is / en / dk

02. Janúar 2019

Dagur leikskólans verður haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins þriðjudaginn 6. febrúar. Þetta er í tólfta skipti sem haldið er upp á daginn en sjötti febrúar er merkilegur dagur í leikskólasögu þjóðarinnar því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín.

Leikskólakennarar, stjórnendur leikskólanna og starfsfólk er hvatt til að halda upp á daginn með einhverjum hætti. Margir leikskólar hafa opið hús og eða vekja athygli á frábæru starfi leikskólanna með öðrum hætti.

Allir sem koma að málefnum leikskólans á einn eða annan hátt, eru hvattir til að halda Degi leikskólans á lofti og fylgjast vel með starfsemi leikskólanna þennan dag. Auk þess sem leikskólar um allt land gera starf sitt sýnilegt.

Þá eru leikskólakennarar hvattir til að segja frá viðburðum og setja myndir inn á samfélagsmiðla undir myllumerkinu #dagurleikskolans2019.  


AÐ YRKJA Á ÍSLENSKU – SKEMMTILEG RITLISTARKEPPNI MEÐAL LEIKSKÓLABARNA
Blásið verður til samkeppni meðal leikskólabarna í tilefni Dags leikskólans. Verkefnið er að yrkja á íslensku; á hvaða formi sem er (ljóð, vísur, sögur o.s.frv.) Efnistök eru frjáls.

Samkeppnin er liður í vitundarvakningu sem KÍ hratt af stað á Alþjóðadegi kennara í haust. Þá var ákveðið að setja móðurmálið í forgang og vinna að verndun og eflingu þess. 

Veitt verða þrenn verðlaun fyrir bestu textana. Skilafrestur 18. janúar 2019. Netfangið er dagurleikskolans@ki.is.
 

Orðsporið 2019 verður veitt við hátíðlega athöfn á Degi leikskólans, 6. febrúar 2019

Orðsporshafar fyrri ára
Síðastliðin sex ár hefur viðurkenningin Orðsporið verið veitt þeim sem hefur þótt skara fram úr í að efla orðspor leikskólans og eða hefur unnið ötullega í þágu leikskóla. Þeir sem hafa hlotið Orðsporið eru:

2018
Sveitarfélagið Hörgársveit
Fyrir að vera með hæsta hlutfall leikskólakennara sem starfa við menntun og uppeldi leikskólabarna. 

2017
Framtíðarstarfið – átaksverkefni um eflingu leikskólastigsins
Fyrir að vera vel heppnað verkefni, til þess fallið að efla orðspor leikskólakennarastarfsins og breyta afstöðu ungs fólks til þess. 

2016
Ásmundur Örnólfsson aðstoðarleikskólastjóri
Fyrir að verða alla tíð framúrskarandi fyrirmynd fyrir karla í leikskólakennarastarfi og leggja sitt af mörkum til að efla orðspor leikskólakennarastarfsins.

2015
Kópavogsbær og sveitarfélagið Ölfus
Fyrir að sýna sveigjanleika þannig að starfsfólk leikskóla geti sinnt námi með vinnu; aðstoða við námskostnað og veita launuð námsleyfi.

2014
Okkar mál – þróunarverkefni
Sem fól í sér aukið samstarf skóla og stofnana í Fellahverfi.

2013
Súðavíkurhreppur / Kristín Dýrfjörð og Margrét Pála Ólafsdóttir
Súðavíkurhreppur fyrir að bjóða gjaldfrjálsan leikskóla. Kristín og Margrét Pála fyrir að vekja umræðu um málefni leikskólans.

 

Dagur leikskólans 2017 – albúm á Facebook. 

Tengt efni