Nótan – uppskeruhátíð tónlistarskóla

NÓTAN - uppskeruhátíð tónlistarskóla var fyrst haldin skólaárið 2009-2010 og er árlegur viðburður í kerfi tónlistarskóla á Íslandi.

Uppskeruhátíðin er ný vídd í starfsemi tónlistarskóla. Hátíðin er í senn faglega hvetjandi og skemmtilegt innlegg í skólastarfið fyrir alla aðstandendur skólanna jafnt innan veggja þeirra sem utan.

Uppskeruhátíðin er þrískipt og skipulögð þannig að allir geti tekið þátt. Þátttakendur eru:

  • frá öllu landinu,
  • á öllum aldri og 
  • á öllum stigum tónlistarnáms.

Tónlistarskólar starfa eftir heildarstefnu um nám og kennslu sem sett er fram í aðalnámskrá tónlistarskóla. Námið skiptist í þrjá megináfanga: grunnnám, miðnám og framhaldsnám og nær frá samþættu tónlistarnámi í forskóla upp að tónlistarnámi á háskólastigi.

Í samræmi við áherslu á sjálfstæði skóla og sveigjanlegt skólastarf er starf tónlistarskóla gríðarlega fjölbreytt og gegna sérhæfð og staðbundin markmið tónlistarskóla lykilhluverki í þróun öflugs tónlistarskólakerfis á landsvísu.


Tónlistarskólar landsins eru um níutíu talsins og um 15.000 nemendur stunda nám innan tónlistarskólakerfisins.

Með uppskeruhátíðinni er kastljósinu beint að samfélagi tónlistarskóla og tónlistarnemendum veittar viðurkenningar fyrir afrakstur vinnu sinnar.


Helsta verkefni menntastofnana er að stuðla að almennri menntun og alhliða þroska nemenda. Einnig að efla sjálfsmynd þeirra og sjálfstraust, vellíðan, sköpunarkraft og hæfni til að takast á við áskoranir daglegs lífs.

„NÓTAN felur í sér ákveðið ferli og ferðalag í margvíslegum skilningi og maður þarf ekkert að vera búinn að vera lengi á ferð til að sjá að tónlistarnámið tekur til allra framangreindra þátta um hlutverk menntastofnana á því ferðalagi. NÓTAN speglar vel víðfeðmt gildi tónlistarnáms og hlutverk tónlistarskóla sem mennta- og menningarstofnana.“


NÓTAN - uppskeruhátíð tónlistarskóla er samstarfsverkefni Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, Samtaka tónlistarskólastjóra, Tónastöðvarinnar, Töfrahurðar og Tónlistarsafns Íslands. Á Nótunni 2016 bættist Sinfóníuhljómsveit áhugamanna í hóp samstarfsaðila.

Rafrænt fréttabréf FT sem kom út í nóvember 2015 (3. tbl. 2015) var að mestu helgað fyrirkomulagi NÓTUNNAR 2016. Í fréttabréfinu má lesa eftirfarandi um tilurð NÓTUNNAR:
 

NÓTAN - söguleg ljóstýra

Meðgangan

Hugmyndin að uppskeruhátíð tónlistarskóla kviknaði í ársbyrjun 2007. Við tók tveggja ára meðganga þar sem hugmyndin var rædd og mótuð. Vorið 2009 var síðan tekin ákvörðun um að ýta verkefninu úr vör og hafði efnahagshrunið haustið 2008 sín áhrif á þá tímasetningu.

Ákvörðunin var í senn hluti af faglegu stefnumiði og mótvægisaðgerðum sem þóttu til þess fallnar að varða leið stéttarinnar og tónlistarfræðslu út úr kreppunni.
 

Um hundrað ár skilja að stofnun fyrsta tónlistarskólans og stofnun NÓTUNNAR

NÓTAN - uppskeruhátíð tónlistarskóla var haldin í fyrsta skipti árið 2010 og er haldin í sjöunda skiptið á vorönn ársins 2016. Til gamans má benda á að í sögulegu samhengi er NÓTAN sett á stofn um 100 árum eftir stofnun fyrsta formlega tónlistarskólans á Íslandi en það mun hafa verið Tónlistarskóli Ísafjarðar (sá fyrri) sem var stofnaður af Jónasi Tómassyni árið 1911.
 

Net tónlistarskóla um land allt

Mikilvægasti þátturinn í þróun íslenskrar tónlistarfræðslu á 20. öld. Í samantekt Dr. Þóris Þórissonar „Þróun tónlistarfræðslu á Íslandi á 20. öld“ sem hann vann að beiðni FT í tilefni af afmælisári félagsins 2003, er dregið fram að vegferðin lá að mestu leyti upp á við á öldinni sem leið, jafnsléttur voru þó greinanlegar en velvilji í garð tónlistarfræðslu var ríkjandi.

Árið 1989 markar svo skil og varnartímabil hefst sem varir enn. NÓTAN verður til á þeim tímapunkti og í því umhverfi þar sem varnartímabil tónlistarfræðslu hafði staðið í um tvö áratugi - stigvaxandi aðfarir voru farnar að ógna undirstöðum tónlistarskólakerfisins.

Í samantekt sinni undirstrikar Dr. Þórir að mikilvægasti þátturinn í þróun íslenskrar tónlistarfræðslu á 20. öldinni felist án efa í því að hér var búið til net tónlistarskóla sem teygði sig um allt land.
 

Frá grunneiningu til viðtækasta samstarfsverkefnis í kerfi tónlistarskóla á Íslandi

Þegar horft er til þess mikilvæga tímaskeiðs í þróun tónlistarfræðslu á Íslandi sem gaf af sér þá virðiskeðju tónlistarskóla út um allt land, sem við búum við í dag, þá er NÓTAN skemmtilega táknræn varða á þeirri vegferð.

Eins og allir vita þá er grunneiningin í tónlist kölluð NÓTA. Þegar svo lengra er haldið þá lýtur tónsköpunin meðal annars að því að raða hljóðum og tónum saman - að setja hlutina í ákveðið samhengi.

Sem heiti á viðtækasta samstarfsverkefni sem hefur verið hrint í framkvæmd í kerfi tónlistarskóla endurspeglar NÓTAN - uppskeruhátíð tónlistarskóla, vel „sköpunarverkið“ gangverk virðiskeðjunnar sem nær hringinn í kringum landið.

Hver hlekkur, hver nóta og hver skóli hefur mikilvægu hlutverki að gegna. Það er vegna þessa nets tónlistarskóla út um allt land sem tónlistarskólakerfið á Íslandi hefur vakið verðskuldaða eftirtekt langt út fyrir landsteinana. Fyrir tilstuðlan samlegðaráhrifa þessa kerfis „grasrótar tónlistarsköpunar“ skilar tónlistarfræðsla á Íslandi svo afðbærri afurð sem raun ber vitni.
 

NÓTAN - svar við „ósmættanlegri“ tónlist

Við tölum stundum um tónlist sem sköpun og tjáningu tilfinninga þar sem höfðað er til skilnings á einhverju sem erfitt er að lýsa með orðum, - að tónlist sé „ósmættanleg“ þ.e. henni verði ekki lýst eða gert skil með öðrum hætti en að flytja hana - að henni verði best lýst með sjálfri sér.

Með vísan til framangreinds er NÓTAN í hinu stóra samhengi, með hliðstæðum hætti, e.t.v. vettvangur og farvegur sem best er til þess fallinn að varpa ljósi á fagleg gæði þess starfs sem fram fer í tónlistarskólakerfinu á Íslandi.

Helsta tryggingin fyrir tilvist tónlistarskólans er sterk samfélagsstaða. Með faglegum metnaði og miðlun á þeim þekkingarauði sem þar hefur orðið til styrkir tónlistarskólinn undirstöður sínar. Í fjölbreyttu og frjóu samstarfi og samspili við umhverfi sitt nær svo stofnunin fram margfeldisáhrifum sem samfélagið í heild nýtur góðs af.

Látum hljóma svo heyrist!