Nótan – uppskeruhátíð tónlistarskóla

NÓTAN - uppskeruhátíð tónlistarskóla fer nú fram í tíunda sinn. Hátíðin er samstarfsverkefni Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) og Samtaka tónlistarskólastjóra (STS).
 

Skipulag og grunnhugsun

Skipulag og grunnhugsun uppskeruhátíðar tónlistarskóla byggir á því að þátttakendur séu frá öllu landinu, á ólíkum aldri og öllum stigum tónlistarnámsins. Fyrirkomulagi hátíðarinnar er ætlað að endurspegla ólík viðfangsefni tónlistarnemenda og það fjölbreytta starf sem fram fer innan tónlistarskóla.

 

A.  Uppskeruhátíð tónlistarskóla fer fram í þremur hlutum:

FYRSTI HLUTI UPPSKERUHÁTÍÐAR TÓNLISTARSKÓLA fer fram inn í tónlistarskólunum og felur í sér forval/tilnefningar á atriðum til þátttöku á svæðisbundna hluta hátíðarinnar. Skólar geta unnið úr hugmyndinni hver með sínu sniði og leiðir geta verið ólíkar á milli ára. Sem dæmi um leiðir sem hafa verið farnar:

 • Uppskeruhátíðir einstakra skóla.
 • Sérstakir valtónleikar innan hvers skóla.
 • Keppni innan einstakra skóla.
 • Kennarahópurinn velur atriði.

Þau atriði sem hver skóli velur/tilnefnir verða á efnisskrá svæðistónleika sem er annar hluti uppskeruhátíðar tónlistarskóla.
 

ANNAR HLUTI UPPSKERUHÁTÍÐAR TÓNLISTARSKÓLA felst í svæðistónleikum sem haldnir eru á fjórum svæðum:

 • Kraginn, Suðurland og Suðurnes
  Laugardaginn 16. mars í Salnum í Kópavogi.
 • Norður- og Austurland
  Laugardaginn 23. mars í Eskifjarðarkirkju.
 • Vesturland og Vestfirðir
  Laugardaginn 23. mars í Hjálmakletti, Menntaskóla Borgarfjarðar.
 • Reykjavík
  Sunnudaginn 24. mars í Salnum í Kópavogi.
   

Svæðisstjórnir sjá um skipulagningu og framkvæmd svæðistónleika Nótunnar. Tiltekinn fjöldi atriða á hverjum svæðistónleikum öðlast rétt til þátttöku á lokahátíð Nótunnar sem er þriðji og síðasti hluti uppskeruhátíðarinnar.
 

ÞRIÐJI OG SÍÐASTI HLUTI UPPSKERUHÁTÍÐAR TÓNLISTARSKÓLA fer fram í formi lokahátíðar á landsvísu.

Lokahátíð Nótunnar samanstendur af tvennum tónleikum og lokaathöfn og er haldin í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri laugardaginn 6. apríl 2019.

 • Á tónleikum lokahátíðarinnar eru flutt 24 tónlistaratriði sem valin hafa verið af svæðistónleikum Nótunnar.
 • Á lokaathöfn hátíðarinnar eru veittar viðurkenningar, verðlaunagripir og önnur verðlaun sem geta verið tengd þema/áherslum Nótunnar ár hvert.

 

B.  Þátttökuflokkar Nótunar eru fjórir:

Grunnnám, miðnám, framhaldsnám og „opinn flokkur“
Uppskeruhátíðin er opin öllum tónlistarnemendum og hefur engin aldursmörk. Þátttakendum er skipað í flokka eftir áfangaskiptingu aðalnámskrár tónlistarskóla, þ.e. í grunnnám, miðnám og framhaldsnám. Fjórði þátttökuflokkurinn „opinn flokkur“ bættist við árið 2014. Opinn flokkur er hugsaður fyrir atriði sem eru skipuð nemendum úr ólíkum námsáföngum. Flokkurinn er viðbót fyrir blönduð atriði og er honum ætlað að koma til móts við atriði með nemendum á ólíkum stigum tónlistarnámsins.
 

Röðun atriða í þátttökuflokka þegar um ræðir skörun á milli námsáfanga
Leyfilegt er að skrá hópatriði í tiltekinn námsáfanga þó svo 10% nemenda eða færri séu á hærra námsstigi. Vafamál skal bera undir framkvæmdastjórn Nótunnar. Í samræmi við framangreint hafa kennarar ákveðið val við staðsetningu blandaðra atriða í þátttökuflokk.

Nánar um 10% regluna: Byggt er á því viðmiði að vægi mögulegrar umframgetu nemenda í efri námsáfanga fari ekki yfir 10%. Við mat á framangreindu vægi er, m.a. horft til hlutfallslegs fjölda nemenda sem um ræðir, hve langt er síðan þeir færðust upp um námsáfanga og hlutverks viðkomandi nemenda í atriðinu.

 

C.  Viðurkenningarflokkar

Á hverjum svæðistónleikum og lokahátíð Nótunnar fær tiltekinn fjöldi atriða verðlaunagrip Nótunnar og sérstök viðurkenningarskjöl. Leitast er við að veita viðurkenningar í sem flestum viðurkenningar- og þátttökuflokkum en faglegt mat skal þó alltaf vera ráðandi. Þannig er ekki sjálfgefið að viðurkenningar dreifist jafnt á flokka. Viðurkenningarflokkarnir eru:

 1. Einleiks-/einsöngsatriði (hér líka konsert eða sambærilegt verk).
 2. Samleiks-/samsöngsatriði.
 3. Frumsamið tónverk /eða frumlegt atriði.
   

D.  Fjöldi atriða á lokahátíð

Á lokahátíð Nótunnar eru flutt tuttugu og fjögur tónlistaratriði sem valin hafa verið á svæðistónleikum hátíðarinnar.

FJÖLDI ATRIÐA SEM ÖÐLAST ÞÁTTTÖKURÉTT Á LOKAHÁTÍÐ NÓTUNNAR
Reykjavík 7
Vesturland og Vestfirðir 3
Norður- og Austurland 7
Kraginn, Suðurland og Suðurnes 7
   

E.  Viðurkenningar og verðlaunagripir

Svæðistónleikar
Allir þátttakendur á svæðistónleikum Nótunnar fá viðurkenningarskjal fyrir þátttöku auk þess sem tiltekinn fjöldi framúrskarandi atriða á hverjum svæðistónleikum fá verðlaunagrip Nótunnar og sérstök viðurkenningarskjöl. Þá öðlast tiltekinn fjöldi atriða á hverjum svæðistónleikum (sjá töflu að framan) þátttökurétt á lokahátíð Nótunnar.

Lokahátíð Nótunnar
Á lokahátíð Nótunnar fá allir þátttakendur viðurkenningarskjal fyrir þátttöku. Valnefnd velur tíu framúrskarandi atriði sem fá sérstök viðurkenningarskjöl og verðlaunagrip Nótunnar.

Farandgripur Nótunnar
Valnefnd útnefnir „besta atriði“ hátíðarinnar sem er verðlaunað sérstaklega með farandgrip Nótunnar sem varðveitast skal í viðkomandi tónlistarskóla á milli hátíða.

Viðurkenning Tónastöðvarinnar
Tónastöðin veitir „besta atriði“ Nótunnar sérstaka viðurkenningu í formi gjafabréfs frá Tónastöðinni.

Þátttaka á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna
Sinfóníuhljómsveit áhugamanna býður einu eða fleiri framúrskarandi atriðum á Nótunni að koma fram á tónleikum hljómsveitarinnar á næsta starfsári í viðurkenningarskyni. Atriðin sem verða fyrir valinu geta komið úr hvaða þátttöku- og viðurkenningarflokkum hátíðarinnar sem er. Útfærsla valinna atriða á dagskrá tónleika Sinfóníuhljómsveitar áhugamanna verður ákveðin í samráði við forsvarsmenn hljómsveitarinnar og skóla þeirra nemenda sem hljóta þessa viðurkenningu.