Félag enskukennara á Íslandi
29. Janúar 2019
Nú árið er liðið...
 
og janúar strax að verða búinn á þessu nýja ári. Á liðnu ári var ýmislegt um að vera hjá FEKÍ. Félagið stóð fyrir sínum vanalegu viðburðum og eins og árlegt er orðið hófst árið með yfirlestri og úrvinnslu úr smásögusamkeppninni, en þemað í það skiptið var DREAMS. Verðlaunaathöfnin var haldin á Bessastöðum þann 8. mars, 2018, þar sem Eliza Reid, forsetafrú, afhenti verðlaunin.
 
Í apríl hélt myndarlegur hópur enskukennara af landi brott og skunduðu á hina árlegu IATEFL ráðstefnu, sem að þessu sinni var haldin í Brighton á Englandi. Þar fengu fróðleiksþyrstir kennarar tækifæri til að drekka í sig alls konar upplýsingar og nýjungar í enskukennslu frá öllum heimshornum.
 
Aðalfundur FEKÍ fór fram í Fjölbrautarskólanum við Ármúla og var John Baird frá Queen‘s University í Belfast fenginn til að vera með stutta vinnustofu fyrir fundinn. Á vinnustofunni fór hann yfir hinar ýmsu aðferðir við að meta kunnáttu nemenda í akademískum orðaforða. 
 
Sumarnámskeið FEKÍ var haldið í Dublin á Írlandi á vegum Alpha College of English og var yfirskriftin Bringing Literature to Life in the Classroom. Þátttakan var mjög góð, en um 20 kennarar sóttu námskeiðið sem var mjög vel heppnað í alla staði. Auk þess að læra um mismunandi aðferðir við að kenna bókmenntir fóru þátttakendur í gönguferð með leiðsögn um miðborgina, Trinity College, National Library of Ireland ofl. Gefinn var smjörþefur af írskum dönsum, tungumáli og menningu, svo sem River Dancing og leikhúsferð að sjá Ulysses eftir James Joyce. Að sögn voru þátttakendur námskeiðsins mjög ánægðir með ferðina. 
 
Eitt helsta verkefni á enskukennarakaffi haustsins var að ákveða þema fyrir smásögukeppnina og var það gert í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði. Enskukennarar þar fræddu viðstadda um þeirra áherslur og skemmtileg verkefni í enskukennslu og eftir kaffi og meðlæti var rætt um hin ýmsu hugsanlegu þemu fyrir keppnina. Niðurstaðan varð svo DANGER. Mikill fjöldi sagna barst í keppnina og var það erfitt starf fyrir dómnefndina að velja bestu sögurnar. Verðlaunaafhendingin verður, sem fyrr, að Bessastöðum þann 27. febrúar n.k. 
 
FEKÍ 50 ára
Það er margt framundan hjá okkur á nýju ári, þessir föstu liðir eins og IATEFL ráðstefnan sem verður haldin í Liverpool 1-5. apríl, aðalfundurinn með óvæntum fróðleik, sumarnámskeið í júní og að sjálfsögðu smásögusamkeppnin. Svo ber að nefna að FEKÍ á stórafmæli á árinu 2019, en stefnt er á að halda upp á 50 ára afmæli félagsins á árinu. Við hvetjum alla meðlimi að fylgjast vel með og taka virkan þátt í starfinu, því þannig eflumst við í starfi og allt verður svo miklu skemmtilegra.