is / en / dk

01. Febrúar 2018

 

Rúmlega fjörtíu manns gefa kost á sér til hinna ýmsu trúnaðarstarfa fyrir Félag grunnskólakennara. Rafræn atkvæðagreiðsla, þar sem kosið verður í stjórn, skólamálanefnd, samninganefnd og kjörnefnd, hefst klukkan 9.00 miðvikudaginn 7. febrúar og lýkur klukkan 14.00 mánudaginn 12. febrúar. 

Formaður Félags grunnskólakennara var kosinn í síðasta mánuði og bar Þorgerður Laufey Diðriksdóttir sigur úr býtum. Þorgerður Laufey tekur við embætti formanns á aðalfundi FG sem fram fer í maí næstkomandi. Þá tekur auk þess við ný stjórn, samninganefnd, skólamálanefnd og kjörnefnd. 

Frambjóðendur til stjórnar Félags grunnskólakennara eru eftirfarandi: 

Ég heiti Anna Guðrún Jóhannesdóttir, grunnskólakennari og starfa í Glerárskóla á Akureyri. Ég hef starfað sem grunnskólakennari í 20 ár og verið trúnaðarmaður sl. fimm ár og sit í stjórn BKNE sem gjaldkeri. Ég er með B.ed. frá KHÍ (2001) lauk 60 ECTS einingum í HRM frá HÍ (2008) og Master frá DPU í Pædagogisk Socialogi (2011).

Mínar áherslur eru:

 • LAUNAHÆKKUN!
 • Allir kennarar sama hvaða starfsheiti þeir bera ættu að grunnraðast til jafns við umsjónarkennara en umsjónakennarar ættu að fá að minnsta kosti tvo tíma á viku til umsjónarstarfa.
 • Allir kennarar ættu að hafa skýra starfslýsingu.
 • Stytting vinnuviku er brýnt verkefni til að minnka álag og vinna gegn kulnun í starfi.
 • Kennarar þurfa sveigjanlegan vinnutíma til að koma til móts við þarfir skóla og kennara en ekki binda bindingarinnar vegna.
 • Tryggja þarf að til séu verklagsreglur verði kennarar fyrir ofbeldi af einhverju tagi.
 • Starf trúnaðarmanna er félaginu mjög mikilvægt. Þeir þurfa að fá umbun fyrir störf sín og tíma til að sinna þeim.
 • Skóli án aðgreiningar þarf nægt fjármagn til að sinna lögbundnum skyldum sínum. Gera þarf skýran greinarmun á því hvenær mál eru skólamál og hvenær heilbrigðismál. Verkefnum sem ríki og sveitarfélög fela skólum að vinna verður að fylgja nægt fjármagn.
 • Setja þarf skýrar reglur um samskipti heimila og skóla og aðgengi foreldra að kennurum.
 • Framboð starfsþróunar og símenntunar þarf að vera fjölbreytt, standa öllum kennurum á landinu til boða og á þeim tíma sem hentar þeim. Endurskoða þarf frá grunni hvernig viðbótarmenntun er metin til launa.
 • Stórauka þarf framboð á námsleyfum.
 • Til að nýliðun verði í stéttinni þurfa launin að vera samkeppnishæf og kennara verður að meta að verðleikum, þeir eru sérfræðingar.
 • Koma ætti á launuðu kandidatsári kennaranema og efla þarf verulega móttöku nýrra kennara með skipulögðu kerfi leiðsagnakennara.

  Ég gef kost á mér í stjórn og samninganefnd Félags grunnskólakennara.Endilega hafið samband og ræðið málin. Netfang: anngudjo@gmail.com.

Ég heiti Árný Elsa Lemacks og er 38 ára starfandi umsjónarkennari í 4. bekk í Kelduskóla Vík í Reykjavík.

Menntun: B.Sc í Viðskiptafræðum, M.Sc. Í Alþjóðlegum fjármálum og bankastarfsemi og réttindi sem kennari bæði í grunn- og framhaldskóla frá Háskóla Íslands.

Ég starfaði í banka í nokkur ár áður en ég ákvað að verða kennari og prófaði að kenna bæði í framhaldsskóla og í grunnskóla. Ég fann mig í grunnskólakennslu þar sem ég starfa í dag.

Ástæðan fyrir því að ég býð mig fram í stjórn FG er sú að ég tel starfsumhverfi kennara ábótavant og launakjör okkar ekki í samræmi við menntun og ábyrgð kennara. Ég veit að þessi umræða er því miður orðin mjög þreytt og kennarar virðast alltaf vera í stöðugri baráttu um sambærileg launakjör við aðrar stéttir sem krefjast jafn mikillar menntunar. Kennarar eiga ekki að þurfa að berjast um hækkun launa á nánast hverju ári. Kennarar eiga heldur ekki að brenna mun hraðar út í starfi en aðrar starfsstéttir sökum álags í starfi.

Ég vil berjast fyrir því að kennarar í grunnskólum landsins séu aldrei einir í kennslustofum sínum með námshópa stærri en 15 nemendur. Ég vil einnig berjast fyrir því að fá fleiri sérfræðinga inn í skólana til að mæta þörfum þess fjölbreytilega nemendahóps sem við kennarar vinnum með alla daga.

Ég vil berjast fyrir því að laun verði tengd við vísitölu, þ.e. að þegar lánin okkar hækka og verðbólga rís, eiga laun okkar að hækka í samræmi við það. Við eigum ekki stöðugt að þurfa að berjast fyrir því að fá laun til að lifa af, við eigum að geta gengið að því sem vísu að eftir 5 ára háskólanám að laun okkar séu í samræmi við þá menntun sem krafist er.
 

Nafn: Ásthildur Lóa Þórsdóttir.

Ég er grunnskólakennari og er fædd árið 1966. Ég er gift og á tvo uppkomna syni.

Ég býð mig fram í stjórn FG og samninganefnd.

Af hverju býð ég mig fram?
Næstu ár munu skera úr um framtíð grunnskólans á Íslandi. Grunnskólakennarar eiga að vera í forystu og hafa frumkvæði við að móta menntastefnu landsins. Menntun í landinu er í höndum okkar. Við erum hvorki vopnlaus né vonlaus. Mig langar að sjá grunnskólakennara rísa upp til þeirrar virðingar sem þeir eiga skilið. Áhrif okkar á eigið starf og starfsumhverfi hafa verið minnkuð með markvissum hætti á undanförnum árum. Við þurfum að sækja þessi áhrif okkar aftur og endurvekja stolt kennarastéttarinnar.

Við þurfum að bera höfuðið hátt þegar kemur að kjarasamningum og fái ég einhverju ráðið, verða réttindi aldrei aftur seld í skiptum fyrir prósentur.
Hugarfar skiptir öllu máli og félag sem er brotið eða hefur þegar sætt sig við stöðu sína mun aldrei ná ásættanlegum árangri, hvað þá leiða nokkurn til sigurs. FG á að berjast til sigurs!

Mig langar að taka þátt í að móta stefnuna til næstu ára með nýjum formanni FG og sjá kennarastarfið hafið til þeirrar virðingar sem það á skilið. Hagsmunir kennara og nemenda fara saman. Báðir hópar eiga mikið undir því að vel takist til.

Mínar áherslur
Forysta FG á að veita öfluga mótspyrnu
ef sótt er að skólakerfi og menntun.

Forysta FG á að standa vörð um fagmennsku og velferð kennara og rísa til varnar sé vegið að starfsheiðri þeirra á opinberum vettvangi.

Við gerð kjarasamninga þarf að auka gegnsæi verulega. Það á að vera sjálfsagt að félagsmenn séu upplýstir um gang kjaraviðræðna því þó trúnaður við viðsemjendur sé nauðsynlegur á einhverjum tímapunkti á hann sín takmörk. Samninganefndir vinna fyrir félagsmenn og hafa upplýsingaskyldu gagnvart þeim.

Gegnsæi skal vera í allri ákvarðanatöku. ALLIR samningar við vinnuveitendur skulu vera upp á borðum og kynntir félagsmönnum ÁÐUR en að undirskrift kemur. ALDREI skal látið undan hótunum eða skrifað undir vegna „óeðlilegrar“ pressu hagsmunaaðila, sbr. það sem gerðist með lífeyrismálin.

Það er lágmark að FG verji ávallt áunnin réttindi félagsmanna við samningagerð. Í ljósi þessa tek ég heilshugar undir orð Ragnars Þórs nýkjörins formanns KÍ um að „í kjaramálum verði loforðareikningi stjórnvalda hjá kennurum lokað vegna vanefnda. Ekkert verði gefið eftir eða selt í krafti óuppfylltra loforða. Orðum fylgi aðgerðir.“

Auka þarf möguleika félagsmanna FG til að hafa áhrif. Það er allt of langt að kjósa fólk til fjögurra ára. Það geta allar samninganefndir lent í því að samningum sé hafnað, en tryggja þarf að félagsmenn geti, t.d. með undirskriftum krafist þess að stjórn/samninganefnd boði til kosninga og endurnýji umboð sitt ef þannig stendur á.

Viðhorf forystu FG til trúnaðarmanna þarf að endurskoða en þeir eiga fyrst og fremst að vera fulltrúar og umbjóðendur sinna samstarfsmanna. Ef hagsmunir félagsmanna skarast við hagsmuni FG eiga trúnaðarmenn að gæta hagsmuna félagsmanna. Ég tel að auka þurfi aðstoð við trúnaðarmenn vegna samningstengdra ágreiningsmála í skólum.

Stjórnsýsla FG þarf að vera gegnsæ, vönduð og heiðarleg og allar upplýsingar sem varða hagsmuni félagsmanna vera þeim opnar og aðgengilegar. Þannig skal opna bókhald og birta fundargerðir að svo miklu leyti sem mögulegt er vegna persónuverndarsjónarmiða.

Styrkja þarf kennara á landsbyggðinni varðandi það sem þeir þurfa að sækja til höfuðborgarsvæðisins, t.d. vegna endurmenntunar.

Ég mun mæla fyrir auknu aðgengi félagsmanna að stjórnarmönnum t.d. með því að haldnir séu opnir fundi með félagsmönnum u.þ.b. mánaðarlega.

Forysta FG á að standa vörð um grunngildi skólastarfsins og vera í fararbroddi í mótun og stefnu grunnskólans í samráði við sína félagsmenn.


Trúnaðar- og félagsstörf
Á árunum 2014 – 2017 var ég trúnaðarmaður kennara Árbæjarskóla og var ein af þeim sem stóð að „grasrótarbaráttu“ grunnskólakennara haustið 2016. Ég hafði frumkvæði að og samdi fyrstu ályktunina sem send var frá kennurum vegna lífeyrisjóðsfrumvarpsins alræmda og í kjölfar ályktunar kennara Árbæjarskóla sendu tugir annarra skóla frá sér samsvarandi ályktanir. Á baráttufundi grunnskólakennara í Háskólabíói í nóvember í fyrra var ég ein af ræðumönnum fundarins.

Í maí 2017 tók ég við sem formaður Hagsmunasamtaka heimilanna en það er hugsjónastarf unnið í sjálfboðavinnu. Barátta mín fyrir því að réttindi neytenda og lánþega væru virt leiddi til þess að ég var beðin um að gefa kost á mér í stjórn samtakanna.

Starfsferill
Frá því í haust hef ég kennt í Öldutúnskóla í Hafnarfirði en á árunum 2011 – 2017 kenndi ég í Árbæjarskóla í Reykjavík. Auk þess hef ég kennt í Flataskóla, hjá Barnaskóla Hjallastefnunnar, í Selásskóla og Ölduselsskóla. Meðal annarra starfa má nefna að ég útbjó kerfi sem heldur utan um auglýsingavörur hjá einni stærstu heildverslun landsins. Þá hef ég kennt fyrirtækjahópum og einstaklingum á tölvur ásamt því að semja kennslu- og handbækur. Auk þess hef ég nokkurra ára reynslu af sölu- og kynningarstörfum.

Menntun:
Árið 1994 lauk ég B.ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands. Áður hafði ég auk þess lokið 100 einingum í ensku í HÍ. Veturinn 2015 – 2016 nam ég Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun hjá Endurmenntun HÍ og hef D level réttindi IPMA í verkefnastjórnun. 

Ég býð mig fram í stjórn FG

Ég heiti Guðbjörg Magnúsdóttir og er 38 ára gömul. Maðurinn minn heitir Ragnar Þór Ingólfsson og búum við í Árbæ þar sem við unum hag okkar vel. Ég er móðir tveggja barna, þeirra Loga Þórs 9 ára og Emmu Lísu 5 ára. Einnig á ég þrjú stjúpbörn, þau Daða Má, Daníel Dúa og Sóleyju Dís.

Ég er menntaður grunnskólakennari ásamt því að hafa lagt stund á nám í hjúkrunarfræði í Danmörku. Því námi lauk ég þó ekki en fór langt með. Starfsferill minn einkennist af starfi með börnum. Áður en ég hóf nám við Kennaraháskóla Íslands starfaði ég sem leiðbeinandi á leikskóla og samhliða náminu fékk ég tækifæri til þess að starfa sem deildastjóri á leikskóla. Eftir útskrift frá KHÍ hóf ég feril minn sem kennari í Sæmundarskóla en þaðan lá leið mín til Danmerkur þar sem ég bjó í þrjú og hálft ár. Þegar ég sneri aftur heim til Íslands tók ég við starfi sem deildastjóri á leikskóla og fór þaðan í Lágafellsskóla þar sem ég var umsjónakennari á miðstigi. Á þessum tíma bjó ég í Mosfellsbæ en fluttist til Reykjavíkur og fékk þá starf sem umsjónarkennari í Árbæjarskóla. Í vetur hef ég staðið við hlið Þorgerðar L. Diðriksdóttur nýkjörins formanns FG, sem trúnaðarmaður við Árbæjarskóla. Af henni hef ég lært margt og hefur hún kveikt áhuga minn á því að taka sæti í stjórn FG.

Ég hef mikinn áhuga á störfum stjórnar og formennsku verkalýðsfélaga. Maðurinn minn Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, ásamt Þorgerði, hafa með sínu framlagi til réttindabáráttu ýtt enn frekar undir það að ég vil leggja mitt á vogarskálarnar.

Ég hef ríka réttlætiskennd og hef þá skoðun að við grunnskólakennarar búum ekki við þau launakjör sem endurspegla starfssvið okkar og ábyrgð. Á því sést best kennaraskortur í grunnskólum landsins og sú staðreynd að menntaðir kennarar leita í önnur störf. Nauðsynlegt er því að berjast fyrir hækkun launa ásamt því að minnka álag í starfi. Ég tel nauðsynlegt að boðið sé uppá viðtalsmeðferðir fyrir kennara sem eru að brenna út í starfi og að þeir hafi tök á því að ræða sín mál og endurnærast. Út frá því tel ég mikilvægt að inni í vinnuramma kennara sé líkamleg og andleg endurnæring. Þar sem kennarar eiga stund þar sem þeir iðka einhverja líkamsrækt eða andlega hugleiðslu af einhverju tagi. Ég tel að þessi atriði gætu ýtt undir að grunnskólakennarar haldist enn lengur í starfi en ella.

Eins vil ég berjast fyrir því að í grunnskólum landsins verði bæði boðið upp á sálfræði- og tannlæknaþjónustu fyrir nemendur. Þessir þættir í líðan barna eru ekki síður mikilvægir en að hafa hjúkrunarfræðing í skólum með einhverja viðveru.

Fyrir utan þessa þætti sem ég hef komið inn á hér að ofan legg ég ríka áherslu á samheldni stéttarinnar, jafnrétti meðal kennara og að grunnskólakennarar komi að þeim ákvörðunum sem teknar eru í stjórn FG. Til að þetta geti orðið er nauðsynlegt að nýkjörinn formaður njóti traust stjórnarmanna.

Ég vil hvetja alla félagsmenn að nýta kosningaréttinn!
Með fyrirfram þökk og góðri kveðju,
Guðbjörg Magnúsdóttir grunnskólakennari
 

Hjördís Albertsdóttir, 37 ára þriggja barna móðir. Starfa sem umsjónar-, náttúru- og stærðfræðikennari við Reykjahlíðarskóla í Mývatnssveit.

Menntun og starfsreynsla:
Grunnskólakennari með B.Ed frá KHÍ. Einnig hef ég setið valin námskeið innan sagnfræði og íslensku við HÍ mér til ánægju og yndisauka.

Ég hef verið grunnskólakennari í nær áratug. Hóf ferilinn við Hamraskóla í Grafarvogi, haustið 2008, sem náttúru- og samfélagsfræðkennari á unglingastigi auk umsjónarkennslu í 6. og 7. bekk. Flutti mig strax næsta haust yfir í Norðlingaskóla þar sem ég hef sinnt umsjónarkennslu í 3. og 4. bekk, 5.-7. bekk og unglingadeild auk þess að kenna íslensku, ensku, samfélags- og náttúrufræði við unglingadeildina. Síðasta vor tók ég þá ákvörðun að taka mér árs leyfi frá kennslu við Norðlingaskóla og flutti „heim“ í Mývatnssveit til að freista gæfunnar í ferðaþjónustu. Það var liður í eftirfylgni við uppsögn mína í síðustu kjarabaráttu kennara, í nóvember 2016. Þegar á leið fór ég að ókyrrast og fann að ég vildi kenna og taka slaginn vegna stöðu stéttar okkar og menntakerfisins á Íslandi. Ég sneri aftur til kennslu, nú við grunnskólann í Mývatnssveit, Reykjahlíðarskóla, sem stærðfræðikennari og umsjónarkennari unglingastigs. 

Í Norðlingaskóla vann ég, ásamt teyminu mínu, að viðamiklu þróunarverkefni um innleiðingu rafræns náms í unglingadeild og var skólinn fyrsti skóli landsins til að spjaldtölvuvæða unglingadeildina sína. Í tengslum við þróunarverkefnið hef ég setið fjöldan allan af námskeiðum, fyrirlestrum og ráðstefnum auk þess að halda fyrirlestra og námskeið fyrir aðra kennara og semja rafrænt námsefni í þeim námsgreinum sem ég kenni.

Ég er einn stofnenda Reykjavíkurdeildar AFS á Íslandi, tók þátt í uppbyggingu hennar og gegndi varaformennsku í fyrstu stjórn deildarinnar. Hef sótt fjölda námskeiða og ráðstefna, jafnt innanlands sem utan á vegum EFIL (European Federation for Intercultural Learning) og AFS. Ég hef haldið námskeið og tekið þátt í að innleiða og efla sjálfboðaliðastarf AFS á Íslandi. Einnig hef ég verið íslenskur fulltrúi á tveimur ráðstefnum Evrópusambandsins er varða réttindi ungs fólks í Evrópu (EU White Paper on Youth Policy).

Af hverju býð ég mig fram?
Ég býð mig fram því ég tel mig hafa þá getu, þær hugsjónir, þá ástríðu og þann drifkraft sem þarf til að rífa Félag grunnskólakennara upp úr þeirri ládeyðu sem mér finnst hafa einkennt það. Við höfum keyrt inn í öngstræti í kjaramálum og staðan sem upp er komin er alvarleg. Okkar bíður mikið verk að vinda ofan af vitleysunni og byrja upp á nýtt. Ég vil að forysta FG endurspegli þann þrótt og þá afstöðu sem einkenna okkar stétt og þar tel ég mig geta lagt mitt lóð á vogarskálarnar.

Launabætur
Númer 1, 2 og 3 þarf að leiðrétta laun kennara. Það er algjör vitfirring að ætla að björgun kennarastarfsins og nýliðun felist í einhverju öðru en að gera starfið launalega samkeppnishæft. Grunnskólakennari sem yfirgefur skólann og snýr til annarra starfa er mun betur fjárhagslega settur. Þess vegna stefnir í stórslys. Í þetta gat þarf að stoppa.
Kennarar eiga inni launaleiðréttingar eftir að hafa dregist aftur úr áratugum saman og vegna svikinna loforða um leiðréttingu t.a.m. vegna aukinna menntunarkrafna og nú síðast vegna skerðingar lífeyrisréttinda. Kennarar eiga í það minnsta fimmþætta kröfu um launaleiðréttingu sem er óumdeilaleg. Hér geri ég grein fyrir henni: https://kjarninn.is/skodun/2017-12-31-fimmthaett-krafa-um-launaleidrettingu/

FG fyrir félagsmenn
FG á að vera sýnilegt og standa vörð um félagsmenn sína, réttindi þeirra og hagsmuni. Félagið á að nýta sér stöðu sína og aðgengi að fjölmiðlum og tala máli stéttarinnar þegar illa er að henni vegið. Það á ekki síður að vera í fararbroddi við að koma félagsmönnum sínum á framfæri og þeirri mögnuðu vinnu sem kennarar allt í kringum landið eru að vinna en fáir vita af. Kennarar þurfa að sýna samstöðu og þar á FG að vera fremst í flokki sem sameiningartákn sem félagsmenn geta verið stoltir af.

Jafnrétti allra félagsmanna
Ég er fædd og upp alin á Landsbyggðinni og hef reynslu af námi og kennslu bæði þar og á Höfuðborgarsvæðinu. Það er ótvíræður aðstöðumunur á milli svæða sem þarf að jafna mun betur en nú ert gert. Hvort sem um er að ræða fjölmenni eða fámenni getur nútímatækni, ef henni er beitt í bland við þrautreyndar aðferðir, að einhverju leiti tryggt fjölbreytilega gæðakennslu. Kennurum á landsbyggðinni þarf að tryggja aðgang að símenntun og annan stuðning við fagmennsku þeirra. Það getur verið mjög kostnaðarsamt og óhentugt fyrir kennara í hinum dreifðu byggðum landsins að sækja sér þjónustu og menntun sem er talin sjálfsögð í daglegu lífi kennara. Með vilja og samvinnu er hægt að gera gangskör að breytingum í þessu.

Vefpóstur: hjordiskennari@gmail.com.

Greinar og pistlar:
https://stundin.is/pistill/bankinn-er-ekki-min-uppahalds-stofnun/

http://www.visir.is/g/2017171219067/sveitarfelogin-sla-lan-hja-kennurum-fyrir-jolin

https://kjarninn.is/skodun/2017-12-31-fimmthaett-krafa-um-launaleidrettingu/

http://ki.is/pistlar/4323-um-mjuk-hord-storf

Útvarpsviðtal eftir að samningar voru samþykktir í desember 2016: http://www.ruv.is/frett/thad-tharf-ad-skera-kerfid-upp

 

 • Hreiðar Oddsson
 • Álfhólsskóli
 • 41 árs

Grunnskólakennarapróf og diplóma í leiðsagnarkennslu. Ég hef kennt í grunnskólum frá 1998, fyrir utan árin 1999-2000 og 2013-2014. Ég hef unnið samhliða kennslu í verslunum, rekið Sumarbúðir skáta / Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni (frá 2004 – 2012)

Ég heiti Hreiðar Oddsson og er smíðakennari í Álfhólsskóla í Kópavogi. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á stéttarfélagsmálum og hef tekið virkan þátt í störfum fyrir félagið. Ég var trúnaðarmaður í Digranesskóla 2004 – 2008. Ég sat í samninganefnd FG 2008 – 2011 og svo í stjórn FG frá 2011 – 2013 þegar ég tók leyfi frá kennslu. Ég kom aftur til kennslu haustið 2014 og hef síðan þá verið trúnaðarmaður í Álfhólsskóla. Síðast liðin 2 ár hef ég verið í stjórn KMSK en ég var þar líka á árunum 2007 – 2013.

Markmið mín eru:

 • Launaleiðrétting og launahækkun.
 • Kennarastarfið er eitt starf og ber að meta alla kennara jafnt óháð starfsheiti og skulu laun allra miðast við laun umsjónarkennara. List og verkgreinakennarar hafa setið eftir allt of lengi og það þarf að bæta.
 • Nemendafjöldi í bekk og nemendafjöldi í námshópum er óskrifað blað og setja þarf viðmið um hámark í bekk/hóp.
 • Í þjóðfélaginu er mikil umræða um styttingu vinnuvikunnar, og ég veit að það er vilji til þess innan kennarastéttarinnar. Komi til þess þarf þó að vanda til verka því ekki er nóg að minnka bara bindinguna því að verkefnin verða þá enn til staðar. Til að raunveruleg stytting verði að veruleika þarf að skoða gaumgæfilega verkefnin sem liggja að baki kennarastarfinu og fækka þeim.
 • Aukinn orlofsréttur úr 24 dögum í 27 eða 30 daga er í dag skilyrtur við það að fækka endurmenntunartímum. Ég vil að kennarar fái val um það hvenær þeir nýta þessa orlofsdaga - geti s.s. valið í samráði við skólastjórnendur að taka þá á starfstíma skóla.
 • Endurmenntunarstundir eru 150/126/102 á ári. Framboð af áhugaverðri endurmenntun er slakt og þar verða sveitafélögin/háskólarnir að taka sig á. Með því að bjóða upp á metnaðarfull námskeið sem myndu færa kennurum menntunarstig til aukinna launa yrði ásókn mun betri.

Að því sögðu má benda á að ég er 41 árs gamall, ég er með Bed próf og diplómu (30 estc) í leiðsagnarkennslu, ég hef kennt í nær 18 ár og eina leiðin fyrir mig til að hækka í launum er að sækja mér 90 einingarnar sem mig vantar í masterinn, og þá fæ ég einn launaflokk.

Ég gef kost á mér í stjórn og samninganefnd Félags grunnskólakennara. Netfangið mitt er hreidaro@kopavogur.is og síminn 8980282. Eins er ég á Facebook sem Hreiðar Oddsson.

Jens Guðjón Einarsson
Vinnustaður: Stóru-Vogaskóli, Vogum Vatnsleysuströnd.
Fæddur: 271254.

 • Grunn- og framhaldsskólakennari.
 • Diplómanám í Markaðs- og útflutningsfræðum við Háskóla Íslands.
 • Stærðfræði fyrir miðstig 15. eininganám í Háskóla Ísland veturinn 2016-2017.
 • Nám í spænsku í Madrid 2008-2009.

Starfsferill:

 • Kenndi við Fellaskóla í Reykjavík frá 1978 – 1991
 • Fararstjóri á sumrin 1984-1990 (Portugal og Spáni )
 • Rak eigið fyrirtæki Bedco & Mathiesen ehf í Hafnarfirði frá 1990 – 2006
 • Byrjaði aftur í kennslu 2011.

Ég býð mig fram þar sem ég hef ætíð haft mikin áhuga á kjaramálum kennara. Undanfarin ár hef ég verið trúnaðarmaður í Stóru – Vogaskóla og fengið smá innsýn í starfsemi FG. Auk þess með mikla reynslu bæði sem launamaður og atvinnurekandi.

Tel að ég geti haft áhrif til hins betra og mun þá leggja áherslu á að auka virðingu fyrir kennarastarfinu, bæði meðal kennara sjálfra og almennt í samfélaginu. Gæta þarf að nýliðun í kennarastarfinu og menntun þeirra, síðasta ár kennaranema á að vera á vettvangi þar sem reyndir kennarar eru leiðbeinendur og fræðarar, að sjálfsögðu á launum við það.

Undanfarin ár hafa yfirvöld menntamála í landinu aukið gríðalega við vinnu kennarans án þess að endurgjald hafi komið í staðinn og mun ég beita mér fyrir því að það endurgjald verði greitt til kennara.

Kennarar þurfa líka að spyrna við fótum áður en að Grunnskólinn verður að meðferðastofnun og hættir að vera menntastofnun. Við viljum fræða og mennta. Hugtakið skóli án aðgreiningar þarf endurskoðunar við.

Ágætu kennarar, samtakamátturinn er okkar sterkasta vopn í okkar hagsmunagæslu og mun ég því leggja áherslu á að rækta samstöðuna, fagmennskuna og virðinguna.

Með vinsemd og virðingu, 
Jens G. Einarsson.

 

Kynning hefur ekki borist. 

Ég heiti Lára Guðrún Agnarsdóttir ég er gift Kristjáni Sigurðsyni grunnskólakennara og eigum við þrjú uppkomin börn sem eru flutt að heiman. Ég er umsjónarkennari á miðstigi í Austurbæjarskóla sem er staðsettur við Barónsstíg, Reykjavík.

Ég er fædd 1959 í Reykjavík, bjó þar mest af æsku minni en fluttist í Dalina sem unglingur og bjó þar í nokkur ár í sveitinni. Seinna flutti ég ásamt fjölskyldu í Stykkishólm. Þar vann ég sem stuðningfulltrúi í tvö ár. Ég hóf kennslu sem leiðbeinandi á Hólmavík árið 2000 og hóf þá fjarnám frá KHÍ það sama haust og útskrifaðist sem kennari árið 2005, þá með réttindi bæði á grunn- og framhaldsskólastigi. Á Hólmavík kenndi ég í 11 ár sem umsjónakennari, dönskukennari á öllum skólastigum. Einnig kenndi ég m.a. heimilisfræði, tónfræði og fl.

Ári seinna fluttum við á Borðeyri þar sem ég kenndi í eitt ár í mjög fámennum skóla, 9 grunnskólabörn. Árið 2012 fékk ég námsleyfi sem ég nýtti í Danmörku þar sem ég bætti við mig myndmennt og dönsku frá Blaagaard/KDNS, Professionsskolen UCC, Søborg. Haustið 2013 hóf ég störf við Austurbæjarskóla og starfa þar nú.

 • Nefndarstörf – Trúnaðarmaður kennara í Grunnskólanum á Hólmavík 2004 - 2007
 • Formaður Kennarasambands Vestfjarða 2007 - 2009
 • Skólamálanefnd Félags grunnskólakennara 2009 – 2018
 • Trúnaðarmaður kennara í Austurbæjarskóla 2016-2018
 • Stjórn Kennarafélags Reykjavíkur 2016-2018


Ég hef í mörg ár haft brennandi áhuga fyrir kennarastarfinu og öllu sem snýr að skólamálum og finnst alltaf jafn gaman að kenna. Ég hef kennt á öllum skólastigum en finn mig best sem umsjónarkennari á miðstigi.

Ég tel að breytingar sem orðið hafa á kennarastarfinu hafi verið mjög miklar á síðustu árum, margt spennandi hefur gerst en einnig hefur starfið orðið mun flóknara en áður og meiri kröfur gerðar til kennarans. Tími til að sinna þeim málum sem snýr að undirbúningi kennslu virðist alltaf verða minni og minni og önnur störf fleiri og fleiri. Ég vil gjarnan stuðla að því ef ég get, að starfið okkar verði eftirsóknarvert og spennandi og skólaumhverfið laði að sér hæfa kennara.

Ef ég næ kjöri mun ég leggja áherslu á að vinna heils hugar að bættum kjörum og betri aðbúnaði kennara og ekki síst að fagmennska kennara verði í fyrirrúmi þegar unnið er að skapandi og lifandi skólastarfi.

Ég heiti Siggerður Ólöf Sigurðardóttir, starfa sem grunnskólakennari við Hvolsskóla á Hvolsvelli. Ég hef þó einkum unnið á höfuðborgarsvæðinu.

Ég er 54 ára og hef starfað sem grunnskólakennari í 30 ár en er einnig með MLIS gráðu sem bókasafns- og upplýsingafræðingur.

Hef hef unnið á öllum stigum grunnskólans en einkum á yngsta- og miðstigi. Hef unnið á skólasafni í mörg ár og veitt fagfélagi skólasafnsfólks forystu til átta ára. Þannig að ég þekki skólastarf nokkuð vel. ´

Ég býð mig nú fram til stjórnunarstarfa þar sem mér finnst þörf á að auka umræðuna um bætt kjör kennara og þá ekki bara launahækkun. Því leit ég svo á að þar sem mig langar að breyta og bæta þá hafi ég eitthvað til málanna að leggja og geti þá gert fagstétt okkar gagn. Ég hef löngum barist fyrir því að bæta læsi íslenskra barna og vil veg skólasafna grunnskólanna sem mestan.

Skólastarf er skemmtilegt og krefjandi og það eru forréttindi að koma að menntun ungmenna.

Ég býð mig því hér með fram til stjórnunarstarfa í Félagi grunnskólakennara.

Kveðja, 
Siggerður Ólöf Sigurðardóttir, eldgos125@gmail.com
 

Sigurður Freyr Sigurðarson heiti ég, er oftast kallaður Bibbi. Ég er umsjónarkennari á unglingastigi í Síðuskóla á Akureyri. Þetta skólaár er ég með 8. bekk. Ég kenni íslensku, stærðfræði, upplýsingamennt, náttúrufræði, lífsleikni og íþróttir.

Ég (þessi til hægri á myndinni) er fæddur þann 12. apríl 1965 og verð því 53 ára á þessu ári. Ég er giftur Sóleyju Helgu og á tvö börn, Tinnu Huld fædda 2003 og Gunnar Þór fæddur 2008.

Ég nam kennarafræðin 1997 - 2000, var með íþróttir sem aðalvalgrein, og var á síðasta árinu var ég formaður nemendafélagsins í Kennó.

Ég útskrifaðist úr K.H.Í. vorið 2000 og fór beint austur á Egilsstaði þar sem ég kenndi hinar ýmsu greinar eins og ég geri enn.

Ég hef verið óánægður með sölu á réttindum í kjarasamningum undanfarið og í stað þess að standa hjá og tuða ákvað ég að reyna að leggja mitt af mörkum og það hófst síðasta haust er ég gerðist varamaður í stjórn BKNE. Nú vil ég leggja meira til málanna og býð mig fram í stjórn F.G.

Ég mun leggja áherslu á að þeir kjarasamningar sem lagðir eru fram til samþykktar séu þess eðlis að allir skilji þá og það þurfi ekki lögfræðinga bæði hjá K.Í. og sveitarfélögunum til að skilja og skýra út samninga út samningstímann. Launahækkanir eru númer eitt tvö og þrjú hjá mér. Mér finnst líka áríðandi að mælanlegir álagspunktar séu mældir og nýttir og frekar rætt um þá en álagið sjálft sem er huglægt. Með álagspunktum á ég við fundi, skráningu í nýjum Mentor, útfyllingu eyðublaða fyrir sérfræðinga (vinna fyrir sérfræðingana án greiðslu).

Við verðum að passa okkur á því að blanda bundinni viðveru ekki inn í kjarasamningagerðina því þá verður það metið til launahækkunar og því þarf að vinna í því máli þegar kjarasamningar eru í höfn, sem og öðrum hlunnindum sem við höfum glatað.

Eins finnst mér mikilvægt að stríðandi fylkingar úr bæði formannskjöri K.Í. og F.G. standi saman þegar kemur að kjarabaráttunni og mun ég gera mitt til að lægja öldurnar og samstaðan sem var fyrir ári verði til staðar þegar harðnar á dalnum.

Ég hef fulla trú á því að þeir sem kosnir verða til að stýra félaginu næstu árin munu leggja sig alla fram við að koma grunnskólakennurum þangað sem þeir eiga að vera í launastrúktúr landsins. Ég vona að ég verði einn þeirra sem kemst að en að sama skapi þá óska ég hinum frambjóðendunum góðs gengis í kosningunum.

Með bestu kveðju að norðan,
Bibbi

Nafn: Silja Kristjánsdóttir
Núverandi vinnustaður: Sjálandsskóli í Garðabæ
Aldur: 37 ára
Menntun: B.ed í grunnskólakennarafræðum frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands – lokið 2011. Viðskiptalögfræði við Háskólann á Bifröst 2001-2003. Fjölmörg námskeið á vegum háskóla og annara sem tengjast textíl og kennslu.

Starfsreynsla: Hef starfað sem kennari í Sjálandsskóla frá 2011. Fyrri störf eru meðal annars á leikskólum Hjallastefnunnar, í verslun, í ferðaþjónustu og víðar.

Af hverju býðurðu þig fram?
Ég tel að þekking mín, áhugi og reynsla geti nýst vel í stjórn og samninganefnd FG.

Á hvað muntu leggja áherslu náir þú kjöri?
Mig langar að taka þátt í að efla starsumhverfi kennara, vinna að sameiningu stéttarinnar og aukinni virðingu kennarastarfsins í samfélaginu. Ég mun beita mér fyrir því að dregið sé úr álagi og laun kennara séu hækkuð verulega.
Annað?
Ég hvet alla kennara til að nýta kostningarétt sinn. Það skiptir máli hverjir sitja í stjórn og nefndum Félags grunnskólakennara. Hvert atkvæði skiptir máli. Höfum hugrekki til að kjósa nýtt fólk í stjórn.

Framboðssíða á Facebook. 

Svava Þ. Hjaltalín er fædd á Akureyri 1963. Hún hefur kennt yngri börnum í rúmlega 30 ár. Til fjölda ára hefur hún starfað við Giljaskóla á Akureyri en kenndi áður tæp 10 ár við Grunnskóla Grindavíkur.

Svava er grunnskólakennari með diplómu í námi og kennslu ungra barna. Áhugasvið og sérfræði hennar er lestur og lestrarkennsla. Hún hefur gefið út eina lestrarbók, Bankaránið og heldur úti Facebooksíðunni Í pokahorninu ásamt samstarfskonu sinni þar sem áhersla er lögð á fjölbreytt verkefni fyrir yngri börn. Ásamt henni hefur Svava einnig þýtt námsefni PALS í stærðfræði fyrir 1. - 6. bekk. og haldið námskeið víðs vegar um landið fyrir kennara.

Svava býður sig fram til trúnaðarstarfa fyrir FG vegna óbilandi áhuga á starfi félagsins og högum grunnskólakennara. Hún er öflugur fulltrúi landsbyggðarinnar.

Svava er vön félagsstörfum og hefur meðal annars verið í skólamálanefnd FG síðustu ár. Henni er umhugað um að virðing fyrir starfinu verði meiri og að unnt verði að bregðast við fækkun í stéttinni. Hún mun leggja áherslu á gott samstarf og heiðarleika innan sem utan stéttar.

Svava telur brýnt að efla samvinnu milli skóla og kennara og stuðla að öflugu stuðningsneti innan skólanna, bæði fyrir nemendur og kennara.

Ég heiti Þórdís Sævarsdóttir og vinn nú sem grunnskólakennari í Dalskóla í Reykjavík og kenndi áður í Kópavogi. Ég er 42 ára og hef starfað sem kennari frá árinu 2002 og kem úr kennara og skólamálafjölskyldu.

Lengsti starfsferill minn er í kennslu en á ungdómsárum starfaði ég í ferðamennsku og hef gengið í flest störf sem viðkoma hótelrekstri auk síðar samhliða kennslunni við ýmis félags- og nefndarstörf í skólamálum, þróunarverkefnum, námsefnisgerð og verkefnastjórn.

Í Kópavogi var ég aðstoðarverkefnastjóri í Evrópusamstarfverkefni Comeniusar – Tales of Europe, tók þátt í þróunarverkefni, umræðum og úrbótum fyrir bráðgera nemendur og var einnig liðtæk í skemmtinefndum. Þar sat ég einnig í stjórn KBK og KMSK og gegndi trúnaðarmannastöðu frá 2007 -2012. Á því tímabili sinnti ég einnig nefndarstörfum FG, skólamálanefnd FG 2011 – 2014 og 2017 – 2018 og var á tímabili varafulltrúi stjórnar FG. Ég kom að undirbúningi nýrrar aðalnámsskrár og yfirlestri hluta hennar sem var einkar skemmtileg vinna og áhugaverð. Einnig var ég fulltrúi KÍ í þróunarnefnd Mennta- og menningarmálaráðuneytis um eflingu fjölbreytts náms fyrir framhaldsskólanemendur.

Ég hef gengt formennsku fagfélaga TKÍ og KórÍS og verið fulltrúi þeirra í norrænu samstarfi. Einnig hef ég haldið nýsköpunar- og frumkvöðlanámskeið fyrir börn frá 2016 og í samstarfi við HÍ tek ég nú þátt í þróunarverkefninu MakEY um makerspaces / gerver fyrir börn frá 5 – 8 ára. Ég gegni núna formennsku FLINK, Félag kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt.

Ég útskrifaðist með stúdentspróf af félagsfræðibraut, þaðan með B.ed sem grunnskólakennari og kennsluréttindi á framhaldsstigi og lauk MA í Verkefnastjórn vorið 2016. Að auki hef ég grunn í tónlist og hef tekið námskeið um skapandi skólastarf, nýsköpun- og frumkvöðlafræði, þjónandi forystu og sjálfbæra stjórnun.

Þróun skóla- og menntamála inn á 21. öldina hafa verið á mínu áhugasviði til fjölda ára og frá því að ég hóf kennaranám.

Því býð ég mig fram til starfa fyrir FG til að taka virkan þátt í þróun menntamála, skólaumhverfis og kennarastarfsins.

Kennarastarfið er eitt af stoðum samfélagsins því er mikilvægt að það fái að þróast og vaxa með breyttu samfélagi 21. aldar.

Ég vil beita mér fyrir því að náist sátt um kennarastarfið í samfélaginu á þann hátt að það njóti þeirrar virðingar sem það á skilið, ekki bara í orði heldur á borði, sem sýni sig í skólamálum, starfsaðstæðum, launum, stefnumótun, viðhorfum og framtíðarsýn. Þeim árangri má ná með góðri samvinnu og með málefnalegum og skilvirkum umræðum, því vönduð mennta- og skólamál eru ábyrgðarmál okkar allra.
Þau eru hagur okkur allra, einnig þeirra sem taka við okkar samfélagi.

 

Kosnir eru sex í aðalstjórn og fimm í varastjórn. 


Frambjóðendur í samninganefnd Félags grunnskólakennara eru: 

Ég heiti Anna Guðrún Jóhannesdóttir, grunnskólakennari og starfa í Glerárskóla á Akureyri. Ég hef starfað sem grunnskólakennari í 20 ár og verið trúnaðarmaður sl. fimm ár og sit í stjórn BKNE sem gjaldkeri. Ég er með B.ed. frá KHÍ (2001) lauk 60 ECTS einingum í HRM frá HÍ (2008) og Master frá DPU í Pædagogisk Socialogi (2011).

Mínar áherslur eru:

 • LAUNAHÆKKUN!
 • Allir kennarar sama hvaða starfsheiti þeir bera ættu að grunnraðast til jafns við umsjónarkennara en umsjónakennarar ættu að fá að minnsta kosti tvo tíma á viku til umsjónarstarfa.
 • Allir kennarar ættu að hafa skýra starfslýsingu.
 • Stytting vinnuviku er brýnt verkefni til að minnka álag og vinna gegn kulnun í starfi.
 • Kennarar þurfa sveigjanlegan vinnutíma til að koma til móts við þarfir skóla og kennara en ekki binda bindingarinnar vegna.
 • Tryggja þarf að til séu verklagsreglur verði kennarar fyrir ofbeldi af einhverju tagi.
 • Starf trúnaðarmanna er félaginu mjög mikilvægt. Þeir þurfa að fá umbun fyrir störf sín og tíma til að sinna þeim.
 • Skóli án aðgreiningar þarf nægt fjármagn til að sinna lögbundnum skyldum sínum. Gera þarf skýran greinarmun á því hvenær mál eru skólamál og hvenær heilbrigðismál. Verkefnum sem ríki og sveitarfélög fela skólum að vinna verður að fylgja nægt fjármagn.
 • Setja þarf skýrar reglur um samskipti heimila og skóla og aðgengi foreldra að kennurum.
 • Framboð starfsþróunar og símenntunar þarf að vera fjölbreytt, standa öllum kennurum á landinu til boða og á þeim tíma sem hentar þeim. Endurskoða þarf frá grunni hvernig viðbótarmenntun er metin til launa.
 • Stórauka þarf framboð á námsleyfum.
 • Til að nýliðun verði í stéttinni þurfa launin að vera samkeppnishæf og kennara verður að meta að verðleikum, þeir eru sérfræðingar.
 • Koma ætti á launuðu kandidatsári kennaranema og efla þarf verulega móttöku nýrra kennara með skipulögðu kerfi leiðsagnakennara.

Ég gef kost á mér í stjórn og samninganefnd Félags grunnskólakennara.

Endilega hafið samband og ræðið málin. Netfang: anngudjo@gmail.com

Árni Már Árnason
Fæðingardagur: 2. desember 1959
Tölvupóstur: arnia@flataskoli.is

MENNTUN OG STARFSRÉTTINDI

 • 2008-2010 Háskóli Íslands - Menntavísindasvið
  Kennsluréttindi í grunn- og framhaldsskóla
 • 1983-1985 Meistaraskólinn
  Byggingameistari
 • 1979-1982 Iðnskólinn í Reykjavík
  Húsasmiður

STARFSFERILL

 • 2010-2018 Flataskóli - Kennari
  Sinni smíðakennslu og hef kennt náttúrufræði og stærðfræði við skólann.
 • 2014 Fjölbrautaskólinn í Breiðholti – Kennari
  Sinnti kennslu við kvöldskóla FB í teikningu, áætlun og gæðastjórnun, húsaviðgerðum og breytingum og móta- og steypuvinnu.
 • 2011-2018 Garðaskóli – Kennari
  Sinni smíðakennslu við skólann.
 • 2010-2017 Klifið – Stundakennari
  Var með kassabílanámskeið á hverju vori, sem ég þróaði sjálfur.
 • 2009-2013 Alþjóðaskólinn á Íslandi – Kennari
  Sinnti smíðakennslu við skólann.
 • 2009-2010 Sjálandsskóli – Kennari
  Sinnti smíða-, stærðfræði-, íslensku-, lestrar- og skriftarkennslu.
 • 2008-2009 Kelduskóli og Korpuskóli – Kennari
  Sinnti smíðakennslu.
 • 1986-2008 Sjálfstætt starfandi verktaki - Byggingameistari
  Stýrði hinum ýmsu verkum og hef komið að byggingu hundruði húsa, bæði
 • stórum sem smáum.
 • 1976-1985 Smiður hjá Guðbirni Guðmundssyni
  Byrjaði sem nemandi og varð síðar fullgildur smiður.

FÉLAGS- OG TRÚNAÐARSTÖRF
2016-2018 Flataskóli – Trúnaðarmaður kennara2

ÁSTÆÐUR FYRIR FRAMBOÐI
Mig langar til þess að nýta kraft minn og reynslu mína til fulls með því að vinna að bættum
kjörum kennara, m.a. með því að hefja kennarastarfið til fyrri vegs og virðingar.

STEFNUMÁL
Meginmálið er að stuðla að framgangi kennarastéttarinnar en spurningin er hvernig það skal
upplagt og framkvæmt. Seint verður settur fram tæmandi listi en eftirfarandi atriði eru mér þó
ofarlega í huga:

 • Stuðla að bættri stéttarvitund með aukinni samheldni og samstöðu á meðal kennara.
 • Ná fram samningum sem auka réttindi og laun kennara án þess að gefa eftir áður unnin
 • réttindi.
 • Bæta ímynd kennarastéttarinnar svo að hún sé metin jafnt við aðrar sambærilegar
 • fagstéttir, m.a. m.t.t. launa og vinnuálags. Án bættrar ímyndar er hætt við því að lítil
 • endurnýjun verði innan stéttarinnar og að ungt fólk sækist síður eftir því að starfa sem
 • kennarar.
 • Bæta vinnuumhverfið þar sem kennarar og nemendur búa gjarnan ekki við nægjanlega
 • góðan aðbúnað.

UM MIG OG ANNAÐ
Í gegnum víðtæka starfsreynslu mína hef ég tileinkað mér enn frekari hæfni í teymisvinnu, eftirfylgni ákvarðana og samviskusemi. Þetta hefur meðal annars komið með undirbúningi fyrir verk, atburði og fundi með fyrirsvarsmönnum og kennurum skólanna.

Að sama skapi hef ég lagt áherslu á kurteisisleg, fagmannleg og mannleg samskipti í mínum störfum. Vegna starfa minna og háttsemi tel ég mig hafa öðlast góðvild, vinsemd og virðingu samkennara minna. Nú á síðustu tíu árum hefur áhugi minn fyrir kennslu farið stigvaxandi með hverju árinu. Í dag get ég með sanni sagt að kennslan eigi hug minn og hjarta. Kennslan hefur reynst mér ákveðin hugljómun þar sem verkvit mitt og hugmyndasköpun fara saman og sameina þar með mín helstu áhugamál.

Kynning á pdf-formi. 

Nafn: Ásthildur Lóa Þórsdóttir.
Ég er grunnskólakennari og er fædd árið 1966. Ég er gift og á tvo uppkomna syni.

Ég býð mig fram í stjórn FG og samninganefnd.

Af hverju býð ég mig fram?
Næstu ár munu skera úr um framtíð grunnskólans á Íslandi. Grunnskólakennarar eiga að vera í forystu og hafa frumkvæði við að móta menntastefnu landsins. Menntun í landinu er í höndum okkar. Við erum hvorki vopnlaus né vonlaus. Mig langar að sjá grunnskólakennara rísa upp til þeirrar virðingar sem þeir eiga skilið. Áhrif okkar á eigið starf og starfsumhverfi hafa verið minnkuð með markvissum hætti á undanförnum árum. Við þurfum að sækja þessi áhrif okkar aftur og endurvekja stolt kennarastéttarinnar.

Við þurfum að bera höfuðið hátt þegar kemur að kjarasamningum og fái ég einhverju ráðið, verða réttindi aldrei aftur seld í skiptum fyrir prósentur.
Hugarfar skiptir öllu máli og félag sem er brotið eða hefur þegar sætt sig við stöðu sína mun aldrei ná ásættanlegum árangri, hvað þá leiða nokkurn til sigurs. FG á að berjast til sigurs!

Mig langar að taka þátt í að móta stefnuna til næstu ára með nýjum formanni FG og sjá kennarastarfið hafið til þeirrar virðingar sem það á skilið. Hagsmunir kennara og nemenda fara saman. Báðir hópar eiga mikið undir því að vel takist til.

Mínar áherslur
Forysta FG á að veita öfluga mótspyrnu ef sótt er að skólakerfi og menntun.

Forysta FG á að standa vörð um fagmennsku og velferð kennara og rísa til varnar sé vegið að starfsheiðri þeirra á opinberum vettvangi.

Við gerð kjarasamninga þarf að auka gegnsæi verulega. Það á að vera sjálfsagt að félagsmenn séu upplýstir um gang kjaraviðræðna því þó trúnaður við viðsemjendur sé nauðsynlegur á einhverjum tímapunkti á hann sín takmörk. Samninganefndir vinna fyrir félagsmenn og hafa upplýsingaskyldu gagnvart þeim.

Gegnsæi skal vera í allri ákvarðanatöku. ALLIR samningar við vinnuveitendur skulu vera upp á borðum og kynntir félagsmönnum ÁÐUR en að undirskrift kemur. ALDREI skal látið undan hótunum eða skrifað undir vegna „óeðlilegrar“ pressu hagsmunaaðila, sbr. það sem gerðist með lífeyrismálin.

Það er lágmark að FG verji ávallt áunnin réttindi félagsmanna við samningagerð. Í ljósi þessa tek ég heilshugar undir orð Ragnars Þórs nýkjörins formanns KÍ um að „í kjaramálum verði loforðareikningi stjórnvalda hjá kennurum lokað vegna vanefnda. Ekkert verði gefið eftir eða selt í krafti óuppfylltra loforða. Orðum fylgi aðgerðir.“

Auka þarf möguleika félagsmanna FG til að hafa áhrif. Það er allt of langt að kjósa fólk til fjögurra ára. Það geta allar samninganefndir lent í því að samningum sé hafnað, en tryggja þarf að félagsmenn geti, t.d. með undirskriftum krafist þess að stjórn/samninganefnd boði til kosninga og endurnýji umboð sitt ef þannig stendur á.

Viðhorf forystu FG til trúnaðarmanna þarf að endurskoða en þeir eiga fyrst og fremst að vera fulltrúar og umbjóðendur sinna samstarfsmanna. Ef hagsmunir félagsmanna skarast við hagsmuni FG eiga trúnaðarmenn að gæta hagsmuna félagsmanna. Ég tel að auka þurfi aðstoð við trúnaðarmenn vegna samningstengdra ágreiningsmála í skólum.

Stjórnsýsla FG þarf að vera gegnsæ, vönduð og heiðarleg og allar upplýsingar sem varða hagsmuni félagsmanna vera þeim opnar og aðgengilegar. Þannig skal opna bókhald og birta fundargerðir að svo miklu leyti sem mögulegt er vegna persónuverndarsjónarmiða.

Styrkja þarf kennara á landsbyggðinni varðandi það sem þeir þurfa að sækja til höfuðborgarsvæðisins, t.d. vegna endurmenntunar.

Ég mun mæla fyrir auknu aðgengi félagsmanna að stjórnarmönnum t.d. með því að haldnir séu opnir fundi með félagsmönnum u.þ.b. mánaðarlega.

Forysta FG á að standa vörð um grunngildi skólastarfsins og vera í fararbroddi í mótun og stefnu grunnskólans í samráði við sína félagsmenn.


Trúnaðar- og félagsstörf
Á árunum 2014 – 2017 var ég trúnaðarmaður kennara Árbæjarskóla og var ein af þeim sem stóð að „grasrótarbaráttu“ grunnskólakennara haustið 2016. Ég hafði frumkvæði að og samdi fyrstu ályktunina sem send var frá kennurum vegna lífeyrisjóðsfrumvarpsins alræmda og í kjölfar ályktunar kennara Árbæjarskóla sendu tugir annarra skóla frá sér samsvarandi ályktanir. Á baráttufundi grunnskólakennara í Háskólabíói í nóvember í fyrra var ég ein af ræðumönnum fundarins.

Í maí 2017 tók ég við sem formaður Hagsmunasamtaka heimilanna en það er hugsjónastarf unnið í sjálfboðavinnu. Barátta mín fyrir því að réttindi neytenda og lánþega væru virt leiddi til þess að ég var beðin um að gefa kost á mér í stjórn samtakanna.

Starfsferill
Frá því í haust hef ég kennt í Öldutúnskóla í Hafnarfirði en á árunum 2011 – 2017 kenndi ég í Árbæjarskóla í Reykjavík. Auk þess hef ég kennt í Flataskóla, hjá Barnaskóla Hjallastefnunnar, í Selásskóla og Ölduselsskóla. Meðal annarra starfa má nefna að ég útbjó kerfi sem heldur utan um auglýsingavörur hjá einni stærstu heildverslun landsins. Þá hef ég kennt fyrirtækjahópum og einstaklingum á tölvur ásamt því að semja kennslu- og handbækur. Auk þess hef ég nokkurra ára reynslu af sölu- og kynningarstörfum.

Menntun:
Árið 1994 lauk ég B.ed. gráðu frá Kennaraháskóla Íslands. Áður hafði ég auk þess lokið 100 einingum í ensku í HÍ. Veturinn 2015 – 2016 nam ég Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun hjá Endurmenntun HÍ og hef D level réttindi IPMA í verkefnastjórnun.  

Ég heiti Bergljót Ingvadóttir og er umsjónarkennari á yngsta stigi í Varmárskóla, Mosfellsbæ. Ég er 61 árs og hef kennt með hléum frá 1977. Ég stundaði nám í uppeldis- og kennslufræði við Háskóla Íslands og fór í kennsluréttindanám í beinu framhaldi. Ég fór síðan í framhaldsnám til Bandaríkjanna og tók þar tvær mastersgráður, MA í Alþjóðamenntunarfræði (International Education) og MS í kennslutækni (Educational Technology). Ég hef unnið á öllum stigum grunnskólans; unglingastigi, miðstigi, yngsta stigi og hef einnig unnið við sérdeildir og í sérskóla um hríð.

Ég tók þá ákvörðun að bjóða mig fram þegar í ljós kom að ekki nægjanlega margir höfðu boðið sig fram í stöður sem skipta okkur kennara miklu máli. Ég hugsaði sem svo að í stað þess að treysta öðrum fyrir mínum baráttumálum væri tími til kominn að stíga fram. Ég vil taka þá reynslu sem ég hef, en einnig skoðanir og reynslu samstarfsmanna, og berjast fyrir betri kjörum kennara.

Við þurfum að taka skrefið til baka og skoða þá vegferð sem við höfum farið. Þau mistök sem við höfum gert. Þau réttindi sem hafa verið „seld“ til að fá launahækkun. Aukin binding á viðveru og vinnurammann þarf að endurskoða. Í stað þess að afmarka betur starfssvið kennara hefur það reynst vera tæki í höndum sveitarfélaga til að auka álag í starfi. Þessar aðgerðir, auk annara, hafa skapað mikla óánægju innan kennarastéttarinnar. Flótti úr stéttinni fer ört vaxandi og nýliðun er í lágmarki. Endurskoða þarf launataxta sem eru úr takti við þær menntunarkröfur sem nú eru gerðar. Krafa um meiri menntun hlýtur að kalla á kröfu um hærri laun.

Í stuttu máli vil ég fara finnsku leiðina. Áherslurnar mínar verða: Valdefling kennara, meiri virðing og hærri laun.
 

Elín Soffía Harðardóttir, heimilisfræðikennari Víðistaðaskóla Hafnarfirði. Ég er 59 ára, stundaði nám í Hótel og veitingaskóla Íslands. Lauk sveinsprófi 1985 og fékk síðar meistararéttindi. Lauk prófi í uppeldis- og kennslufr. frá H.Í. 2010. Kennari við Víðistaðaskóla frá jan. 2008. Hef unnið við skrifstofustörf. Bryti á fraktskipum í rúm 5 ár.

Var með eigin rekstur í 12 ár.

Er trúnaðarmaður í Víðistaðaskóla.

Hef mikin áhuga á að starfa fyrir kennara og er reiðubúin að leggja mig alla fram í samninganefndinni og berjast fyrir bættum kjörum kennara.
 

Nafn: Eva S. Káradóttir
Núverandi vinnustaður: Grunnskóli Vestmannaeyja
Aldur: 51 árs
Menntun: Grunnskólakennari/verkgreinakennari

Starfsreynsla / starfsferill
Ég hef unnið við í 20 ár, aðallega í upplýsingatækni og hef starfað allan minn starfsferil sem kennari í Vestmannaeyjum. Ég hef unnið við ýmis störf í gegnum tíðina bæði á skrifstofum og í veitingabransanum en lengstur starfsaldur er sem kennari. Ég hef jafnframt verið aðili að mörgum samstarfsverkefnum innan Evrópu, ss. Comenius, Erasmus Plus og Etwinning.

Af hverju býðurðu þig fram?
Ég, eins og margir aðrir úr minni starfsstétt er afar ósátt við kaup og kjör og ákvað að ef ég vildi breyta einhverju að hætta að skammast út í aðra og bjóða mig fram til að reyna að hafa áhrif. Ég hef enga reynslu af samningagerð en tel mig hafa ýmislegt fram að færa í því engu að síður og full af áhuga.

 • Ég er ósátt við að þurfa alltaf að réttlæta launin mín og vinnutímann minn
 • Ég er ósátt við þessa láglaunastefnu sem virðist vera föst við okkar stétt
 • Ég er ósátt við vinnuskylduna og stimpilklukkuna
 • Ég er ósátt að geta ekki lifað af laununum mínum
 • Ég er ósátt við hvað vinnan mín er farin að núast mikið um annað en kennslu
 • Ég er ósátt við launin mín.

Á hvað muntu leggja áherslu náir þú kjöri?
Ég mun berjast fyrir því að bæta það sem ég er ósátt við (sjá að ofan) Ég mun berjast fyrir því að kennarar fái mannsæmandi laun sem hæfir háskólamenntuðum einstaklingum. En hvað eru mannsæmandi laun? Mér finnst eðlilegt að nýútskrifaðir kennarar fái kr. 450.000 útborguð laun á mánuði og aðrir meira sem er í samræmi við launaþróun annarra sérfræðinga. Við þurfum skýrari og einfaldari samninga ásamt því að efla virðingu fyrir starfi kennara innan skóla sem utan.

Annað?
Kennarastarfið er frábært starf og hef ég aldrei séð eftir því að gerast kennari þó svo að ég myndi aldrei vilja að börnin mín myndu gera þetta að ævistarfi. Að því sögðu finnst mér sorglegt að þetta skuli vera mitt viðhorf til kennarastarfsins en þetta er sú staðreynd sem við lifum við í dag. Þeir sem ákveða að leggja fyrir sig þetta 5 ára háskólanám til að gerast kennari og þurfa t.d. að taka námslán munu líklega aldrei koma til með að borga upp lánið sitt. Sorgleg staðreynd. Að lifa af kennaralaunum einum og sér í dag er barátta og þessu þurfum við að breyta, þessu á að breyta og þessu vill ég breyta.   

Eyjólfur Kolbeins, Ölduselsskóla. 

 • 34 ára
 • Bsc. í íþróttafræði frá Kennaraháskóla Íslands á Laugarvatni
 • Íþróttakennari í Ölduselsskóla frá útskrift 2006

Ég býð mig fram í samninganefnd vegna þess að ég vil geta haft áhrif á laun mín sem kennari. Ég er í sambúð með öðrum kennara og því eru tekjur kennara mjög mikilvægar á mínu heimili.

Ef ég næði kjöri myndi ég leggja mikla áherslu á að það þyrfti ekki að selja einhver hlunnindi til þess að hækka í launum.

Ég vil að allir kennarar raðist í grunninn jafnt og að umsjónarkennarar fái greitt fyrir starf sitt með yfirvinnu eða í formi kennsluafsláttar. Það þarf að skilgreina hvað felst í því að vera kennari og hvað felst í því að vera umsjónarkennari, það gengur ekki að hver og einn kennari þurfi að gera það á fundi með skólastjóra eins og vinnumatið var sett upp. Það á ekki að vera hægt að bæta endalausum fundum og verkefnum á kennara án þess að greiða sérstaklega fyrir það. Kennsla og undirbúningur ætti að vera aðal starf kennara.

Ég tel mikilvægt að kjarasamningur kennara verði skýr svo það verði ekki möguleiki á að kennarar, skólastjórar og sveitafélög túlki hluti í samningnum eftir eigin hentugleika.

Ég tel það mjög mikilvægt að samninganefnd FG hafi skýr markmið um það sem hún vill ná út úr kjarasamningum.
 

Gauti Eiríksson
Álftanesskóli
43 ára

Nám og starfsferill: Stundaði nám í líffræði við Háskóla Íslands 1997 til 1998. B.Ed. frá Kennaraháskóla Íslands 2002. Leiðsögumannaskóli Íslands 2005 til 2006. 
Hef unnið sem grunnskólakennari við:

 • Álftanesskóla 2005 til 2018
 • Öldutúnsskóla 2003 til 2005
 • Reykhólaskóla 1996 til 1997

Hef eins og margir aðrir kennarar unnið önnur störf samhliða kennslunni til að ná endum saman. Má þar nefna sem leiðsögumaður, leigubílstjóri og meindýraeyðir svo eitthvað sé nefnt.

Af hverju býð ég mig fram?
Ég býð mig fram vegna þess að ég tel að skólastarf á Íslandi sé í hættu. Kennurum fækkar, langtímaveikindi aukast og aðsókn í kennaranámið minnkar ár frá ári. Ein megin ástæðan fyrir þessu eru lág grunnlaun og skelfileg framkvæmd á síðustu kjarasamningum. Þessu þarf að breyta.

Staðan er alvarleg þegar skólastjórnendur þurfa að ráða ófaglært fólk í kennslu og einstaklinga sem eru ekki talandi á íslenkst mál. Ástæðan er að fagmenntaðir kennarar sækja ekki um lausar kennarastöður.

Ég hef heilmikið fram að færa í þessari umræðu og í komandi samningum við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þar er mjög mikilvægt að koma ábyrgðinni þangað sem hún á heima sem er hjá sveitarstjórnarmönnunum sjálfum. Allt of lengi hafa þeir getað falið sig á bak við samninganefnd, með öðrum orðum ekki þurft að svara fyrir ástandið eins og það er.

Það sem þarf að breytast er eftirfarandi:

 • Hækka þarf laun grunnskólakennara verulega. Lágmarkið er að ná grunnlaunum kennara upp fyrir meðallaun í landinu. Eins þarf að sækja hækkun til að vega á móti skertum lífeyrissréttindum.
 • Það þarf að ramma mun betur inn hvað telst til forgangsverkefna kennara sem eru kennsla og undirbúningur hennar og hvað telst til annarra starfa. Eins og staðan er í dag gefst lítill tími til skólaþróunar eða annarra faglegra starfa.
 • Lækka þarf kennsluskyldu og er lágmarkið að grunnskólakennarar séu með sömu kennsluskyldu og framhaldsskólakennarar.
 • Það þarf að koma í veg fyrir að við fáum í hausinn verkefni eins og nýtt námsmat án þess að því fylgi tími og fjármagn til að vinna þá vinnu.
 • Það þarf að finna sanngjarnari leið til að umbuna kennurum fyrir umsjón. Það þarf að vera þannig að kennarar haldi sömu launum á sumrin.
 • Það þarf að finna sanngjarna leið til að auka sveigjanleika í viðveru. Kennarar eru fagfólk og það á að treysta þeim til að vinna vinnuna sína. Sér í lagi þar sem vinnuaðstæður í skólum eru oft ekki boðlegar.

Annað: Hvað kostar að gera ekki neitt
Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga var mikið rætt um uppbyggingu innviða. Mikið var rætt um kostnað og hve mikið ætti að leggja í þennan málaflokkinn eða hinn. Einnig var bent á kostnaðinn sem fylgir því að gera ekki neitt.
Bent er á að það sé auðvelt að reikna kostnaðinn við að laga ekki vegakerfið eða að hafa heilbrigðiskerfið eins og það er. Að minnsta kosti er flestum ljóst að það gengur ekki að halda áfram án þess að leggja fjármagn í að byggja upp innviðina í samfélaginu. Það er morgunljóst að það kostar að gera ekki neitt.

Ég hef ekki orðið var við að reiknað hafi verið út hvað gerist fyrir menntakerfið ef við gerum ekki neitt. Ýmsar staðreyndir liggja ýmsar staðreyndir fyrir. Ef fram fer sem horfir þá vantar nærri 150 kennara í Reykjavík árið 2020 og um 650 árið 2030. Ef við tökum landið allt má allt að þrefalda þessa tölu. Vissulega hefur Reykjavíkurborg kynnt aðgerðaáætlun en samkvæmt henni á að gera flest annað en að ráðast að rótum vandans. Sveitarstjórnarmenn í Reykjavík keppast nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga við að dásama hve vel skóla og frístundasvið borgarinnar sé fjármagnað. Þeir hafa sumir meira að segja sagt (að vísu ekki nýlega) að það þurfi að hækka laun kennara en það virðist hafa gleymst núna þegar samningar eru lausir. Sveitarstjórnarmenn í öðrum sveitarfélögum virðast ætla að taka Halldór Halldórsson á þetta og bíða eftir að atvinnuleysi aukist því þá komi fólkið aftur inn í skólana. Kennararnir eru til úti í samfélaginu. Þeir eru bara í öðrum störfum þar sem laun eru í samræmi við álag og ábyrgð. Hvað kostar að gera ekki neitt?

Þó nokkrir sveitarstjórnarmenn keppast við að útskýra hve miklar launahækkanir kennarar hafa fengið undan farin ár. Vissulega hafa launin hækkað sem og hjá öðrum. Menntunarkröfur kennara hafa líka hækkað og ekki hafa komið til launahækkanir til að bæta þær upp. Prósentuhækkanir á laun kennara sýna samt sem áður bara hve lág launin voru fyrir nokkrum árum. Einnig hafa sveitarstjórnarmenn bent á að grunnskólakennarar séu komnir upp í (eða jafnvel upp fyrir) Salek þakið. Þeir hinir sömu virðast gleyma að Kennarasambandið er ekki hluti af Salek samkomulaginu. Þar að auki hefur stór hluti hækkana sem grunnskólakennarar hafa fengið á þessum tíma verið vegna sölu á réttindum eða breytingum á vinnutilhögun. Sumir hópar hafa fengið þessar sömu hækkanir án þess að selja neitt. Þarna eigum við inni töluverða hækkun og svo eru það lífeyrissjóðsmálin. Það er reyndar sér umræða. Eftir allar þessar hækkanir þá fjölgar leiðbeinendum og ástandið batnar lítið. Það kostar að gera ekki neitt.

Fréttir af manneklu voru fyrirferðarmiklar langt fram eftir hausti. Hjá sumum sveitarfélögum gekk betur en hjá öðrum að ráða fólk. Það hefur hins vegar ekki komið fram hversu vel það gekk í raun hjá þeim sem telja að þetta hafi gegnið vel. Bæjarstjórn Kópavogs telur sem dæmi að vel hafi gengið að manna kennarastöður í grunnskólum bæjarins. Samt eru rúmlega 20 leiðbeinendur við kennslu í grunnskólum Kópavogs. Þetta viðhorf hefur heyrst frá fleiri sveitarstjórnarmönnum. Þetta viðhorf gagnvart grunnskólastarfi er stórhættulegt og kristallast vandinn að miklu leiti í þessu viðhorfi. Það virðist vera nóg að viðkomandi sæki um vinnu til þess að teljast hæfur til kennslu. Það virðist að minnsta kosti ekki vera markmið sveitarfélagana að skólastjórar hafi úr hæfum umsækjendum að velja þegar kennarastöður losna. Þær eiga nefnilega eftir að losna nokkrar á næstu árum þar sem stór hluti grunnskólakennara fer á eftirlaun á næstu árum. Hvað kostar að gera ekki neitt.

Á síðustu árum hafa langtíma veikindi kennara stóraukist. Enginn hópur háskólamenntaðra starfsmanna hefur sótt í eins miklum mæli í Virk og kennarar. Sjúkrasjóður kennarasambandsins er að tæmast og sveitarfélögin virðast ekki sjá ástæðu til að bregðast við. Flestir virðast hafa mestar áhyggjur af því hvað á að gera við þá sem brenna út. Lítið er gert til að koma í veg fyrir að fólk brenni út. Það kostar að gera ekki neitt.

Margir virðast vera uppteknir af því að kennarar vilji fátt annað en að losna úr vinnunni sem fyrst til að komast heim til að gera eitthvað annað. Þetta fólk þekkir ekki mikið til kennara eða þeirra starfa sem þeir inna af hendi. Öll umræða í samfélaginu undanfarin ár um vinnutíma og vinnitilhögun á hinum almenna markaði (og að hluta á þeim opinbera líka) hafa snúist um að minnka vinnutímann og auka sveigjanleikann. Þessu er öfug farið hjá grunnskólakennurum.

Fyrir því virðast liggja fá rök önnur en þau að ná meiri framleiðni út úr hverjum kennara. Farið var í tilraun sem kallast vinnumat en framkvæmd þess var hreint ótrúleg. Vinnumatið átti að vera gagnkvæmt en sveitarfélögin virtust ætla hverjum skólastjóra að koma þeirri vinnu sem vinna þurft inn í vinnuramma þeirra kennara sem þeir höfðu á sínum snærum. Upphaflega átti sem dæmi að troða allir gæslu inn í vinnutíma kennara. Starf sem áður var talið vera álagsstarf var allt í einu fært um að taka við mun fleiri verkefnum. Þessi tilraun hefur haft þær afleiðingar að kennurum í kennslu hefur fækkað og langtíma veikindi hafa aukist. Við þessu verður að bregðast. Kostar ekki eitthvað að gera ekki neitt?

Vandinn er gríðarlegur og það þarf að taka á honum strax. Skólakerfið stendur því sem næst í ljósum logum en sveitarfélögin virðast ætla að ráðast á þennan eld með teskeið af vatni. Einu eldarnir sem reynt er að slökkva eru þeir sem sjást út um gluggana en á meðan kraumar eldurinn í kjallaranum. Þeir sem eru ábyrgir fyrir skólahaldi á Íslandi þurfa að hætta að slökkva elda. Það þarf að koma í veg fyrir að eldarnir kveikni. Það ætti að vera flestum ljóst að innan fárra mánaða verða sveitarstjórnarkosningar á Íslandi. Sveitarstjórnarmenn þurfa að gera sér það ljóst að þeir verða dæmdir af verkum sínum en ekki orðum. Það er kjósenda að koma þeim skilaboðum til þeirra. Það kostar að gera ekki neitt.

Gauti Eiríksson á Youtube. 
 

 • Hreiðar Oddsson
 • Álfhólsskóli
 • 41 árs

Grunnskólakennarapróf og diplóma í leiðsagnarkennslu. Ég hef kennt í grunnskólum frá 1998, fyrir utan árin 1999-2000 og 2013-2014. Ég hef unnið samhliða kennslu í verslunum, rekið Sumarbúðir skáta / Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni (frá 2004 – 2012)

Ég heiti Hreiðar Oddsson og er smíðakennari í Álfhólsskóla í Kópavogi. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á stéttarfélagsmálum og hef tekið virkan þátt í störfum fyrir félagið. Ég var trúnaðarmaður í Digranesskóla 2004 – 2008. Ég sat í samninganefnd FG 2008 – 2011 og svo í stjórn FG frá 2011 – 2013 þegar ég tók leyfi frá kennslu. Ég kom aftur til kennslu haustið 2014 og hef síðan þá verið trúnaðarmaður í Álfhólsskóla. Síðast liðin 2 ár hef ég verið í stjórn KMSK en ég var þar líka á árunum 2007 – 2013.

Markmið mín eru:

 • Launaleiðrétting og launahækkun.
 • Kennarastarfið er eitt starf og ber að meta alla kennara jafnt óháð starfsheiti og skulu laun allra miðast við laun umsjónarkennara. List og verkgreinakennarar hafa setið eftir allt of lengi og það þarf að bæta.
 • Nemendafjöldi í bekk og nemendafjöldi í námshópum er óskrifað blað og setja þarf viðmið um hámark í bekk/hóp.
 • Í þjóðfélaginu er mikil umræða um styttingu vinnuvikunnar, og ég veit að það er vilji til þess innan kennarastéttarinnar. Komi til þess þarf þó að vanda til verka því ekki er nóg að minnka bara bindinguna því að verkefnin verða þá enn til staðar. Til að raunveruleg stytting verði að veruleika þarf að skoða gaumgæfilega verkefnin sem liggja að baki kennarastarfinu og fækka þeim.
 • Aukinn orlofsréttur úr 24 dögum í 27 eða 30 daga er í dag skilyrtur við það að fækka endurmenntunartímum. Ég vil að kennarar fái val um það hvenær þeir nýta þessa orlofsdaga - geti s.s. valið í samráði við skólastjórnendur að taka þá á starfstíma skóla.

Endurmenntunarstundir eru 150/126/102 á ári. Framboð af áhugaverðri endurmenntun er slakt og þar verða sveitafélögin/háskólarnir að taka sig á. Með því að bjóða upp á metnaðarfull námskeið sem myndu færa kennurum menntunarstig til aukinna launa yrði ásókn mun betri.

Að því sögðu má benda á að ég er 41 árs gamall, ég er með Bed próf og diplómu (30 estc) í leiðsagnarkennslu, ég hef kennt í nær 18 ár og eina leiðin fyrir mig til að hækka í launum er að sækja mér 90 einingarnar sem mig vantar í masterinn, og þá fæ ég einn launaflokk.

Ég gef kost á mér í stjórn og samninganefnd Félags grunnskólakennara. Netfangið mitt er hreidaro@kopavogur.is og síminn 8980282. Eins er ég á Facebook sem Hreiðar Oddsson.

 

Ég heit Imke Schirmacher og hef starfað sem sérkennari síðan árið 2007 í Lágafellskóla í Mosfellsbæ. Árið 1999 útskrifast ég sem grunnskólakennari með M.Ed. í stærðfræði frá Kennaraháskólanum í Flensburg, Þýskalandi.

Eftir nokkur ár sem umsjónarkennari í Lágafellsskóla færði ég mig til og hef núna umsjón með sérkennslu stærðfræðinnar í 3. – 7. bekk. Ég er líka fagstjóri í stærðfræði á yngsta og miðstigi. Frá haustinu 2016 hef ég setið í stjórn Flatar, samtökum stærðfræðikennara.

Í stað þess að gagnrýna samningarnefndina og hennar störf ákvað ég að bjóða mig fram. Mínar áherslur munu vera endurskoðun vinnumats og vinnuumhverfis kennara ásamt leiðréttingu launa.
 

Ég heiti Jón Ingi Gíslason, 58 ára Umsjónarkennari á miðstigi og valgreinakennari í spænsku og stjörnufræði í Vættaskóla, Grafarvogi.

Ég sit í skólaráði míns skóla auk þess hef ég setið í Stjórnkerfis- og Lýðræðisráði Reykjavíkur síðastliðin ár. Í hef setið stjórn Kennarafélags Reykjavíkur frá því í vor.

Ég er landsbyggðarmaður í hjarta mínu enda úr Biskupstungum. Kenndi í Laugarlandi, Holtum, Rang og Vestmannaeyjum á árunum áður. Nú síðustu ár hef ég verið kennari í Reykjavík eftir að hafa eytt stærstum hluta starfsævinnar á almennum vinnumarkaði. Ég starfaði þar um langt árabil við stjórnun stórra og minni fyrirtækja. Þá starfaði ég lengi erlendis sem verkefnastjóri við afar erfiðar aðstæður í Rússlandi og Kína. Einnig í Þýskalandi og Sviss. Einnig vann ég að eigin þróunarstarfi í Dóminíska Lýðveldinu. Í þessum störfum bar ég ábyrgð á miklum fjölda flókinna samninga. Einnig kjarasamningsgerð á almennum vinnumarkaði. Sem sagt þá hef ég eytt drjúgum hluta ævinnar við samningaborðið og vegnað þar vel.

Ég lauk Mastersnámi í stjórnun menntunnar og menntakerfa (Master of Educational Administration M.Ed) frá University of Western Ontario, Kanada eftir að Kennaraháskólanámi mínu lauk. Sú frábæra menntun hefur nýst mér afar vel í mínum störfum. Þar var meðal annars að finna mjög nytsamleg fræði í viðtals og samningatækni. Á mínum langa ferli í margvíslegum félagsmálum hefur námið og fjölmörg námskeið í mannlegum samskiptum og mannrækt komið sér vel.

Ég hef verið mjög gagnrýninn á kjarasamninga kennara undanfarin ár. Hef ekki farið leynt með þá skoðun mína að ég tel að miklu betur megi standa að þessari vinnu. Mér finnst árangurinn vera lakur og kjarasamningsgerðin sjálf hafa verið götótt. Þar má nefna að upp hafa komið, strax að loknum samningum, deilur um túlkun á mikilvægum þáttum nýgerðs kjarasamnings. Vinnumatið var svo gert að kjarasamningsbundnu ferli án þess að fjármögnun þess hluta sem yrði metinn í svonefndan C hluta væri tryggð með samningum. Grunnhugmyndafræði þessara kjarasamninga með stóraukinni bindingu og miðstýringu er einfaldlega röng að mínu mati. Heildarlaun eiga að vera sambærileg við laun lækna eins og áður var og víða er viðmið svo sem eins og í Finnlandi. Í okkar dreifðu byggðum verða starfskjör líka að vera samkeppnisfær. Góðar leiðir til að laða að menntaða úrvalskennara út um allt land er að bjóða skattaafslætti eins og gert er í Noregi og Kanada. Þar er skattaprósenta mun lægri hjá kennurum sem búa fjarri nútíma þjónustu borganna.

Ég tel að raunveruleg lýðræðisleg aðkoma félagsmanna að gerð samningsmarkmiða og markmiðagerðin sjálf hafi verið í skötulíki. Það þarf að bæta. Lýðræðislega teknar ákvarðanir eru einfaldlega betri ákvarðanir og skila betri árangri.

Ég tel það ekki heiðarlegt af mér að gagnrýna þessa vinnu ef ég byði mig ekki fram til að gera betur. Það er vissulega óvinsæl fórn að gefa kost á sér í verkefnið. En það er ykkar að kjósa um það hvort þið viljið nýta ykkur boðið. Við getum nefnilega gert langtum betur. Sér í lagi ef við gerum það saman.

Í anda valddreifingar og aukinnar lýðræðisþátttöku kennara þá læt ég öðrum eftir framboð í önnur embætti FG.

Ef einhverjar spurningar vakna þá sendið mér skilaboð á Facebook. Mín síða er öllum opin.

 

Kynning hefur ekki borist. 

Ég heiti María Birgisdóttir og er 40 ára kennari í Laugarnesskóla.

Ég útskrifaðist með B.ed. frá Háskólanum á Akureyri 2001 og MSc. í mannauðsstjórnun 2014.

Ég hef kennt í þremur grunnskólum: Brekkuskóla, Langholtsskóla og Laugarnesskóla. Lengst af hef ég sinnt umsjónarkennslu hjá yngstu nemendunum en einnig kennt ensku, landafræði og íslensku hjá eldri nemendum. Einnig kenndi ég um skeið flóttafólki íslensku í samstarfi við Rauða Krossinn á Akureyri. Ég sinni nú starfi trúnaðarmanns við Laugarnesskóla og hef gert frá haustinu 2015.

Ég hef lengi haft áhuga á samskiptum og vellíðan í starfi, hvort sem um börn eða fullorðna er að ræða og valdi ég því að hefja nám í mannauðstjórnun. Helstu áherslur mínar í náminu voru greinar á borð við þróun mannauðs, vinnurétt, breytingastjórnun, vinnusálfræði og samskipti á vinnumarkaði. Námið hefur nýst mér vel bæði í starfi og sem trúnaðarmaður en einnig til að koma auga á þá hnökra sem eru til staðar og hvar tækifæri eru til að gera betur varðandi starfskjör og starfsumhverfi okkar kennara. Ég tel að til þess að fleiri vilji kenna og til að kennarar sem eru í kennslu haldist betur í starfi, hvort sem þeir eru reynslumiklir eða nýútskrifaðir, þurfi launin að hækka.

Hærri laun, virðing, stuðningur, sveigjanleiki í starfi og gott jafnvægi milli vinnu og einkalífs þarf að tryggja til þess að stöðva flótta úr stéttinni. Einnig tel ég mikilvægt að kjarasamningur kennara sé skýr um öll atriði sem varða réttindi og skyldur kennara.

Ég er með ríka réttlætiskennd og mikinn vilja til að berjast fyrir málstað okkar kennara. Ég tel að þekking mín og reynsla sem kennari og trúnaðarmaður ásamt þeirri þekkingu sem ég öðlaðist í námi mínu í mannauðsstjórnun muni nýtast vel í samninganefnd FG.

Ég hvet alla kennara til að nýta kosningarétt sinn.
Með virðingu og vinsemd,
María Birgisdóttir
 

Ég er kennari við Giljaskóla á Akureyri og sit í samninganefnd FG. Ég er 57 ára og bauð mig fram fyrir 4 árum með það að markmiði að ná betri kjörum og helst án verkfalla. Það hefur gengið svo vel að grunnlaun grunnskólakennara hafa hækkað meira en grunnlaun flestra háskólastétta. Verkfallsdagar eru 1. Þessi árangur er einn besti árangur sem nokkur samninganefnd FG hefur náð en fyrri samninganefnd á auðvitað hlut í þessum árangri.

Ég tel að ég geti enn gefið af mér í samningagerð. Ég tel að samninganefnd eigi að vinna líkt og við höfum gert. Þ.e.a.s. halda hugmyndum að sér og kynna félagsfólki samning sem næst og láta svo almenna atkvæðagreiðslu i friði. Það verða alltaf mörg atriði sem ekki nást í hverjum samningi og frestast því til næsta samnings.

Ég ætla að lokum að skora á kennara að velja ekki fólk í samninganefnd sem kemur stéttinni í verkfall með kröfugerð sem aldrei verður gengið að.
 

Ég heiti Siggerður Ólöf Sigurðardóttir, starfa sem grunnskólakennari við Hvolsskóla á Hvolsvelli. Ég hef þó einkum unnið á höfuðborgarsvæðinu.

Ég er 54 ára og hef starfað sem grunnskólakennari í 30 ár en er einnig með MLIS gráðu sem bókasafns- og upplýsingafræðingur.

Hef hef unnið á öllum stigum grunnskólans en einkum á yngsta- og miðstigi. Hef unnið á skólasafni í mörg ár og veitt fagfélagi skólasafnsfólks forystu til átta ára. Þannig að ég þekki skólastarf nokkuð vel. ´

Ég býð mig nú fram til stjórnunarstarfa þar sem mér finnst þörf á að auka umræðuna um bætt kjör kennara og þá ekki bara launahækkun. Því leit ég svo á að þar sem mig langar að breyta og bæta þá hafi ég eitthvað til málanna að leggja og geti þá gert fagstétt okkar gagn. Ég hef löngum barist fyrir því að bæta læsi íslenskra barna og vil veg skólasafna grunnskólanna sem mestan.

Skólastarf er skemmtilegt og krefjandi og það eru forréttindi að koma að menntun ungmenna.

Ég býð mig því hér með fram til stjórnunarstarfa í Félagi grunnskólakennara.

Kveðja, 
Siggerður Ólöf Sigurðardóttir, eldgos125@gmail.com
 

Nafn: Silja Kristjánsdóttir
Núverandi vinnustaður: Sjálandsskóli í Garðabæ
Aldur: 37 ára
Menntun: B.ed í grunnskólakennarafræðum frá Menntavísindasviði Háskóla Íslands – lokið 2011.
Viðskiptalögfræði við Háskólann á Bifröst 2001-2003. Fjölmörg námskeið á vegum háskóla og annara sem tengjast textíl og kennslu.

Starfsreynsla: Hef starfað sem kennari í Sjálandsskóla frá 2011. Fyrri störf eru meðal annars á leikskólum Hjallastefnunnar, í verslun, í ferðaþjónustu og víðar.

Af hverju býðurðu þig fram? 
Ég tel að þekking mín, áhugi og reynsla geti nýst vel í stjórn og samninganefnd FG.

Á hvað muntu leggja áherslu náir þú kjöri? 
Mig langar að taka þátt í að efla starsumhverfi kennara, vinna að sameiningu stéttarinnar og aukinni virðingu kennarastarfsins í samfélaginu. Ég mun beita mér fyrir því að dregið sé úr álagi og laun kennara séu hækkuð verulega.

Annað?
Ég hvet alla kennara til að nýta kostningarétt sinn. Það skiptir máli hverjir sitja í stjórn og nefndum Félags grunnskólakennara. Hvert atkvæði skiptir máli. Höfum hugrekki til að kjósa nýtt fólk í stjórn.

Framboðssíðan mín á Facebook. 
 

Ég er 47 ára leik- og grunnskólakennari með Dipl.Ed í sérkennslufræðum.

Starfsreynsla:
Leikskólakennari frá 1997-2008. Tek við sérkennslustjórastöðu við leikskóla til ársins 2015.
Sérkennari við einhverfudeild Álfhólsskóla frá 2015 – dagsins í dag.

Félagsmál:
Trúnaðarmaður leikskólakennara í 6 ár.

Sat í kynningarnefnd og samninganefnd félags leikskólakennara frá 2011-2015.

Ég tel að reynsla mín bæði í leik- og grunnskóla sé kostur. Einnig er ég sannfærð um að vera mín í samninganefnd leikskólakennara og að hafa verið trúnaðarmaður nýtist vel.

Sem sérkennari hef ég mikla reynslu af því mikla álagi sem fylgir að vinna í hugmyndafræði um skóla án aðgreiningar og því starfsumhverfi sem nemendum og kennurum er boðið upp á. Opna þarf umræðu um það mikla álag sem fylgir starfi grunnskólakennara í dag.
 

Markmið mín eru:
Launahækkun, minnka álag á kennara og fá aftur sveigjanleika í vinnutímann.

Ég gef kost á mér í samninganefnd félags grunnskólakennara

Lokaskýrsla mennta- og menningarmálaráðuneytisins, 2017 um stefnu um menntun án aðgreiningar.

Ég heiti Þórdís Sævarsdóttir og vinn nú sem grunnskólakennari í Dalskóla í Reykjavík og kenndi áður í Kópavogi. Ég er 42 ára og hef starfað sem kennari frá árinu 2002 og kem úr kennara og skólamálafjölskyldu.

Lengsti starfsferill minn er í kennslu en á ungdómsárum starfaði ég í ferðamennsku og hef gengið í flest störf sem viðkoma hótelrekstri auk síðar samhliða kennslunni við ýmis félags- og nefndarstörf í skólamálum, þróunarverkefnum, námsefnisgerð og verkefnastjórn.
Í Kópavogi var ég aðstoðarverkefnastjóri í Evrópusamstarfverkefni Comeniusar – Tales of Europe, tók þátt í þróunarverkefni, umræðum og úrbótum fyrir bráðgera nemendur og var einnig liðtæk í skemmtinefndum. Þar sat ég einnig í stjórn KBK og KMSK og gegndi trúnaðarmannastöðu frá 2007 -2012. Á því tímabili sinnti ég einnig nefndarstörfum FG, skólamálanefnd FG 2011 – 2014 og 2017 – 2018 og var á tímabili varafulltrúi stjórnar FG. Ég kom að undirbúningi nýrrar aðalnámsskrár og yfirlestri hluta hennar sem var einkar skemmtileg vinna og áhugaverð. Einnig var ég fulltrúi KÍ í þróunarnefnd Mennta- og menningarmálaráðuneytis um eflingu fjölbreytts náms fyrir framhaldsskólanemendur.

Ég hef gengt formennsku fagfélaga TKÍ og KórÍS og verið fulltrúi þeirra í norrænu samstarfi. Einnig hef ég haldið nýsköpunar- og frumkvöðlanámskeið fyrir börn frá 2016 og í samstarfi við HÍ tek ég nú þátt í þróunarverkefninu MakEY um makerspaces / gerver fyrir börn frá 5 – 8 ára. Ég gegni núna formennsku FLINK, Félag kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt.

Ég útskrifaðist með stúdentspróf af félagsfræðibraut, þaðan með B.ed sem grunnskólakennari og kennsluréttindi á framhaldsstigi og lauk MA í Verkefnastjórn vorið 2016. Að auki hef ég grunn í tónlist og hef tekið námskeið um skapandi skólastarf, nýsköpun- og frumkvöðlafræði, þjónandi forystu og sjálfbæra stjórnun.

Þróun skóla- og menntamála inn á 21. öldina hafa verið á mínu áhugasviði til fjölda ára og frá því að ég hóf kennaranám.

Því býð ég mig fram til starfa fyrir FG til að taka virkan þátt í þróun menntamála, skólaumhverfis og kennarastarfsins.

Kennarastarfið er eitt af stoðum samfélagsins því er mikilvægt að það fái að þróast og vaxa með breyttu samfélagi 21. aldar.

Ég vil beita mér fyrir því að náist sátt um kennarastarfið í samfélaginu á þann hátt að það njóti þeirrar virðingar sem það á skilið, ekki bara í orði heldur á borði, sem sýni sig í skólamálum, starfsaðstæðum, launum, stefnumótun, viðhorfum og framtíðarsýn. Þeim árangri má ná með góðri samvinnu og með málefnalegum og skilvirkum umræðum, því vönduð mennta- og skólamál eru ábyrgðarmál okkar allra.

Þau eru hagur okkur allra, einnig þeirra sem taka við okkar samfélagi.  

Kosnir verða fimm aðalmenn og fimm varamenn. Þeir sem komast inn í stjórn eru sjálfkrafa í samninganefnd. 

 

Eftirtalin bjóða sig fram í skólamálanefnd Félags grunnskólakennara:

Nafn: Alda Áskelsdóttir.

Vinnustaður: Hvaleyrarskóli.
Aldur: 49 ára.

Menntun: B.ed frá KHÍ og M.a í blaða- og fréttamennsku frá HÍ.

Starfsferill: Ég hef tekið mér ýmislegt fyrir hendur um starfsævina. Ég hef t.d. unnið við fjölmiðla sem blaða- og fréttamaður og rekið eigið fyrirtæki. Kennslan hefur hins vegar verið rauði þráðurinn og einhvern veginn hef ég alltaf ratað aftur á minn stað – í kennsluna. Ég hef þó verið óhrædd við að takast á við ólík verkefni innan skólans. Ég hef sinnt umsjónakennslu, smíðakennslu og verið framhaldsskólakennari. Núna er ég í dásamlegu starfi þar sem ég kenni í mótttökudeild fyrir börn hælisleitenda. Í því starfi læri ég eitthvað nýtt á hverjum degi og fæst við ögrandi og skemmtileg verkefni. Alveg eins og ég vil hafa það.

Af hverju býðurðu þig fram?
Mín skoðun er sú að eins og skólakerfið er uppbyggt í dag séu allir nemendur innan þess að tapa. Þá skiptir ekki máli hvort um er að ræða nemendur sem eru afburðargreindir, meðaljónin eða þeir sem þurfa að hafa meira fyrir náminu. Það er ómögulegt fyrir einn kennara að fást við öll þau viðfangsefni sem fylgja því að kenna 20 – 30 ólíkum nemendum. Nemendum sem spanna allt litrófið, hafa fengið ýmsar greiningar og stríða jafnvel við geðsjúkdóma. Við kennarar höfum tekið að okkur verkefni sem er okkur ofvaxið og illleysanlegt enda fáum við oft fréttir af því að kennarar séu sú starfsstétt sem hvað mest glímir við kulnun í starfi. Nú fyrir skemmstu þurfti til að mynda að skerða bætur úr sjúkrasjóði FG vegna fjölda styrkþega. Eins heyrum við oft talað um að margir kennarar flýi úr starfi bæði vegna óbærilegs álags og lágra launa. Úr hvoru tveggja þarf að bæta.

Við kennarar þurfum að spyrna við fæti og gera stjórnvöldum ljóst að nú sé nóg komið og breytinga sé þörf. Við getum ekki sem fagstétt sætt okkur við ástandið eins og það er orðið á mörgum stöðum. Okkur ber skylda til að gæta hagsmuna allra nemenda okkar en eins og kerfið og aðstæðurnar eru í dag er það ógerlegt. Er það ekki réttur hvers nemanda að fá frið til að læra í öruggu og uppbyggilegu umhverfi? Og er það ekki réttur nemanda sem á t.d. við geðröskun að stríða að fá þjónustu við hæfi? Er þessu svo háttað innan skólakerfisins í dag? Svar mitt er NEI. Þessu þurfum við að breyta. Er ég þá að leggja til að skóli án aðgreiningar verði lagður af? Nei, alls ekki. Skólakerfinu þarf hins vegar að breyta þannig að allir nemendur innan þess fái þá þjónustu og búi við þær aðstæður sem þeir þurfa á að halda til að blómstra í stað þess að tapa. Þannig að kennarar geti sinnt því starfi sem þeir hafa lært til og eru ráðnir til að sinna.

Á hvað muntu leggja áherslu náir þú kjöri?
Ef ég á að vera alveg 100% heiðarleg þá veit ég ekki á þessari stundu hvernig ég næ þessum markmiðum. Ég veit hins vegar að ég fæ engu breytt með því að sitja inni á kaffistofu í skólanum og agnúast út í kerfið eins og það er. Einhvers staðar verð ég að byrja og tel að skólamálanefnd FG sé góður vettvangur. Ég er bjartsýn að eðlisfari og trúi því að ég geti fengið kennaraforystuna og kennara almennt í lið með mér til að knýja fram breytingar og lyfta því grettistaki sem á þarf að halda í þessum málum.

Nafn: Árný Jóna Stefánsdóttir

Núverandi vinnustaður: Ég kenni í námsveri Kópavogsskóla í Kópavogi. Nemendur eru á miðstigi og unglingastigi.

Aldur: Ég er fædd 26. ágúst 1966 og er því 51 árs.

Menntun: Ég útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands vorið 2007 með B.Ed gráðu. Ég hef auk þessa sótt ótal námskeið, ráðstefnur og fundi sem tengjast með einum eða öðrum hætti kennslu í grunnskóla. Fór í viðskipta og tölvuskólann árið 2001. Stúdent frá MK 1986.

Starfsreynsla / starfsferill: Ég hóf minn kennsluferil haustið 2007 sem kennari í Snælandsskóla í Kópavogi og starfaði þar til 2017. Sem umsjónarkennari á unglingastigi, líffræði og eðlisfræðikennari, nýtti mér mikið Moodle í kennslu svo og Spjaldtölvur sem nemendur nota enn í dag í Kópavogi.

Af hverju býðurðu þig fram? Mér þykir kennsla vera einstaklega skemmtilegt starf og enginn dagur er eins í okkar starfi. Að vera kennari er gefandi en um leið mjög svo krefjandi sem þarf að hlúa vel að. Nýliðun stéttarinnar er lítil og starfsumhverfið er ekki í takt við þær kröfur sem gerðar eru til kennara eins og t.d. vinnuaðstaða kennara og nemenda, álag ofl. Kennarastéttin hefur ekki efni á því að bíða, við þurfum að hlúa að náminu, þeim kennurum sem eru starfandi, því að nú þegar er mikill kennaraskortur á landinu. 

Á hvað muntu leggja áherslu náir þú kjöri? Ég gef kost á mér til setu í Skólamálanefnd FG svo og Kjörnefndar FG. Ég tel að ákveðnar og skynsamar raddir þurfi að heyrast, starfsálag, starfsumhverfið okkar er ekki boðlegt, alltaf virðist vera hægt að lofa en lítið um framkvæmdir hjá sveitarfélögum. Ég tel að samstaða kennara haustið 2016 hafi ýtt við mörgum kennurum, ég var ein af þeim sem sagði upp hér í Kópavogi og færði ég mig um set, en gat ekki hugsað mér að hætta í kennslu. Okkar tími er núna, nýtum hann því að nú er lag.

Annað? Ég hef nokkra reynslu af félagsstörfum fyrir kennara. Ég var trúnaðarmaður í mörg ár, og er í stjórn KMSK. Ég fylgdist með föður mínum á sínum tíma vinna fyrir sitt stéttarfélag (FF)og spjölluðum við oft um kjarabaráttu kennara í gegnum tíðina, og það er ýmislegt sem ég tel að sé kominn tími á að breyta.
  

Ég heiti Guðrún I. Stefánsdóttir og hef starfað sem umsjónarkennari í Lágafellskóla í Mosfellsbæ síðan árið 2008. Árið 2003 útskrifaðist ég með B.Ed gráðu frá Kennaraháskóla Íslands. Á árunum 2003-2009 starfaði ég í breskum skóla og kynnist því bresku skólakerfi nokkuð vel.

Ég ákvað að bjóða mig fram í skólamálanefnd vegna þess að ég hef mikinn áhuga á skólamálum og löngun til að vinna fyrir félagið okkar.
 

Kristín Björnsdóttir
Aldur: 35 ára.
Umsjónakennari á miðstigi í Sunnulækjarskóla á Selfossi.

Menntun

 • Stúdent frá Kvennaskólanum í Reykjavík 2002.
 • Stundaði nám í sálfræði við Háskóla Íslands árið 2002.
 • B. Ed. í grunnskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands árið 2009.

Hef á árunum 2008 - 2018 sótt fjölda námskeiða, fyrirlestra, náms- og ráðstefna samhliða störfum í leik- og grunnskóla, m.a. sótti ég skólamálaþing í Hörpu síðastliðið haust, Innfædd á internetinu, þar sem dr. Zachary Walker flutti áhugaverð erindi um snjalltækni í kennslu.

Starfsferill
Ég starfaði á leikskólanum Hlíðarenda í Hafnarfirði árin 2008 - 2015. Þar af sem deildarstjóri frá 2013 - 2015. Samhliða störfum þar lauk ég námi í grunnskólakennara-fræðum við HÍ árið 2009. Í ársbyrjun 2016 hóf ég störf í Sunnulækjarskóla á Selfossi og starfa þar sem umsjónakennari á miðstigi.

Áherslur og hugðarefni
Ég hef brennandi áhuga á kennslu, kennsluaðferðum og tengingu aðferðanna við snjalltækni. Í Sunnulækjarskóla hef ég kynnst kostum teymisvinnu og hef mikinn áhuga á að taka þátt í að þróa slíka samvinnu á hverju aldursstigi fyrir sig. Mig langar að leggja mitt af mörkum til að auka samvinnu kennara og efla fræðslu um kennsluhætti, aðferðir, kennsluefni og snjalltækni í kennslu. Þar að auki tel ég afar mikilvægt að þróa lífsleiknikennslu í takt við aukna notkun barna á snjalltækjum. Ég hef hug á að koma á stuðningsneti fyrir nýútskrifaða kennara í þeim tilgangi að efla frumkvæði þeirra og starfsþróun en einnig skapa vettvang fyrir utanaðkomandi stuðning í tengslum við samskipti við foreldra og samstarfsfólk. Ég vil tryggja kennurum þann stuðning sem þarf til að þróa nýjar aðferðir og innleiða nútíma tækni í skólakerfið.

Kynning í pdf-formi. 
 

Ég heiti Lára Guðrún Agnarsdóttir ég er gift Kristjáni Sigurðsyni grunnskólakennara og eigum við þrjú uppkomin börn sem eru flutt að heiman. Ég er umsjónarkennari á miðstigi í Austurbæjarskóla sem er staðsettur við Barónsstíg, Reykjavík.

Ég er fædd 1959 í Reykjavík, bjó þar mest af æsku minni en fluttist í Dalina sem unglingur og bjó þar í nokkur ár í sveitinni. Seinna flutti ég ásamt fjölskyldu í Stykkishólm. Þar vann ég sem stuðningfulltrúi í tvö ár. Ég hóf kennslu sem leiðbeinandi á Hólmavík árið 2000 og hóf þá fjarnám frá KHÍ það sama haust og útskrifaðist sem kennari árið 2005, þá með réttindi bæði á grunn- og framhaldsskólastigi. Á Hólmavík kenndi ég í 11 ár sem umsjónakennari, dönskukennari á öllum skólastigum. Einnig kenndi ég m.a. heimilisfræði, tónfræði og fl.

Ári seinna fluttum við á Borðeyri þar sem ég kenndi í eitt ár í mjög fámennum skóla, 9 grunnskólabörn. Árið 2012 fékk ég námsleyfi sem ég nýtti í Danmörku þar sem ég bætti við mig myndmennt og dönsku frá Blaagaard/KDNS, Professionsskolen UCC, Søborg. Haustið 2013 hóf ég störf við Austurbæjarskóla og starfa þar nú.

 • Nefndarstörf – Trúnaðarmaður kennara í Grunnskólanum á Hólmavík 2004 - 2007
 • Formaður Kennarasambands Vestfjarða 2007 - 2009
 • Skólamálanefnd Félags grunnskólakennara 2009 – 2018
 • Trúnaðarmaður kennara í Austurbæjarskóla 2016-2018
 • Stjórn Kennarafélags Reykjavíkur 2016-2018

Ég hef í mörg ár haft brennandi áhuga fyrir kennarastarfinu og öllu sem snýr að skólamálum og finnst alltaf jafn gaman að kenna. Ég hef kennt á öllum skólastigum en finn mig best sem umsjónarkennari á miðstigi.

Ég tel að breytingar sem orðið hafa á kennarastarfinu hafi verið mjög miklar á síðustu árum, margt spennandi hefur gerst en einnig hefur starfið orðið mun flóknara en áður og meiri kröfur gerðar til kennarans. Tími til að sinna þeim málum sem snýr að undirbúningi kennslu virðist alltaf verða minni og minni og önnur störf fleiri og fleiri. Ég vil gjarnan stuðla að því ef ég get, að starfið okkar verði eftirsóknarvert og spennandi og skólaumhverfið laði að sér hæfa kennara.

Ef ég næ kjöri mun ég leggja áherslu á að vinna heils hugar að bættum kjörum og betri aðbúnaði kennara og ekki síst að fagmennska kennara verði í fyrirrúmi þegar unnið er að skapandi og lifandi skólastarfi.

 

Margrét Össurardóttir
Vinnustaður: Hvaleyrarskóli Hafnarfirði
Aldur: 52 ára
Starfsferill: 8 ár sem Verkgreinakennari í grunnskóla, áður sem matreiðslumeistari frá árinu 1989. Rek lítið fyrirtæki með sambýlismanni mínum, setið í stjórn Íþróttafélagsins Fjörður og í Ráðgjafaráði í málefnum fatlaðra í Hafnarfirði.

Ég býð mig fram til Skólamálanefndar þar sem ég hef óbilandi áhuga á öllu er viðkemur skólamálum. Hef verið trúnaðarmaður s.l. 7 ár og setið í stjórn Kennarafélags Reykjaness s.l. 3 ½ ár. Tel mig hafa kynnst skólamálum ansi vel á þessum tíma. Stoðþjónusta er skorin við nögl og skólar hafa lítið sem ekkert svigrúm. Mér finnst sorglegt að sjá hvernig bæði ríkisvaldið og sveitastjórnir hafi getað vaðið yfir kennara með því að setja t.d. á skólana verkefni sem engann endi virðist ætla að taka. Fagleg vinna kennarans hefur rýrnað v/lítils undirbúnings tíma og stuðnings, lítur út sem afgangsstærð af vinnutíma kennara. Starfsumhverfi er blandað inn í kjaraviðræður sem á ekki að eiga sér stað heldur er það sjálfsagt að bæði kennarar og nemendur hafi þau tæki og tók og þann aðbúnað sem krefst. Nú er kominn tími á breytingar, endurheimta faglega þáttinn í starfi kennarans og endurreisa starf kennarans til vegs og virðingar í þjóðfélaginu. Útkoman verður, betri nemendur. Ég vil hafa áhrif sem gagnast fjöldanum.

 

Ég Pollý Rósa Brynjólfdsóttir gef kost á mér til starfa í skólamálanefnd.

Ég er 52 ára gift og 4 barna móðir.

Útskrifaðist sem grunnskólakennari með B.Ed vorið 2004 og með M.Ed. í menntunarfræðum 2013.

Ég hef starfað við Brekkuskóla á Akureyri síðan haustið 2004 sem umsjónarkennari og trúnaðarmaður.

Ég hef áhuga á að leggja mitt af mörkum til að efla og styðja starf kennara. Eitt af mikilvægari þáttum tel ég vera að auka þurfi jákvæðni og virðingu gagnvart menntun og starfi í grunnskólum landsins.
 

Ég heiti Rannveig Þorvaldsdóttir og starfa við Árbæjarskóla í Reykjavík. Ég er 48 ára og lauk B.ed. gráðu frá KHÍ vorið 1997. Ef áætlanir standast lýk ég M.ed námi í sérkennslufræðum frá HÍ á næsta ári.

Eftir útskrift frá KHÍ starfaði ég í tvö ár við Langholtsskóla í Reykjavík, flutti svo vestur á Ísafjörð og starfaði þar við Grunnskólann á Ísafirði til ársins 2014. Þá réði ég mig til starfa við Árbæjarskóla þar sem ég starfa í dag. Lengst af hef ég verið umsjónarkennari á miðstigi, en á Ísafirði var ég deildarstjóri sérkennslu frá árinu 2008.

Ástæða þess að ég býð mig fram til setu í skólamálanefnd er að mig langar til að taka þátt í faglegri umræðu innan félagsins og leggja mitt af mörkum við stefnumótun í málaflokknum. Nái ég kjöri mun ég fyrst og fremst leggja áherslu á að starfa af heilindum fyrir félagsmenn og stuðla að uppbyggilegri umræðu um fagleg málefni, endurmenntun og skólaþróun.
 

 

 • Sigríður Guðrún Guðjónsdóttir
 • Álfhólsskóli
 • 35 ára
 • B.ed próf frá Háskólanum á Akureyri, úrskrifaðist 2007.

Eftir menntaskóla tók ég mér ársleyfi áður en ég fór í frekara nám. Þá starfaði ég sem leiðbeinandi við Grunnskólann á Suðureyri. Eftir það flutti ég til Akureyrar og fór í kennaranám. Að útskrift lokinni árið 2007 hóf ég störf við Hjallaskóla (nú Álfhólsskóla) og hef starfað þar síðan. Hef kennt á yngsta stigi.

Síðustu ár hef ég starfað sem trúnaðarmaður við skólann og hef því fengið nokkra innsýn í kjaramál kennara. Sú vinna hefur kveikt frekari áhuga minn á því að taka þátt í félagsstörfum og koma sjónarmiðum og hugmyndum samstarfsmanna á framfæri.

Umræðan um skólamál hefur á síðustu árum verið heldur á neikvæðum nótum. Miklar breytingar hafa átt sér stað í skólakerfinu s.s. ný aðalnámskrá og nýtt námsmat. Ég tel að við þurfum að kynna þessa þætti og fyrir hvað þeir standa betur fyrir almenningi. Foreldra eiga m.a. gjarnan erfitt með að skilja námsmatið.

Ég tel einnig mikilvægt að hlustað sé á t.d. nýútskrifaða kennara um hvaða þætti þeim þykir nýtast best úr náminu og leggja meiri áherslu á þá þætti.

Nafn: Sigríður Guðrún Guðmundsdóttir
Vinnustaður: Sjálandsskóli, umsjónarkennari á unglingastigi
Aldur: 52 ára

Menntun: 

 • Háskóli Íslands, Cand.oecon. Viðskiptafræði.
 • Markaðs- og stjórnunarsvið. 1991
 • Háskóli Íslands. B.Ed. Grunnskólakennarafræði.
 • Stærðfræðisvið. 2005.
 • Leyfisbréf sem framhaldsskólakennari í viðskiptagreinum.

Starfsferill: Byrjaði að kenna við Álftanesskóla haustið 2005 og starfaði þar fram til ársins 2013. Ég kenndi þar stærðfræði á unglingastigi. Haustið 2013 hóf ég störf við Sjálandsskóla í Garðabæ. Fyrsta árið vann ég á miðstigi en hef verið á unglingastigi eftir það og kennt þemu og stærðfræði.
Ég hef verið trúnaðarmaður kennara í Sjálandsskóla í þrjú ár og setið sem fulltrúi kennara í Garðabæ í skólanefnd Garðabæjar í eitt ár. Einnig sat ég eitt ár sem fulltrúi foreldra grunnskólabarna í Garðabæ.

Ég hef mikinn áhuga á skólamálum, skólaþróun í landinu, ásamt að bæta starfsþróun kennara og tel, reynslu minnar vegna, geta lagt málefnunum lið og hef áhuga að nýta krafta mína fyrir félagið. Ég tel skólamálanefnd því kjörinn vettvangur til að leggja mitt af mörkum til að vinna að frekari umbótum.
 

Sigþrúður Harðardóttirr
Fædd 24. nóvember 1964

 • BEd frá KHÍ 1987 (Valgreinar: íslenska og danska)
 • Diploma frá KHÍ árið 2000 – Íslenska/málvísindi
 • Kennslugreinar á kennsluferli: Kennsla yngri barna, íslenska á unglingastigi, danska á mið- og unglingastigi

Kynning: Ég er 53 ára og hef verið starfandi grunnskólakennari í rúm 30 ár. Ferlinn hófst á Kirkjubæjarklaustri en Grunnskólinn í Þorlákshöfn hefur verið minn starfsvettvangur síðan haustið 1989.
Ég hef tekið þátt í félagsmálum bæði innan FG og í öðrum félögum, verið trúnaðarmaður FG um árabil og sat í skólamálanefnd í nokkur ár á síðustu öld!
Kennarastarfið og kennaramenntun eru mér sérstakt hugðarefni. Breytingar á eðli starfsinsí tímans rás kalla á nýja nálgun í daglegu starfi og ekki síður í menntun kennara. Mér finnst mikilvægt að faglegt starf og umræða um kennslu gleymist ekki í ,,nýja amstrinu" og markvisst sé unnið að því að viðhalda þekkingu, heilsu og ekki síst starfsánægju kennara. Þar held ég að skólamálanefnd geti verið sterkur bakhjarl.  

Svava Þ. Hjaltalín er fædd á Akureyri 1963. Hún hefur kennt yngri börnum í rúmlega 30 ár. Til fjölda ára hefur hún starfað við Giljaskóla á Akureyri en kenndi áður tæp 10 ár við Grunnskóla Grindavíkur.

Svava er grunnskólakennari með diplómu í námi og kennslu ungra barna. Áhugasvið og sérfræði hennar er lestur og lestrarkennsla. Hún hefur gefið út eina lestrarbók, Bankaránið og heldur úti Facebooksíðunni Í pokahorninu ásamt samstarfskonu sinni þar sem áhersla er lögð á fjölbreytt verkefni fyrir yngri börn. Ásamt henni hefur Svava einnig þýtt námsefni PALS í stærðfræði fyrir 1. - 6. bekk. og haldið námskeið víðs vegar um landið fyrir kennara.

Svava býður sig fram til trúnaðarstarfa fyrir FG vegna óbilandi áhuga á starfi félagsins og högum grunnskólakennara. Hún er öflugur fulltrúi landsbyggðarinnar.

Svava er vön félagsstörfum og hefur meðal annars verið í skólamálanefnd FG síðustu ár. Henni er umhugað um að virðing fyrir starfinu verði meiri og að unnt verði að bregðast við fækkun í stéttinni. Hún mun leggja áherslu á gott samstarf og heiðarleika innan sem utan stéttar.

Svava telur brýnt að efla samvinnu milli skóla og kennara og stuðla að öflugu stuðningsneti innan skólanna, bæði fyrir nemendur og kennara. 

Ég heitir Þorbjörg Ólafsdóttir, 38 ára, gift tveggja barna móðir. Ég starfa sem grunnskólakennari í Síðuskóla á Akureyri.

Ég lauk B.Ed kennaranámi frá Háskólanum á Akureyri 2011.

Ég hef starfað sem grunnskólakennari í fullu starfi frá því haustið 2012, ég hef m.a. verið umsjónarkennari í 1., 4. og 10. bekk.

Þegar ég var í kennaranáminu starfaði ég sem formaður Magister, nemendafélags kennaradeildarinnar og var þá jafnframt nemendafulltrúi í ýmsum nefndum í Háskólanum.

Með því að nýta þá reynslu sem ég hef fengið í gegnum árin (nemandi og kennari) tel ég mig geta lagt mitt af mörkum inn í málefni skólamálanefndarinnar kennurum og verðandi kennurum til hagsbóta.
 

Ég heiti Þórdís Sævarsdóttir og vinn nú sem grunnskólakennari í Dalskóla í Reykjavík og kenndi áður í Kópavogi. Ég er 42 ára og hef starfað sem kennari frá árinu 2002 og kem úr kennara og skólamálafjölskyldu.

Lengsti starfsferill minn er í kennslu en á ungdómsárum starfaði ég í ferðamennsku og hef gengið í flest störf sem viðkoma hótelrekstri auk síðar samhliða kennslunni við ýmis félags- og nefndarstörf í skólamálum, þróunarverkefnum, námsefnisgerð og verkefnastjórn.

Í Kópavogi var ég aðstoðarverkefnastjóri í Evrópusamstarfverkefni Comeniusar – Tales of Europe, tók þátt í þróunarverkefni, umræðum og úrbótum fyrir bráðgera nemendur og var einnig liðtæk í skemmtinefndum. Þar sat ég einnig í stjórn KBK og KMSK og gegndi trúnaðarmannastöðu frá 2007 -2012. Á því tímabili sinnti ég einnig nefndarstörfum FG, skólamálanefnd FG 2011 – 2014 og 2017 – 2018 og var á tímabili varafulltrúi stjórnar FG. Ég kom að undirbúningi nýrrar aðalnámsskrár og yfirlestri hluta hennar sem var einkar skemmtileg vinna og áhugaverð. Einnig var ég fulltrúi KÍ í þróunarnefnd Mennta- og menningarmálaráðuneytis um eflingu fjölbreytts náms fyrir framhaldsskólanemendur.

Ég hef gengt formennsku fagfélaga TKÍ og KórÍS og verið fulltrúi þeirra í norrænu samstarfi. Einnig hef ég haldið nýsköpunar- og frumkvöðlanámskeið fyrir börn frá 2016 og í samstarfi við HÍ tek ég nú þátt í þróunarverkefninu MakEY um makerspaces / gerver fyrir börn frá 5 – 8 ára. Ég gegni núna formennsku FLINK, Félag kennara í nýsköpunar- og frumkvöðlamennt.

Ég útskrifaðist með stúdentspróf af félagsfræðibraut, þaðan með B.ed sem grunnskólakennari og kennsluréttindi á framhaldsstigi og lauk MA í Verkefnastjórn vorið 2016. Að auki hef ég grunn í tónlist og hef tekið námskeið um skapandi skólastarf, nýsköpun- og frumkvöðlafræði, þjónandi forystu og sjálfbæra stjórnun.

Þróun skóla- og menntamála inn á 21. öldina hafa verið á mínu áhugasviði til fjölda ára og frá því að ég hóf kennaranám.

Því býð ég mig fram til starfa fyrir FG til að taka virkan þátt í þróun menntamála, skólaumhverfis og kennarastarfsins.

Kennarastarfið er eitt af stoðum samfélagsins því er mikilvægt að það fái að þróast og vaxa með breyttu samfélagi 21. aldar.

Ég vil beita mér fyrir því að náist sátt um kennarastarfið í samfélaginu á þann hátt að það njóti þeirrar virðingar sem það á skilið, ekki bara í orði heldur á borði, sem sýni sig í skólamálum, starfsaðstæðum, launum, stefnumótun, viðhorfum og framtíðarsýn. Þeim árangri má ná með góðri samvinnu og með málefnalegum og skilvirkum umræðum, því vönduð mennta- og skólamál eru ábyrgðarmál okkar allra.

Þau eru hagur okkur allra, einnig þeirra sem taka við okkar samfélagi.  

Skólamálanefnd er skipuð sex aðalmönnum og sex til vara

 

Frambjóðendur í kjörnefnd Félags grunnskólakennara eru: 

Nafn: Arndís Hilmarsdóttir
Núverandi vinnustaður: Foldaskóli
Aldur:49

Menntun:
menntaður smíðakennari með viðbótarmenntun í tölvu- og upplýsingatækni og sérkennslu. Hef starfað sem sérkennari núna síðustu átta ár. Starf mitt núna er sérkennsla í einhverfudeild.

Starfsreynsla / starfsferill:
Hef kennt síðan 1999 þar af sem deildastjóri í nokkur ár og verkefnisstjóri í tölvu- og upplýsingatækni.

Af hverju býðurðu þig fram?
Hef mikinn áhuga á félagsstörfum og sérstaklega öllu því sem snýr að kjörum okkar. Er hugmyndarík, flínk að sjá út fyrir ramman og frekar lausnarmiðuð og þess vegna er ég viss um að geta orðið að góðu liði. Hef um helming af mínum kennsluferli verið trúnaðarmaður fyrir mína skóla og einnig setið í Vonarsjóði og samninganefnd.

Á hvað muntu leggja áherslu náir þú kjöri?
Vinna vel fyrir félagsmenn og af heilindum.

 

Nafn: Árný Jóna Stefánsdóttir

Núverandi vinnustaður: Ég kenni í námsveri Kópavogsskóla í Kópavogi. Nemendur eru á miðstigi og unglingastigi.

Aldur: Ég er fædd 26. ágúst 1966 og er því 51 árs.

Menntun: Ég útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands vorið 2007 með B.Ed gráðu. Ég hef auk þessa sótt ótal námskeið, ráðstefnur og fundi sem tengjast með einum eða öðrum hætti kennslu í grunnskóla. Fór í viðskipta og tölvuskólann árið 2001. Stúdent frá MK 1986.

Starfsreynsla / starfsferill: Ég hóf minn kennsluferil haustið 2007 sem kennari í Snælandsskóla í Kópavogi og starfaði þar til 2017. Sem umsjónarkennari á unglingastigi, líffræði og eðlisfræðikennari, nýtti mér mikið Moodle í kennslu svo og Spjaldtölvur sem nemendur nota enn í dag í Kópavogi.

Af hverju býðurðu þig fram? Mér þykir kennsla vera einstaklega skemmtilegt starf og enginn dagur er eins í okkar starfi. Að vera kennari er gefandi en um leið mjög svo krefjandi sem þarf að hlúa vel að. Nýliðun stéttarinnar er lítil og starfsumhverfið er ekki í takt við þær kröfur sem gerðar eru til kennara eins og t.d. vinnuaðstaða kennara og nemenda, álag ofl. Kennarastéttin hefur ekki efni á því að bíða, við þurfum að hlúa að náminu, þeim kennurum sem eru starfandi, því að nú þegar er mikill kennaraskortur á landinu.

Á hvað muntu leggja áherslu náir þú kjöri? Ég gef kost á mér til setu í Skólamálanefnd FG svo og Kjörnefndar FG. Ég tel að ákveðnar og skynsamar raddir þurfi að heyrast, starfsálag, starfsumhverfið okkar er ekki boðlegt, alltaf virðist vera hægt að lofa en lítið um framkvæmdir hjá sveitarfélögum. Ég tel að samstaða kennara haustið 2016 hafi ýtt við mörgum kennurum, ég var ein af þeim sem sagði upp hér í Kópavogi og færði ég mig um set, en gat ekki hugsað mér að hætta í kennslu. Okkar tími er núna, nýtum hann því að nú er lag.

Annað? Ég hef nokkra reynslu af félagsstörfum fyrir kennara. Ég var trúnaðarmaður í mörg ár, og er í stjórn KMSK. Ég fylgdist með föður mínum á sínum tíma vinna fyrir sitt stéttarfélag (FF)og spjölluðum við oft um kjarabaráttu kennara í gegnum tíðina, og það er ýmislegt sem ég tel að sé kominn tími á að breyta.
  

Elín guðfinna Thorarensen heiti ég og gef kost á mér í kjörnefnd félags grunnskólakennara. Ég útskrifaðist sem grunnskólakennari 2005. Starfa í dag sem umsjónarkennari í 1. bekk í Ölduselsskóla Reykjavík.

Ég hef alla tíð tekið þátt í félagsstörfum svo sem verið trúnaðarmaður starfsmannafélagsins Sóknar, sat í skólaráði Fósturskóla Íslands. Gjaldkeri nemendf. FÍ. Formaður nemendaf. FÍ. Sat í miðstjórn og framkvæmdarstjórn Bandalags Ísl. sérskólanema. Formaður og aðaltrúnaðarmaður leikskólakennara í Reykjavík. Sat í hinum ýmsu ráðum og nefndum á vegum BSRB. Trúnaðarmaður grunnskólakennara, samninganefnd grunnskólakennara, stjórn KFR, framboðsnefnd KÍ og kjörnefnd grunnskólakennara þar sem ég hef setið undanfarin ár og tel mig því hafa nokkuð góða reynslu af þeirri vinnu sem þar fer fram

Ég heiti Hrafnhildur Svendsen og er umsjónarkennari í 5. bekk í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ. Ég útskrifaðist frá KHÍ árið 1990. Ég hef verið trúnaðarmaður á mínum vinnustað í mörg ár og sit núna í stjórn KMSK ásamt því að hafa verið í Kjörnefnd FG undanfarin tvö tímabil. Núna á seinna tímabilinu tókum við upp nýjar aðferðir við kosningar í stjórn og nefndir hjá FG og tel ég mig hafa öðlast mikla reynslu, sérstaklega fyrir þær kosningar sem nú standa yfir. Ég gef því kost á mér til setu í Kjörnefnd FG.

Ég heiti Inga Lóa Hannesdóttir og er 53 ára gömul. Ég starfa sem grunnskólakennari við Grunnskólann í Hveragerði og hef gert frá haustinu 2000.

Ég öðlaðist mín kennsluréttindi frá Háskóla Íslands eftir að hafa áður lokið þar B.A. prófi í íslensku. Auk þess er ég garðyrkjufræðingur að mennt frá Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi. Ég gríp aðeins í garðyrkjustörfin í aukastarfi á vorin og aðeins fram á sumar, við Garðyrkjustöðina Flóru í Hveragerði, mér til ánægju og yndisauka.

Ég býð mig fram í kjörnefnd því að ég tel mig hafa góða reynslu sem getur nýst þar og eins vil ég gjarnan taka þátt í störfum innan míns stéttarfélags. Ég hef verið formaður kjörstjórnar Hveragerðisbæjar síðastliðin 12 ár og hef stýrt miklum fjölda kosninga á þeim tíma enda hafa Íslendingar verið duglegir að kjósa síðustu árin, jafnvel oft á ári.
 

Kynning hefur ekki borist.

Your text...

Kynning hefur ekki borist.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 
 
 

Tengt efni