Nótan – uppskeruhátíð tónlistarskóla
04. Apríl 2019

Undirbúningur vegna lokahátíðar Nótunnar sem fram fer í Menningarhúsinu Hofi nk. laugardag er í fullum gangi og mikil eftirvænting í loftinu.

Tuttugu og fjögur tónlistaratriði frá fernum svæðistónleikum Nótunnar verða flutt á tvennum tónleikum lokahátíðarinnar kl. 12 og 14 þar sem um sjötíu tónlistarnemendur munu stíga á stokk. Lokaathöfn hefst kl. 16:30 þar sem veittar verða viðurkenningar.

Allir tónlistarnemendurnir fá viðurkenningu fyrir þátttöku en auk þess munu tíu framúrskarandi tónlistaratriði hreppa verðlaunagrip Nótunnar 2019. Valnefnd velur besta atriði hátíðarinnar sem fær farandgrip Nótunnar og gjafabréf frá Tónastöðinni í viðurkenningarskyni.

Þá býður Sinfóníuhljómsveit áhugamanna framúrskarandi atriði/atriðum að koma fram á tónleikum hljómsveitarinnar á næsta starfsári.

Á milli viðburða í Hamraborg bjóða tónlistarnemendur upp á tónlistarflutning í öðru rými Hofs og verður dagurinn allsherjar veisluborð!
 

DAGSKRÁ LOKAHÁTÍÐAR:

Kl. 12:00   Tónleikar I grunnnám, miðnám og opinn flokkur.
Kl. 14:00   Tónleikar II opinn flokkur og framhaldsnám.
Kl. 16:30   Lokaathöfn, afhending viðurkenninga og verðlaunagripa.

Ávarp: Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga
Kynnir: Vilhjálmur Bergmann Bragason, vandræðaskáld.
 

VALNEFND:

  • Jónína Björt Gunnarsdóttir, söngkona.
  • Oliver Kentish, sellóleikari, stjórnandi og tónskáld.
  • Phillip J. Doyle, saxófónleikari.