Íþrótta- og heilsufræðifélag Íslands


1. grein
Félagið heitir Íþrótta- og heilsufræðifélag Íslands, skammstafað Í.H.F.Í. Félagið hefur lögheimili og varnarþing í Reykjavík.
 

2. grein
Markmið félagsins eru að:

 • auka samstarf meðal íþróttafræðinga, íþróttakennara, íþróttaþjálfara og annarra sérfræðinga á sviði íþrótta og heilsu,
 • beita sér fyrir kjörum og réttindum félagsmanna,
 • vinna að aukinni menntun félagsmanna innanlands sem utan,
 • vinna að framförum í íþróttakennslu í skólum, á sviði líkams- og heilsuræktar á heilsustofnunum og líkams- og heilsuræktarstöðvum og á sviði þjálfunar hjá íþróttafélögum eða öðrum þeim stöðum þar sem félagsmenn starfa,
 • beita sér fyrir bættri aðstöðu til íþrótta og heilsuræktar í landinu,
 • að stuðla að aukinni líkams- og heilsurækt meðal landsmanna,
 • beita sér fyrir bættum kjörum og réttindum félagsmanna,
 • gefa út fræðslurit á sviði íþrótta og heilsu
,
 • standa fyrir námskeiðum á fagsviði félagsmanna, eitt og sér eða í samvinnu við aðra fagaðila.
   

3. grein
Stjórn félagsins skipa 9 menn: Formaður, varaformaður, gjaldkeri, ritari og 5 meðstjórnendur. Nýr formaður er kosinn til tveggja ára en endurkjörinn til eins árs í senn eftir það. Aðrir stjórnarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn. Á hverju ári skal því kjósa fjóra stjórnarmenn til tveggja ára og formann þegar það á við, annað hvort til eins eða tveggja ára í senn. Á aðalfundi skal einnig kjósa 3 varamenn í stjórn, tvo endurskoðendur og tvo til vara, alla til eins árs. Óheimilt er að kjósa mann í stjórn sem er fjarverandi á aðalfundi eða hefur ekki veitt samþykki sitt fyrir kjöri. Allar kosningar í embætti á vegum félagsins, sem fara fram á aðalfundi, skulu vera leynilegar ef ekki er sjálfkjörið. Íþrótta- og heilsufræðifélagi Íslands skal sett skipurit sem endurskoðað er á a.m.k. fimm ára fresti. Í skipuriti skal koma fram skipting félagsins í deildir, m.a. deild íþróttakennara, deild íþrótta- og heilsufræðinga og deild íþróttaþjálfara. Stjórn félagsins skiptir með sér verkum á fyrsta fundi sínum eftir aðalfund þar sem tekið er mið af gildandi skipuriti félagsins.
 

4. grein
Stjórn félagsins fer með æðsta vald milli aðalfunda. Sé um veigamikil mál að ræða getur stjórn félagsins boðað til félagsfundar til að fá umræðu og álit félagsmanna á viðkomandi málefni. Rétt til setu á félagsfundi með atkvæðisrétt, málfrelsi og tillögurétt hafa allir skuldlausir félagar.

Stjórn félagsins ber að efla félagið á allan hátt og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Henni ber að framkvæma ákvarðanir aðalfundar ÍHFÍ. Stjórn er heimilt að skipa starfsnefndir innan félagsins til að vinna að markmiðum þess. Meginverkefni stjórnar er að framfylgja markmiðum félagsins og öðrum stefnumarkandi samþykktum félagsmanna. Kaup og sala fasteigna í nafni félagsins er bundin samþykkt aðalfundar félagsins. Stjórn félagsins kemur sér saman um merki félagsins.
 

5. grein
Uppstillingarnefnd þriggja manna skal skipuð af aðalstjórn og starfar milli aðalfunda. Nefndin skal leggja fram tillögu um formann, stjórnarmenn og skoðunarmenn reikninga,  sbr. 3. grein. Tillögur uppstillingarnefndar skulu liggja fyrir einum mánuði fyrir aðalfund og auglýstar í fundarboði.
 

6. grein
Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald í málefnum þess. Aðalfund félagsins skal halda í ágúst eða september ár hvert. Boða skal til aðalfundar með minnst 15 daga fyrirvara. Rétt til setu á aðalfundi með atkvæðisrétt, málfrelsi og tillögurétt hafa allir skuldlausir félagar. Fundurinn er lögmætur sé löglega til hans boðað.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

 1. Setning.

 2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

 3. Kosning starfsnefnda, ef fyrir fundinum liggja tillögur er fjalla þarf um í nefndum.

 4. Skýrsla stjórnar og lestur reikninga.

 5. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.

 6. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram til samþykktar.

 7. Tillögur og lagabreytingar sem borist hafa kynntar
.
 8. Fundarhlé.
 9. Umræður um tillögur og lagabreytingar, atkvæðagreiðsla.

 10. Upphæð árgjalds ákveðin.

 11. Kosning stjórnar samkvæmt 3. grein laga.
 12. Önnur mál.

 13. Fundarslit.
   

7. grein
Aðilar sem eiga rétt á að vera félagsmenn í íþrótta- og heilsufræðifélagi Íslands:


 1. Þeir sem hafa útskrifast með íþróttakennara- eða íþróttafræðimenntun frá gildum háskólum eða kennaramenntunarstofnunum hér á landi. Þessir aðilar  verða skráðir sem félagsmenn, án umsóknar, nema því aðeins að viðkomandi óski annars.

 2. Þeir sem hafa útskrifast úr íþróttaháskólum eða sambærilegum stofnunum erlendis og hafa óskað eftir að gerast félagsmenn.

Stjórn félagsins er falið að setja frekari reglur um aðild að félaginu fyrir þá aðila sem ekki heyra undir liðina hér að ofan.
 

8. grein
Félagið getur á aðalfundi útnefnt heiðursfélaga samkvæmt reglugerð þar um. Það er á valdi hverrar stjórnar að útbúa og/eða endurskoða reglur um heiðursfélaga.
 

9. grein
Sé um veigamikil mál að ræða getur stjórn félagsins boðað til félagsfundar til að fá umræðu og álit félagsmanna á viðkomandi málefni. Rétt til setu á félagsfundi með atkvæðisrétt, málfrelsi og tillögurétt hafa allir skuldlausir félagar.
 

10. grein
Til almennra félagsfunda svo og fræðslufunda skal boða með dagskrá í fréttabréfi, fjölmiðlum eða bréflega með tveggja vikna fyrirvara. Ef 10% félagsmanna óska skriflega eftir félagsfundi ber stjórn að boða hann innan eins mánaðar frá því að beini er lögð fram.
 

11. grein
Reikningsár félagsins skal vera 1. janúar til 31. desember ár hvert. Árgjöld starfsársins skulu greidd fyrir lok desember ár hvert.
 

12. grein
Tillögu um að leggja félagið niður má aðeins taka fyrir á lögmætum aðalfundi. Til þess þarf samþykki 3/4 hluta greiddra atkvæða. Verði félagið lagt niður renna eignir þess til Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.
 

13. grein
Úrsögn úr ÍHFÍ skal vera skrifleg. Skuldi félagsmaður árgjald sitt missir hann félagsréttindi sín það árið. Hann getur endurheimt þau með því að greiða skuld fyrra árs ásamt greiðslu félagsgjalds yfirstandandi árs. Greiði hann ekki í tvö ár í röð er litið svo á að hann hafi sagt sig úr félaginu. Óski hann eftir því að gerast félagsmaður að nýju verður hann að sækja um það skriflega til stjórnar félagsins.
 

14. grein
Lögum þessum er aðeins hægt að breyta á lögmætum aðalfundi með tveimur þriðju hluta (2/3) greiddra atkvæða. Tillögur til lagabreytinga skulu vera undirritaðar og auglýstar í fundarboði.
 

15. grein
Lög þessi öðlast gildi 21.11.2014. Jafnframt falla þá úr gildi fyrri lög félagsins. Samþykkt á aðalfundi Íþróttakennarafélags Íslands 21. nóvember 2014.