Nótan – uppskeruhátíð tónlistarskóla

NÓTAN - uppskeruhátíð tónlistarskóla er samstarfsverkefni tónlistarskólakerfisins, „grasrótar tónlistarsköpunar“ á Íslandi.
 

MARKMIÐ NÓTUNNAR

Markmið Nótunnar ná allt frá því að styrkja ungt tónlistarfólk til listsköpunar til þess að efla listir, menntun og menningu í samfélaginu.
 

Gagnvart tónlistarnemendum:

 • Að bjóða upp á faglega hvetjandi vettvang fyrir tónlistarnemendur á öllum aldri, út um allt land,
 • að gefa ungu tónlistarfólki tækifæri til að flytja tónlist og hlýða á aðra við metnaðarfullar aðstæður,
 • að hvetja tónlistarnemendur til dáða með því að veita þeim viðurkenningu fyrir afrakstur vinnu sinnar og frammistöðu.
   

Gagnvart samfélaginu í víðu samhengi:

 • Að efla vitund um mikilvægt hlutverk tónlistarskóla á sviði menntunar, lista og menningar,
 • að efla skilning á víðtæku framlagi tónlistarfræðslu og tónlistar til þjóðarbúsins sem og mennsku samfélagsins,
 • að efla tónlistarfræðslu og tónlistarlíf á Íslandi!
   

Jákvæðnin er ríkjandi afl í Nótunni en um leið er „keppniselementið“ nýtt til að ýta undir frumkvæði, hugmyndaauðgi, kjark og faglegan metnað nemenda og skóla.
 

 • Verkefnið hefur breiða samfélagslega skírskotun en það fellur jöfnum höndum undir svið lista-, menningar- og menntamála sem og stoð skapandi greina í atvinnulífi þjóðarinnar.
 • Verkefnið hefur víðtæk jákvæð áhrif, s.s. á menntun, þroska og sjálfsmynd nemenda, á nærumhverfi skóla þar sem samfélögin á hverjum stað taka þátt í viðburðinum á skóla-, svæða- og landsvísu.
 • Sköpun, listum og menningu er gert æ hærra undir höfði í umræðu um menntun, mennsku og atvinnulíf.  Nótan er verðugt innlegg á þeirri vegferð og í samræmi við andblæ 21. aldarinnar.