is / en / dk

18. október 2016

Sveitarstjórnir þurfa að gera upp við sig hvort þær vilja tónlistarskóla í þessu landi. 

Kjarasamningar tónlistarskólakennara hafa nú verið lausir í tæpt ár eða frá 1. nóvember á síðasta ári. Í annað sinn á stuttum tíma þarf þessi minnsti kennarahópur að vera samningslaus í meira en ár áður en svo mikið sem örlar fyrir samningsvilja samninganefndar sveitarfélaga. Og enn einu sinni mætir þessi sami hópur óskiljanlegri óbilgirni og heift við samningaborðið. Viðhorf sveitarstjórnarmanna til tónlistarskólakennara sem endurspeglast í launahugmyndum samninganefndar sveitarfélaga er reiðarslag fyrir stéttina.

Á árunum fyrir hrun voru laun umsjónarkennara í grunnskólum og tónlistarskólakennara sambærileg. Í byrjun árs 2019, þegar flestir kjarasamningar sem undirritaðir hafa verið á þessu ári renna út, verður staðan þessi samkvæmt tilboði SNS: Dagvinnulaun tónlistarskólakennara fyrir fullt starf verða þá 470.000 krónur á mánuði á sama tíma og aðrir kennarar verða komnir með tæpar 539.000 krónur á mánuði.

Þetta launabil er að mestu leyti til komið vegna þess að FT missti úr eina samningalotu hrunárið 2008 og ekki hefur tekist að leiðrétta þetta ósamræmi síðan þá. Lítill ávinningur var af 5 vikna verkfalli 2014, enn er allt að 15% munur milli tónlistarskólakennara og annarra kennara. Það er engan veginn ásættanlegt.

Sú var tíðin að tónlistarskólinn var stolt hvers bæjarfélags. Nú er öldin önnur.

Stefna sveitarfélaga um að sambærileg og jafnverðmæt störf séu launuð með sama hætti virðist hafa tekið u-beygju. Skilaboð sveitarfélaga til tónlistarkennara sem birtast í þessum hugmyndum eru skýr: störf ykkar eru ekki jafn verðmæt og störf annarra kennara.

Þegar sjást merki um fjöldaflótta úr stéttinni og tónlistarskólakennarar leita á önnur mið; þeir hverfa til annarra starfa eða hefja nám á öðrum vettvangi. Nýliðun er lítil sem engin. Síendurtekinn leikur sveitarfélaga gegn þessari minnstu starfstétt kennara, þar sem aflsmunar er beitt, er farinn að hafa áhrif á vellíðan kennara í starfi. Sú þróun að allar skólagerðir eigi að vinni saman til hagræðingar fyrir alla gengur ekki ef þessi mismunun heldur áfram. Það er ekki sanngjarnt að kennari sem gengur inn í stofu 4 að kenna sé á 15% lægri launum en sá sem gengur inn í stofu 3.

 

Dagrún Hjartardóttir, tónlistarskólakennari og sérfræðingur
á skrifstofu Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum. 

 

Tengt efni


Warning: array_filter() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 35

Warning: array_flip() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 42