með okkur frambjóðendum þann 30. október klukkan átta að kvöldi í Gerðubergi í Reykjavík.

Meðvitund um menntamál verður að byrja hjá okkur og smitast þaðan út til annarra. Að láta sig forystumál Kennarasambandsins varða er að mínu áliti ágæt byrjun á þeim breytingum sem gera þarf.
 

 

Tengt efni