Félag raungreinakennara
28. Ágúst 2019

 

PhO er alþjóðlega ólympíukeppnin í eðlisfræði (International Physics Olympiad) og er haldin árlega fyrir framhaldsskólanemendur sem skara fram úr í eðlisfræði í sínu föðurlandi og eru yngri en 20 ára. Að þessu sinni voru Eðlisfræðileikarnir haldnir í Tel Aviv í Ísrael 5.júl til 15.júl og fyrir Íslands hönd mættu 5 knáir drengir sem höfðu verið valdir með forkeppni í febrúar og úrslitakeppni í mars. Svo vill til að allir drengirnir voru nemendur í MR og er það í fimmta sinn í 34ra ára sögu eðlisfræðikeppninnar að allir liðsmennirnir koma frá MR.

Landskeppni í eðlisfræði er félag sem í umboði Eðlisfræðifélags Íslands og Félags raungreinakennara sér um framkvæmd eðlisfræðikeppninnar innanlands, val á keppendum fyrir ferðina til IPhO, þjálfun þeirra og ferðalagið til og frá keppnisstað. Það er menntamálaráðuneytið sem stendur straum af meginkostnaðinum við starfsemi Landskeppninnar ásamt skóla keppenda en það er fagnaðarefni að á þessu ári styrkti menntamálaráðuneytið keppendurna einnig persónulega vegna tekjutaps þeirra af sumarvinnu sem þeir gátu ekki unnið. Keppendurnir sóttu ennfremur styrki til Marels, Mannvits, Stillingar og Ölgerðarinnar, aðallega til að greiða fyrir einkennisboli liðsins og áprentun þeirra.

Stúdentar í eðlisfræðinámi við HÍ sömdu forkeppnina undir forystu Matthíasar Harksen og fóru yfir lausnir 214 nemenda frá 13 framhaldsskólum. Veitt voru bókaverðlaun fyrir 20 bestu lausnirnar en 14 keppendum var boðið að koma til úrslitakeppninnar. Sömu stúdentar sömdu fræðilegu úrslitakeppnina og fóru yfir lausnir 14 keppenda frá 3 framhaldsskólum en Ari Ólafsson samdi verklegu úrslitakeppnina og fór yfir ásamt samstarfsmönnum sínum. Fyrir 5 bestu lausnirnar voru veitt peningaverðlaun og þáðu þeir flestir sæti í IPhO liðinu. Eðlisfræðiliðið 2019 var svona skipað:

Bjarki Harksen, Freyr Hlynsson, Jason Andri Gíslason, Kristján Leó Guðmundsson og Þorsteinn Ívar Albertsson. Fararstjórar voru Matthías Harksen og Viðar Ágústsson.

Þjálfunarprógrammið byrjaði með einnar viku upphitun í stærðfræðigreiningu í MR og fjarþjálfun í grundvallaratriðum eðlisfræðinnar. Síðan tóku við 5 vikur í þjálfun í HÍ og HR undir stjórn Matthíasar en bæði stúdentar við HÍ og starfsmenn HÍ og HR skiptu með sér störfum við þjálfun í fræðilegri og verklegri eðlisfræði.

Ferðin til Tel Aviv gekk vel og íslenska keppnisliðið fékk VIP móttökur og fylgd gegn um landamæraeftirlit Ísraels á Ben Gurion flugvellinum. Setningarathöfn var glæsileg og afþreying fyrir keppendur var skemmtileg meðan fararstjórarnir rökræddu og þýddu fræðilegu verkefnin; sú þýðingarvinna tók suma fararstjórana alla nóttina. Daginn eftir leystu keppendur fræðilegu keppnina meðan fararstjórarnir fengu fróðlega útsýnisferð til Jerúsalem. Keppendur fengu einn frídag og fóru í Dauðahafið en fararstjórarnir ræddu og þýddu verklegu verkefnin á meðan og flestir höfðu lokið vinnu sinni áður en lýsti af morgni. Á meðan keppendur leystu verklegu keppnina var fararstjórunum boðið í ferð til Haifa þar sem heimsmiðstöð Baháa er. Verkefnin voru bæði fróðleg og frumleg og fengu Ísraelsmenn mikið hrós fyrir vönduð verkefni en þau reyndust keppendum mjög erfið.

Verðlaunaafhendingin var þriggja tíma löng athöfn og þar kom í ljós að Íslendingarnir voru neðstir norðurlandaþjóðanna; í neðsta þriðja hluta hinna 380 keppenda frá 79 löndum og fengu engin verðlaun. Raunar vantaði efsta íslendinginn aðeins hálft stig af 50 til að ná upp í viðurkenningarflokk og þrátt fyrir hetjulega baráttu fararstjóranna fyrir þessari viðbót í karpi við dómarana var heiðursviðurkenningin aðeins sýnd veiði en ekki gefin. Drengirnir öðluðust keppnisreynslu og kynntust kröfunum og þrír þeirra gætu mögulega notið þeirrar þekkingar til að ná betri árangri á næstu IPhO sem haldnir verða í Tallin í Eistlandi.