Félag enskukennara á Íslandi
02. Apríl 2019
Þann 30. mars síðastliðinn bauð FEKÍ upp á mjög áhugaverða vinnustofu. Ken Lackman, reynslubolti frá Ryerson háskólanum í Toronto kenndi viðstöddum mjög áhugaverðar og lifandi aðferðir til að fá nemendur til að æfa hina ýmsu þætti í tungumálum, svo sem setningaskipan, málfræði og orðaforða. Aðferðin er byggð á ‚drill‘ æfingum sem notaðar voru óspart við þjálfun hermanna og hefur hann þróað þær og aðlagað að kennslustofunni þar sem nemandinn er virkur þátttakandi, sem einstaklingur eða í hóp, bæði munnlega og skriflega. Vinnustofan var vel sótt, en rúmlega 20 manns nýttu sér þetta einstaka tækifæri, enda var um mjög fróðlega og hagnýta vinnustofu að ræða sem viðstaddir geta eflaust nýtt sér í starfi.
 
Að lokinni vinnustofu var boðið upp á dýrindis veitingar í hádeginu áður en ráðist var í aðalfund FEKÍ. Hlín Hjartar Magnúsdóttir tók að sér fundarstjórn og Íris Rut Agnarsdóttir ritaði fundinn, tólf manns sátu fundinn sem var með hefðbundnu sniði. Félagið stendur ágætlega, en þó er þörf að fá fleiri meðlimi inn í félagið og efla það enn frekar. Rætt var um viðburði til að fagna 50 ára afmæli félagsins í ár og stefnir í fjölbreytta dagskrá yfir árið. Vonumst við til að sem flestir sjái sér fært að fagna þessum merka áfanga.
 
Breytingar urðu á stjórn FEKÍ, en úr henni gengur Lilja Margrét Möller sem hefur unnið mikilvægt starf í þágu félagsins um árabil. Er henni þakkað kærlega fyrir vel unnin störf. Inn í stjórnina kemur Fiona Oliver, kennari í Kelduskóla í Reykjavík. Samuel Lefever var kosinn áframhaldandi formaður og mun stjórnin hittast fljótlega til að skipta með sér verkum, en í stjórninni sitja, auk Samuels og Fionu, Íris Rut Agnarsdóttir, Edda Lára Kaaber, Þórunn Patricia Sleight og Pétur Már Sigurjónsson.