is / en / dk

19. Febrúar 2018

 

Sjö eru í framboði til stjórnar Félags framhaldsskólakennara en nýtt kjörtímabil stjórnar hefst á aðalfundi félagsins 27. apríl næstkomandi og stendur til aðalfundar ársins 2022. 

Sjö eru í framboði til stjórnar FF: Baldvin Björgvinsson (FB), Guðjón H. Hauksson (MA), Hanna Björg Vilhjálmsdóttir (BHS), Helga Jóhanna Baldursdóttir (TS), Óli Njáll Ingólfsson (VÍ), Sigrún Lilja Guðbjörnsdóttir (MS), Simon Cramer Larsen (FS)

Formannskjör fer fram samhliða stjórnarkjöri og eru tvö í framboði; Guðmundur Björgvin Gylfason, framhaldsskólakennari í Fjölbrautaskóla Suðurlands, og Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara. 

Atkvæðagreiðslan

 • Hefst klukkan 12:00 mánudaginn 5. mars
 • Lýkur klukkan 14 föstudaginn 9. mars

Kosnir verða fjórir aðalmenn og þrír varamenn í stjórn FF. Frambjóðendur kynntu sig og áherslur sínar á opnum framboðsfundi FF sem haldinn var í Gerðubergi að kvöldi fimmtudagsins 22. febrúar. Fundurinn var sendur út á vef Netsamfélagsins

HORFIÐ Á FRAMBOÐSRÆÐURNAR HÉR. 


Hér að neðan kynna frambjóðendur sig: 

 • Nafn: Baldvin Björgvinsson
 • Kennslugrein: Rafiðngreinar
 • Skóli: Fjölbrautaskólinn í Breiðholti
 • Menntun: Rafvélavirkjameistari, raffræðingur, kennari, slatti af sálfræði, skipsstjórnarréttindi og ýmislegt fleira.
 • Starfsreynsla: Fyrsta launaða starfið var bréfberi síðan verkamaður í stálsmíði, rafvélavirki, rafvirki, raffræðingur, kennari, auk þess ýmis kennsla og þjálfun tengt aðaláhugamálinu skútusiglingum. Ég er búinn að kenna á rafvirkjabraut Fjölbrautaskólans í Breiðholti í 15 ár. Ég er annar af trúnaðarmönnum kennara í FB.

FRAMBOÐSRÆÐA BALDVINS Í GERÐUBERGI

Hvers vegna býður þú þig fram?
Ég ætla að reyna að hafa þetta stutt. Ég hef einfaldlega áhuga á að koma að kjaramálum kennara almennt. Ég er á því að öll þjóðin hafi það til hliðsjónar hvað framhaldsskólakennarar segja og gera í sínum réttinda og kjaramálum, að við séum fyrirmyndir.

Ég fór ekki í kennslu af hugsjón, ég þarf að geta lifað af laununum. Ég hef haldið þeirri skoðun á lofti linnulaust og er ekki einn um það, að allir kennarar eru sérfræðingar í kennslu. Auk þess eru framhaldsskólakennarar allir sérfræðingar á sínu sérsviði. Launakröfur kennara eiga að miðast við að þeir séu þessir sérfræðingar í kennslu. Það er ekki svo langt síðan kennarar, þingmenn og prestar voru með sömu laun. Það er ekkert sem segir að sérfræðingur sem er auk þess kennari eigi að vera með lægri laun en þessir aðilar.

Það eru ekki bara launin sem skipta máli, vinnutíminn er líka stórt atriði. Kennsla er ekki og á aldrei að vera stimpilklukkustarf. Ég skil ekki hver fékk þá hugmynd að hægt væri að mæla vinnu kennara í sekúndum. Það eru allt aðrir þættir sem skipta máli í afköstum kennara. Hvatning, alúð, umburðarlyndi, útsjónarsemi, víðsýni, eftirtekt, sveigjanleiki, skipulagshæfni og svona má lengi telja.

Laun eru eitt en svo skiptir líka máli hvað fæst fyrir þau. Hve mikið fer í skatta, bæði launaskatt og virðisaukaskatt, hvað kostar matvara, ferðakostnaður, bíll, eldsneyti, og húsnæði, hvort sem það er keypt eða leigt og vextir af lánum, húsnæðislánum, neyslulánum og síðast en ekki síst námslánum og þar kemur blessuð verðtryggingin meðal annars til umræðu. Við verðum að láta í okkur heyra þegar einnhver fær þá frábæru hugmynd að við eigum að fá minna fyrir launin okkar.

Lífeyrissjóðsmál eru mér líka hugleikin og eitt okkar stærsta hagsmunamál. Hverjar eru líkurnar á að ég fái nægan lífeyri þegar ég kemst á þann aldur? Í hverju er verið að fjárfesta? Hversu mikið vit er í þeim fjárfestingum sem lífeyirssjóðurinn okkar tekur þátt í? Er hægt að gera betur og þá hvernig? Nýlega var "besta lífeyrissjóðakerfi í heimi" líkt við happdrætti og hestaveðmál. Að mínu mati er þetta hárrétt og fyrir löngu kominn tími til að við förum að taka almennilega á lífeyrissjóðsmálum okkar.

Reynsla mín af stjórnunarstörfum er töluverð, ég hef verið með eigin rekstur, unnið í íþróttafélagi, starfsmannafélagi, ásamt alls konar grasrótar- og stjórnmálasamtökum. Hingað til hef ég getað unnið með öllum og fylgi mínum málum eftir. Ég hef það fyrir reglu að finna hvert vandamálið er og leysa það síðan án þess að leita að sökudólgi.

Baldvin Björgvinsson, frambjóðandi til stjórnar FF. 

 

Nafn: Guðjón H. Hauksson
Kennslugreinar: Þýska, upplýsingatækni, ferðamálafræði, menningarlæsi
Skóli: Menntaskólinn á Akureyri

Menntun: B.A. í þýsku og almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Kennsluréttindanám frá Háskólanum á Akureyri. Stundaði líka nám við háskólana í Münster og Köln í Þýskalandi í þýsku, ensku, heimspeki og latínu.
Starfsreynsla: Ég hef starfað sem kennari við Menntaskólann á Akureyri frá 1998. Lengst af, eða frá 2004, hef ég með kennslunni verið þjónustustjóri tölvudeildar skólans. Sem slíkur er ég nokkurs konar kerfisstjóri, tengiliður skólans við Advania sem hefur þjónustað MA og stýri verkefnum þeirra fyrir skólann. Einnig felst í starfinu að vera ráðgjafi kennara um nýtingu tölvutækninnar í starfi og að stýra innleiðingu hinna ýmsu upplýsingakerfa í skólanum.

Ég hef einnig verið trúnaðarmaður og síðan formaður Kennarafélags MA frá 2014 til 2018. Í mars 2015 var ég kosinn inn í stjórn FF og hef því tekið þátt í starfi stjórnarinnar megnið af þessu kjörtímabili.

FRAMBOÐSRÆÐA GUÐJÓNS Í GERÐUBERGI

Hvers vegna býður þú þig fram?
Nú hef ég starfað síðustu þrjú ár í stjórn FF og er hægt og bítandi að komast inn í málin. Ég vil því halda að ég geti orðið enn betur að gagni á næsta kjörtímabili. Mér finnst verulega brýnt að við framhaldsskólakennarar verjum það sem við stöndum fyrir um leið og við sækjum fram og tökumst með opnum huga á við breytingar í samfélaginu. Ég hef brennandi áhuga á skólamálum, tækniþróuninni og samfélagsmálum og held að ég eigi mér mörg skoðanasystkin í þeim málum. Þess vegna tel ég mína rödd eiga erindi við FF og heildarsamtök kennara.

Helstu áherslur í kjara, skóla og félagsmálum:
Íslenskt samfélag stendur á ögurstundu í menntamálum og næstu misserin getur næstum hvað sem er gerst. Ég hef áhyggjur af því að við látum innri deilur og vantraust hvert til annars allra í kringum okkur bera okkur af leið og að áður en við vitum af hafi einhver önnur öfl í þjóðfélaginu ákveðið hvernig íslenski framhaldsskólinn og jafnvel menntakerfið almennt skuli þróast. Ef við ætlumst til þess að okkur sé treyst og virðing sé borin fyrir okkar störfum verðum við fyrst að bera virðingu fyrir sjálfum okkur og kollegum okkar og treysta hvert öðru til góðra verka. Þetta getur aðeins gerst með því að við höldum fast um okkar faglega sjálfstæði og stundum okkar starf af sannfæringu og stolti. Að sama skapi tel ég lífsnauðsynlegt stéttinni að við njótum alvöru skilyrða fyrir meiri samvinnu kennara þvers og kruss. Samvinna og faglegt samráð er alvöru starfsþróun og hún þarf að verða eðlilegur hluti af daglegu starfi. Kennarar og skólateymið allt þarf að upplifa sig í virku lærdómssamfélagi sem stjórnast af faglegum áherslum kennarahópsins en ekki utan frá.

Ég tel að rétt hafi verið að taka upp vinnumat en ég óttast að það geti orðið of nákvæmt og fari þá að vinna gegn faglegu þróunarstarfi innan skólanna. Faglegu þættina, sem við reyndum að koma inn í 7. gr. í síðustu samningum, vildi ég heldur sjá útfærða í stofnanasamningum og ég bind ákveðnar vonir við að okkur takist að gera þá virkari á hverjum stað.
 

 • Nafn: Hanna Björg Vilhjálmsdóttir
 • Kennslugrein: Félagsgreinar
 • Skóli: Borgarholtsskóli
 • Menntun: Stúdentspróf frá Fjölbrautarskóla Suðurnesja, BA í félagsfræði og sögu frá HÍ, MA í kennslufræðum frá HÍ
 • Starfsreynsla: starfsmannaráðgjafi í 6 ár og kennsla í 12 ár í Borgarholtsskóla


FRAMBOÐSRÆÐA HÖNNU BJARGAR Í GERÐUBERGI


Hvers vegna býð ég mig fram?
Áhugi á félags- og stjórnmálum almennt er kannski ástæða þess að ég býð mig fram, í stóra samhenginu. Menntamál eru meðal allra mikilvægustu málefna hvers samfélags og þarfnast öflugra málsvara í kennarastéttinni. Kennarar eiga að vera ,,við borðið“ í allri ákvarðanatöku um menntamál því ef þú ert ekki ,,við borðið“ gætir þú verið á matseðlinum, eins og sagt er. Kennarastéttin á líka að vera í miðju umræðna um öll málefni samfélagsins. Ímynd kennarastéttarinnar er mér einnig hugleikin. Hvernig er staðalmyndin af kennara í hugum Íslendinga? Vitaskuld eru kennarar eins fjölbreytt flóra og hægt er að hugsa sér, en hvernig er birtingamynd okkar t.d. í fjölmiðlum? Stéttin er öll ábyrg fyrir því hvernig ímynd hennar er og við ættum öll að leggja okkar af mörkum til að efla reisn stéttarinnar og stolt – þannig náum við árangri á öllum sviðum. Ég er reiðubúin til að leggja mitt af mörkum til þess að efla sjálfsvirðingu kennarastéttarinnar og gera ímynd hennar jákvæða í huga kennara og almennings.

Helstu áherslur mínar í kjara, skóla og félagsmálum:
Kjaramál kennara skipta alla kennara alltaf máli og ég tel mikilvægt að fjölbreyttar raddir heyrist í þeirri umræðu. Kjaramálin snúast um kaup og kjör fyrst og fremst, en líka vinnuaðstæður kennara í víðu samhengi. Réttindamál kennara eru margvísleg og þau þurfa stöðugt að vera í umræðunni.

Fræðslu- og jafnréttismál eru mér mjög ofarlega í huga. Jafnréttisvæðingu skólakerfisins tel ég vera brýnustu aðgerð í jafnréttismálum sem samfélagið þarf að fara í. Það er útilokað að nokkuð samfélag nái jafnrétti án þess að menntakerfið verði þar í lykilhlutverki. Kennarar þurfa axla ábyrgð og jafnréttisfræðast og taka bæði beint og óbeint virkan þátt í að ná því markmiði sem við öll stefnum að – jafnrétti.

Annað:
Ég vísa hér í vefsíður, greinar o.fl. sem endurspegla mín hugðarefni.

Ríkir jafnrétti í KÍ? – vikupóstur FF. 

Kynjafræði kveikir ljós -- viðtal í Skólavörðunni, 2. tbl. 2016. 

Kennum kynjafræði -- grein á vef Mannréttindaskrifstofu Íslands 2016

KYNið í Borgó 10 ára: Upphaf, þróun og framtíðarsýn

Daily Herald: Iceland closes gender gap but violence against women remains

 

Nafn: Helga Jóhanna Baldursdóttir
Starf: Tækniskólinn. Byggingatækniskólinn – tækniteiknaradeild

Menntun: Iðnmeistararéttindi í gullsmíði, B. Mus, M.Art.Ed í listkennslu frá LHÍ og er í diplómanámi í Stjórnun menntastofnana við HÍ.

FRAMBOÐSRÆÐA HELGU JÓHÖNNU Í GERÐUBERGI

Starfsreynsla:

 • Gullsmiður í Gullhöllinni og víðar ásamt því að vera sjálfstætt starfandi.
 • Tónlistarkennari við Tónlistarskólann á Sauðárkróki, Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og Tónlistarskólann í Kópavogi.
 • Grunnskóla- og tónmenntakennari við Setbergsskóla, Lindaskóla og Fossvogsskóla í 12 ár. Framhaldsskólakennari við Iðnskólann í Hafnarfirði og Tækniskólann síðastliðin 11 ár.
 • Ég er og hef verið trúnaðarmaður við Iðnskólann í Hafnarfirði og Tækniskólann í 6 ár, ásamt setu í kennarafélögum og samstarfsnefndum beggja skólanna.
 • Á sæti í starfsgreinaráði hönnunar- og handverksgreina fyrir hönd KÍ.
 • Kom að vinnu við nýtt vinnumat og var formaður vinnuhóps 1.

Ég býð mig fram til starfa fyrir FF vegna þess að ég hef áhuga á málefnum framhaldsskólans. Mig langar að stuðla að jafnrétti innan stéttarinnar og styrkja kennara til forystu í sínum skólum með því að auka dreifstýringu og lýðræðislega stjórnunarhætti. Þá vona ég að bæði menntun og áralöng reynsla sem trúnaðarmaður í einum fjölmennasta og fjölbreyttasta skóla landsins komi sér vel þegar standa þarf vörð um fagvitund og áunnin réttindi kennara.
 

Ég heiti Óli Njáll Ingólfsson og er 37 ára, 4 barna faðir úr Breiðholtinu, knattspyrnudómari, fimleikaþjálfari og að auki sögukennari við Verzlunarskóla Íslands. Þar hef ég starfað allan minn kennsluferil frá árinu 2002. Auk þess að kenna sögu hef ég kennt hinar ýmsu félagsgreinar og tölvunotkun. Þá hef ég gefið út nokkrar kennslubækur um tölvunotkun. Ég lauk BA-gráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands vorið 2005 og kennsluréttindanámi frá sama skóla árið 2008.

FRAMBOÐSRÆÐA ÓLA NJÁLS Í GERÐUBERGI

Ég hef ávallt haft mikinn áhuga á kjarabaráttu og félagsstörfum og hef tekið að mér hin ýmsu störf því tengdu, var trúnaðarmaður í mínum skóla 2008-2014 og hef verið formaður Kennarafélags Verzlunarskóla Íslands frá 2014 auk þess að sitja í samninganefnd kennara við skólann. Haustið 2016 tók ég sæti sem varamaður í stjórn FF og síðasta sumar tók ég svo við sem ritari stjórnar.

Ég býð mig nú fram í stjórn því það eru fjölmörg brýn verkefni sem bíða komandi stjórnar. Þótt launakjör framhaldsskólakennara hafi stórbatnað á síðustu árum má vissulega gera betur og fyrir því vil ég berjast, þar á ég bæði við hækkun launa og sömuleiðis styttingu vinnuvikunnar. Það þarf að halda áfram að þróa vinnumatið sem hefur því miður valdið ákveðnum klofningi í stéttinni og ég hef fulla trú á að við getum sniðið helstu agnúa af og skapað sátt um það.

Næstu stjórnar bíða jafnframt stór og mikil verkefni hvað varðar innri mál félagsins. Allt of mikil orka og tími hefur farið í innbyrðis deilur á síðustu árum. Umræðan á samfélagsmiðlum einkennist oft af upphrópunum og gífuryrðum. Við þurfum að þétta raðirnar og nýta samtakamátt okkar til góðra verka. Við þurfum að virkja fleira fólk í starf félagsins og halda uppi virku samtali milli almennra félagsmanna og stjórnar.
 

 

Nafn: Sigrún Lilja Guðbjörnsdóttir
Kennslugrein: Stærðfræði
Skóli: Menntaskólinn við Sund
Starfsreynsla: Hefur starfað sem trúnaðarmaður, var í vinnumatsnefnd raungreina og er starfandi í samninganefnd FF.

FRAMBOÐSRÆÐA SIGRÚNAR LILJU Í GERÐUBERGI (flutt af Steinunni Ingu Óttarsdóttur)

Réttindi eru áunnin og oftar en ekki hafa þau kostað blóð, svita og tár. Baráttunni lýkur aldrei, áunnin réttindi geta tapast og standa þarf vörð um það sem náðst hefur. Við verðum því alltaf að halda vöku okkar og sofna ekki á verðinum gagnvart réttindum okkar. Amma mín sagði alltaf að húsverk sæjust ekki nema þau væru ekki unnin. Það á kannski einnig við um kynni okkar að stéttarfélögum. Við þurfum ekki á þeim að halda nema þegar við þurfum að leita réttar okkar. Þess á milli eru þau undir oki ósýnileikans. Ég veit eftir setu mína í saminganefnd að kjarabaráttan endar aldrei.

Við lifum á umbrotatímum og brimaldan hefur svo sannarlega brotið á framhaldskólanum síðustu mál og misseri. Breytingar hafa verið miklar og loforð, sem gefin voru þegar nám til stúdentspróf var stytt með einu pennastriki, hafa ekki enn verið efnd. Brottfall nemenda hefur aldrei verið meira og framhaldsskólar landsins búa við stöðugt fjársvelti. Ég vil leggja mitt lóð á vogaskálarnar og berjast fyrir auknu fjármagni til skólanna sem er grundvöllur framfara í framhaldsskólanum. Þessar kosningar eru mikilvægar því kjör okkar og störf eru í húfi. Því hvet ég þig kjósandi góður til að nýta kosningaréttinn og tilkynni hér með að ég mun leggja mig fram.
 

Nafn: Simon E. Cramer Larsen

Ég er framhaldsskólakennari og kenni dönsku við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Ég er giftur og er 32 ára gamall.

Ég býð mig fram í stjórn Félag framhaldsskólakennara.

FRAMBOÐSRÆÐA SIMONS Í GERÐUBERGI

Hvers vegna býð ég mig fram?

Núna eigum við að grípa tækifærið og endurheimta virðinguna sem við eigum skilið. Við höfum tækifæri til þess að láta ríkisstjórnina halda loforð sín. Við þurfum að endurheimta það sem okkur ber. Við verðskuldum meiri virðingu frá samningsaðilum okkar. Við þurfum að hafa áhrif í skólamálum og láta í okkur heyra. Næstu ár munu skipta miklu máli í menntamálum og menntastefnu landsins. Hér eigum við að vera leiðandi í þróun og mótun því við vitum hvernig er að vera á gólfinu og við vitum hvar þarfir á breytingum eru.

Þess vegna er þörf á að velja frambjóðanda sem er athafnasamur, hefur orku og vilja til að berjast fyrir réttindum stéttarinnar svo eitthvað sé nefnt. Slíkur frambjóðandi tel ég mig vera og þess vegna býð ég mig fram í stjórn FF.
 

Starfsferill:
Ég hóf störf við Fjölbrautaskóla Suðurnesja árið 2010. Ég hef aldrei efast um að ég vildi verða kennari þar sem ég ólst upp í kennarafjölskyldu. Auk kennslunnar hef ég sinnt ýmsum verkefnum í skólanum. Ég er umsjónarkennari og hef tekið þátt í skipulagi þemadaga til margra ára. Einnig tók ég við sem trúnaðarmaður í ágúst í ár til þess að hafa áhrif í mínum skóla hvað varðar réttindamál. Einnig hef ég tvisvar verið fulltrúi HÍ á erlendum vettvangi. Þá hef ég setið í verkefnisstjórn frumkvöðlakeppninnar Gulleggið.
 

Áherslur mínar:
Að auka gegnsæi þegar kemur að því að taka ákvarðanir sem viðkoma félagsmönnum. Það er bráðnauðsynlegt að um gegnsæi sé að ræða svo félagsmenn FF viti að ákvarðanir séu teknar á grundvelli bestu mögulegrar þekkingar og með hagsmuni félagsmanna í huga. Þetta á líka við þegar um samningagerð við ríkið er að ræða.

Endurskoða þarf nokkur atriði Vinnumatsins:

 1. Þörf er á því að endurskoða skerðingu kennara í vinnumatinu.
 2. Þörf er á því að endurskoða lágmarksnemandafjölda og áhrif á vinnumat kennara.
 3. Þörf er á því að endurskoða að færa tíma milli A, B, C þáttanna í vinnumatinu þegar að kennara vantar tíma til að fylla upp í kennsluskyldu.

Stjórn FF á að vinna markvisst á því að efla fagmennsku framhaldsskólakennara í framhaldsskólum sem og á opinberum vettvangi.

Stjórn FF þarf líka að efla virðingu og velferð framhaldsskólakennara og standa vörð um orðspor okkar á opinberum vettvangi.

Félagsmenn eiga að hafa meiri áhrif og tryggja þarf að ef t.d. meirihluti framhaldsskólakennara er óánægður með eitt eða fleiri atriði eru þau, ef þess er óskað, endurskoðuð.

Stjórn FF þarf að standa vörð um heiðarleika og traust og láta það ríkja í öllu sem stjórnin tekur sér fyrir hendur. 


Menntun:
Árið 2008 lauk ég BA-prófi í dönsku frá Háskóla Íslands. 2009 lauk ég kennslufræði til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands. Er að leggja lokahönd á meistarapróf í mannauðsstjórnun og markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands. Ég fer oft á námskeið bæði hjá Endurmenntun HÍ og námskeið í boði HR, s.s námskeið í almannatengslum og námskeið tengd kennarastarfinu.

 

 

 

Tengt efni