Nótan – uppskeruhátíð tónlistarskóla
24. Maí 2019

 

Nótan – uppskeruhátíð tónlistarskóla fagnar tíu ára afmæli á næsta ári. Að því tilefni verður Nótan í sérstökum hátíðarbúningi þar sem öllum tónlistarskólum verður boðið að senda tónlistaratriði á allsherjar uppskeruhátíð í Hörpu þann 29. mars 2020. Yfirstjórn þykir við hæfi að sem flestir fagni þessum tímamótum og því er þemað að þessu sinni: hljómsveitir eða hópatriði.

Gert er ráð fyrir að hámarks tímalengd atriða verði fimm mínútur og að smærri skólar geti sent eitt atriði en stærri skólar tvö. Einungis er hægt að gera ráð fyrir að eitt atriði frá hverjum skóla geti komið fram í Eldborgarsal Hörpu en þar sem um væri að ræða tvö atriði frá skóla myndi annað atriðið verða flutt í Hörpuhorninu. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag verða sendar út síðar.

Engir svæðistónleikar – engin valnefnd
Þetta árið verða ekki neinir svæðistónleikar og er það í höndum hvers skóla sem tekur þátt að ákveða hvernig staðið verður að vali þátttakenda á afmælishátíðinni. Á þessari allsherjar uppskeruhátíð verður keppniselementið lagt til hliðar og engin valnefnd því að störfum. Þá vinnur yfirstjórn Nótunnar að hugmynd sem gerir ráð fyrir aðkomu allra þátttakenda en nánar verður greint frá því síðar.

Sinfóníuhljómsveit áhugamanna
Sinfóníuhljómsveit áhugamanna er áhugasöm um að geta haldið uppteknum hætti og valið nemendur af Nótunni til að spila með hljómsveitinni á því starfsári sem á eftir kemur og því hefur verið ákveðið að samhliða afmælishátíðinni fari fram konsertveisla í hliðarsal. Þar geta nemendur sem hafa áhuga á því að spila einleik með Sinfóníuhljómsveit áhugamanna flutt konsertkafla (eða sambærilegt verk) og stjórnandi hljómsveitarinnar, Oliver Kentish, mun sem fyrr velja þá heppnu úr hópi flytjenda.

Tilkynning um þátttöku
Gert er ráð fyrir að skólar þurfi að tilkynna þátttöku snemma næsta haust svo hægt sé að skipuleggja hátíðina vel. Að sjálfsögðu eru svo allir sem vettlingi geta valdið hvattir til þátttöku í afmælishátíðinni!
Nánari upplýsingar verða sendar út síðar.
 
Allt um Nótuna.