is / en / dk

08. Janúar 2018

 

Fimm bjóða sig fram til formanns Félags grunnskólakennara en rafrænt atkvæðagreiðsla fer fram dagana 17. til 22. janúar næstkomandi. Frambjóðendur eru í stafrófsröð;

 • Hjördís Albertsdóttir, umsjónarkennari í Reykjahlíðarskóla í Mývatnssveit,
 • Kjartan Ólafsson, grunnskólakennari í Vatnsendaskóla í Reykjavík,
 • Kristján Arnar Ingason, umsjónarkennari í Fellaskóla,
 • Rósa Ingvarsdóttir, stærðfræðikennari í Rimaskóla
 • Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, grunnskólakennari í Árbæjarskóla. 

Núverandi formaður Félags grunnskólakennara er Ólafur Loftsson og hefur hann gegnt embættinu frá árinu 2005. Ólafur lætur af embætti á aðalfundi félagsins sem verður haldinn í Borgarnesi 17. og 18. maí næstkomandi. Þá tekur ný stjórn FG formlega við. 

Ath: Upptöku frá opnum fundi með frambjóðendunum fimm er að finna á vef Netsamfélagsins. Fundurinn var haldinn í Gerðubergi að kvöldi 15. janúar 2018. 

Frambjóðendurnir fimm til formanns kynna sig og áherslur sínar hér að neðan. 

Hjördís Albertsdóttir, 37 ára þriggja barna móðir. Starfa sem umsjónar-, náttúru- og stærðfræðikennari við Reykjahlíðarskóla í Mývatnssveit.

Menntun og starfsreynsla:
Grunnskólakennari með B.Ed frá KHÍ. Einnig hef ég setið valin námskeið innan sagnfræði og íslensku við HÍ mér til ánægju og yndisauka.
Ég hef verið grunnskólakennari í nær áratug. Hóf ferilinn við Hamraskóla í Grafarvogi, haustið 2008, sem náttúru- og samfélagsfræðkennari á unglingastigi auk umsjónarkennslu í 6. og 7. bekk. Flutti mig strax næsta haust yfir í Norðlingaskóla þar sem ég hef sinnt umsjónarkennslu í 3. og 4. bekk, 5.-7. bekk og unglingadeild auk þess að kenna íslensku, ensku, samfélags- og náttúrufræði við unglingadeildina. Síðasta vor tók ég þá ákvörðun að taka mér árs leyfi frá kennslu við Norðlingaskóla og flutti „heim“ í Mývatnssveit til að freista gæfunnar í ferðaþjónustu. Það var liður í eftirfylgni við uppsögn mína í síðustu kjarabaráttu kennara, í nóvember 2016. Þegar á leið fór ég að ókyrrast og fann að ég vildi kenna og taka slaginn vegna stöðu stéttar okkar og menntakerfisins á Íslandi. Ég sneri aftur til kennslu, nú við grunnskólann í Mývatnssveit, Reykjahlíðarskóla, sem stærðfræðikennari og umsjónarkennari unglingastigs. Þegar auglýst var eftir framboðum til formanns FG ákvað ég að stíga fram og bjóða fram krafta mína.

Í Norðlingaskóla vann ég, ásamt teyminu mínu, að viðamiklu þróunarverkefni um innleiðingu rafræns náms í unglingadeild og var skólinn fyrsti skóli landsins til að spjaldtölvuvæða unglingadeildina sína. Í tengslum við þróunarverkefnið hef ég setið fjöldan allan af námskeiðum, fyrirlestrum og ráðstefnum auk þess að halda fyrirlestra og námskeið fyrir aðra kennara og semja rafrænt námsefni í þeim námsgreinum sem ég kenni. Ég er einn stofnenda Reykjavíkurdeildar AFS á Íslandi, tók þátt í uppbyggingu hennar og gegndi varaformennsku í fyrstu stjórn deildarinnar. Hef sótt fjölda námskeiða og ráðstefna, jafnt innanlands sem utan á vegum EFIL (European Federation for Intercultural Learning) og AFS. Ég hef haldið námskeið og tekið þátt í að innleiða og efla sjálfboðaliðastarf AFS á Íslandi. Einnig hef ég verið íslenskur fulltrúi á tveimur ráðstefnum Evrópusambandsins er varða réttindi ungs fólks í Evrópu (EU White Paper on Youth Policy).

 

Af hverju býð ég mig fram?
Ég býð mig fram því ég tel mig hafa þá getu, þær hugsjónir, þá ástríðu og þann drifkraft sem þarf til að rífa Félag grunnskólakennara upp úr þeirri ládeyðu sem mér finnst hafa einkennt það. Við höfum keyrt inn í öngstræti í kjaramálum og staðan sem upp er komin er alvarleg. Okkar bíður mikið verk að vinda ofan af vitleysunni og byrja upp á nýtt. Máttleysi í kjaramálum kennara má berlega sjá af því að fjölmiðlar eru hægt og rólega að fyllast af fréttum um komandi sveitarstjórnarkosningar, hvaða oddvitar séu líklegir eða ólíklegir í einstökum sveitarfélögum og nokkrir sveitarstjórnarmenn hafa stigið fram og lagt línur fyrir næsta kjörtímabil. Ekki er þar minnst einu orði á eitt stærsta mál grunnskólanna, kjaramál kennara, er óleyst eftir að því var bjargað fyrir horn fyrir rúmu ári. Stjórnmálamenn komast upp með að hunsa þau og tala um allt aðra hluti, jafnvel með sýnilegum stuðningi félagsins okkar. Síðasta vetur voru það við, félagsmenn sjálfir, sem risu upp og settu sveitarfélögunum stólinn fyrir dyrnar, ekki forystan. Ég vil að forysta FG endurspegli þann þrótt og þá afstöðu sem einkenna okkar stétt. Það er fullljóst að við getum ekki haldið svona áfram mikið lengur.

Launabætur
Númer 1, 2 og 3 þarf að leiðrétta laun kennara. Það er algjör vitfirring að ætla að björgun kennarastarfsins og nýliðun felist í einhverju öðru en að gera starfið launalega samkeppnishæft. Grunnskólakennari sem yfirgefur skólann og snýr til annarra starfa er mun betur fjárhagslega settur. Þess vegna stefnir í stórslys. Í þetta gat þarf að stoppa.

Kennarar eiga inni launaleiðréttingar eftir að hafa dregist aftur úr áratugum saman og vegna svikinna loforða um leiðréttingu t.a.m. vegna aukinna menntunarkrafna og nú síðast vegna skerðingar lífeyrisréttinda. Þessu þurfa sveitarfélögin að átta sig á og í formannskosningunum þurfum við kennarar að senda þeim skýr skilaboð um forgangsröðun okkar næstu árin. Ef við notum ekki tækifærið í þessum kosningum til að krefjast stefnubreytinga erum við í raun að skrifa upp á sömu stefnu næstu árin. Það er mér óþolandi tilhugsun.

FG fyrir félagsmenn
FG á að vera sýnilegt og standa vörð um félagsmenn sína, réttindi þeirra og hagsmuni. Félagið á að nýta sér stöðu sína og aðgengi að fjölmiðlum og tala máli stéttarinnar þegar illa er að henni vegið. Það á ekki síður að vera í fararbroddi við að koma félagsmönnum sínum á framfæri og þeirri mögnuðu vinnu sem kennarar allt í kringum landið eru að vinna en fáir vita af. Kennarar þurfa að sýna samstöðu og þar á FG að vera fremst í flokki sem sameiningartákn sem félagsmenn geta verið stoltir af.
Jafnrétti allra félagsmanna

Ég er fædd og upp alin á Landsbyggðinni og hef reynslu af námi og kennslu bæði þar og á Höfuðborgarsvæðinu. Það er ótvíræður aðstöðumunur á milli svæða sem þarf að jafna mun betur en nú ert gert. Hvort sem um er að ræða fjölmenni eða fámenni getur nútímatækni, ef henni er beitt í bland við þrautreyndar aðferðir, að einhverju leiti tryggt fjölbreytilega gæðakennslu. Kennurum á landsbyggðinni þarf að tryggja aðgang að símenntun og annan stuðning við fagmennsku þeirra. Það getur verið mjög kostnaðarsamt og óhentugt fyrir kennara í hinum dreifðu byggðum landsins að sækja sér þjónustu og menntun sem er talin sjálfsögð í daglegu lífi kennara. Með vilja og samvinnu er hægt að gera gangskör að breytingum í þessu.

TENGLAR:
Fb- framboðssíða: https://www.facebook.com/hjordisalberts/

Vefpóstur: hjordiskennari@gmail.com

Greinar og pistlar:

https://stundin.is/pistill/bankinn-er-ekki-min-uppahalds-stofnun/

http://www.visir.is/g/2017171219067/sveitarfelogin-sla-lan-hja-kennurum-fyrir-jolin

https://kjarninn.is/skodun/2017-12-31-fimmthaett-krafa-um-launaleidrettingu/

Útvarpsviðtal eftir að samningar voru samþykktir í desember 2016: http://www.ruv.is/frett/thad-tharf-ad-skera-kerfid-upp

Nafn: Kjartan Ólafsson

Núverandi vinnustaður: Vatnsendaskóli, Kópavogur

Aldur: 42

Menntun: Íþróttafræðingur/grunnskólakennari

Starfsreynsla
• október 2011 til þessa tíma - Vatnsendaskóli, Kópavogsbær. Íþróttakennari.
• 2012 til þessa tíma - Knattspyrnuþjálfari hjá Fylki. Hlutastarf.
• ágúst 2010 til júní 2011 - Dalvíkurbyggð, Verkefnastjóri Pleizið félagsmiðstöð.
• ágúst 2009 til júní 2010 - Öldutúnsskóli. Enska og Danska á unglingastigi, umsjón 10.bekkur.
• júní 2007 til desember 2008 - Reykjalundur endurhæfing, Mosfellsbæ. Íþróttafræðingur.
• ágúst 2006 til júní 2007 - Grenivíkurskóli, Grenivík. Íþróttakennari.
• maí 2006 - ágúst 2006 - Reykjalundur endurhæfing, Mosfellsbæ. Íþróttafræðingur (afleysing).
• 1999 - 2001. Öskjuhlíðarskóli, Reykjavík. Stuðningsfulltrúi.
• 1998 - 2003. ÍTK, Kópavogur. Yfirmaður leikjanámskeiðs fyrir misþroska börn (sumarstarf).
• 1995 - 1999. Styrktarfélag vangefinna, Reykjavík. Stuðningsfulltrúi.
• 1993 - 2004. Íþróttasamband fatlaðra, Sumarbúðir Laugarvatni. Aðstoðarmaður fatlaðra í hjólastól.

Af hverju býðurðu þig fram?
Ég tel að endurnýjunar sé þörf hjá Félagi grunnskólakennara og hef trú á sjálfum mér til trúnaðarstarfa fyrir grunnskólakennara. 

Á hvað muntu leggja áherslu náir þú kjöri?

• Raunverulega kjaraleiðréttingu. 
• Engin frekari sala á áunnum réttindum, hættum að greiða eigin launahækkanir.
• Launamunur kennara og leiðbeinenda endurspeglar ekki 5 ára háskólanám.
• 5 árs nemar komi til kennslu á lokaári.
• Lækkun kennsluskyldu í 24 tíma.
• Draga úr bundinni viðveru.
• Líkamsræktarstyrkur launagreiðanda og stéttarfélags, eflum heilsu kennara með fyrirbyggjandi hætti.
• Bæta vinnuaðstöðu kennara, auka undirbúningstíma og draga úr fundarhöldum og því mikla álagi og áreiti sem er að sliga grunnskólakennara.

Nafn: Kristján Arnar Ingason
Núverandi vinnustaður: Umsjónarkennari við Fellaskóla, kristjan@fellaskoli.is.

Aldur: 41. árs , 3 barna faðir, uppalinn í Breiðholtinu, gekk í Fellaskóla alla mína grunnskólagöngu.

Menntun: 

 • 2015 - Er í námi við HÍ, opinber stjórnsýsla. B.ed frá Kennaraháskóla Íslands, áhersla á Félagfræði/Sögu og Trúarbragðafræði/Kristinfræði. Lokaritgerð fjallar um Vygotsky og áhrif kenninga hans í skólastarfi á Íslandi. UEFA - B þjálfararéttindi
 • 1998 Stúdent frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, uppeldisbraut.
 • 1992 – 1993 Skiptinemi í Norður Karólínu BNA.

Starfsreynsla:

 • 2017 - Umsjónarkennari 10.bekkjar Fellaskóla
 • 2017 - Knattspyrnuþjálfari hjá Val
 • 2015 - 2017 Deildarstjóri við Birkimelsskóla
 • 2013 -2015 Meistaraflokksþjálfari kvenna hjá Haukum
 • 2009 -2015 Fagstjóri félagsgreina við Réttarholtsskóla
 • 2010 - 2015 Yfirþjálfari knattspyrnudeildar kvenna hjá Haukum
 • 2010 - 2013 Aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna hjá Haukum
 • 2009 - 2010 Knattspyrnuþjálfari hjá Fylki
 • 2008 - 2009 Deildarstjóri unglingadeildar við Sæmundarskóla
 • 2006 - 2008 Fagstjóri félagsgreina við Réttarholtsskóla
 • 2005 - 2008 Árgangastjóri við Réttarholtsskóla
 • 2002 - 2015 Kennari við Réttarholtsskóla, hef starfað í sérdeildinni, fjölnáminu og er bekkjarkennari með áherslu á samfélagsgreinar. Hef einnig verið öll árin félagsstarfskennari
 • 2007- 2008 Yfirþjálfari knattspyrnudeildar Fylkis, kvennadeildarinnar
 • 2003- 2010 Knattspyrnuþjálfari hjá knattspyrnufélaginu Fylki í árbæ. 3.flokk kvenna- og/eða karlamegin
 • 1999- 2002 Vann á veturna með skóla í félagsmiðstöðinni Hólmasel í Breiðholti, unnið með unglingum og sérverkefni innan veggja félagsmiðstöðvarinnar
 • 1999-2002 Knattspyrnujálfari hjá Knattspyrnufélaginu Val

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í embætti formanns grunnskólakennara. Ástæðan er einföld, ég tel að staða grunnskólakennara sé slök og við þurfum róttækar breytingar í áherslum og baráttu okkar. Við, grunnskólakennarar, höfum ítrekað tekið að okkur ýmsa málaflokka undanfarin ár án þess að að hafa fengið nokkuð til baka. Hægt er að nefna fjölmörg dæmi en þau helstu eru m.a útfærsla á aðalnámsskrá grunnskóla sem hefur lent að miklu leyti á félagsmönnum. Einnig er framkvæmd skóla án aðgreiningar illa undirbúin og ýtir undir aukið álag í okkar starfi. Sjúkrasjóður okkar tæmist hraðar en vatnspollur í eyðimörk og það þarf að sporna við þessu strax.

Grunnskólakennarar eru sterk stétt, samvinna er okkar helsti styrkleiki. Ég tel að við þurfum að virkja félagsmenn, vera sýnileg í samfélaginu og auka samvinnu innan samtakanna. Það er mikilvægt að formaður FG leyfi röddum félagsmanna að hljóma og umkringi sig góðu fólki sem vill breytingar. Embætti formanns grunnskólakennara er rödd félagsmanna og því er mikilvægt að hún heyrist. Ég mun ekki ráðast á meðframbjóðendur eða núverandi stjórn FG heldur ætla ég að einblína á þau verk sem ég ætla að framkvæma ef ég verð kosinn.

Ég mun berjast fyrir hækkun launa grunnskólakennara. Ég mun ekki selja fleiri réttindi eða skóladaga, við höfum gert nóg af því. Við erum sérfræðingar og við eigum betra skilið.
Hvaða stéttir þurfa að berjast fyrir nýjum stólum og borðum í kjarabaráttu sinni? Ég mun berjast fyrir og standa vörð um bætt starfsumhverfi. Þetta er ekki kjarasamningsmál heldur almenn réttindi Íslendinga á vinnumarkaði.

Ég mun vera sýnilegur og láta í mér heyra þegar við á. Starf grunnskólakennara þarf að vera sýnilegt í samfélaginu, auka þarf umræðu um mikilvægi þess og virðingu. Formaður FG getur verið mikið hreyfiafl í þessari umræðu og því mun ég beita mér sérstaklega í þessum málaflokki.

Ég er bara mannlegur og því líkur á því að skoðun mín sé ekki alltaf sú besta. Ég mun umkringja mig fólki með ólíka og fjölbreytta sýn á málefnum grunnskólakennara. Við erum ein heild, saman erum við sterkari!

Ég lofa því að ég mun berjast með kjafti og klóm fyrir stétt okkar. Nú er tími breytinga!

Ég vil athuga hvort ekki sé hægt að minnka yfirbyggingu KÍ og byrja á því að kanna möguleika á að gefa út fagritið okkar einungis á rafrænu formi.

Ég vil minnka kennsluskyldu.

Ég ætla að hlusta á allar raddir grunnskólakennara, hvaðan sem þær koma af landinu.

Á næstu vikum mun ég opna vefsíðu með ítarlegum upplýsingum um hvað ég stend fyrir; kristjanarnar.com. 
     

Nafn: Rósa Ingvarsdóttir
Núverandi vinnustaður: Ég kenni stærðfræði á unglingastigi í Rimaskóla í Grafarvogi.
Aldur: Ég er fædd 8. nóvember 1964 og er því 53 ára.

Menntun: Ég útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands vorið 1987 með B.Ed gráðu. Síðan tók ég nám fyrir starfandi grunnskólakennara árið 2011 sem lauk með diplómu. Vorið 2016 lauk ég meistaranámi í náms- og kennslufræðum með áherslu á stærðfræði. Ég hef auk þessa sótt ótal námskeið, ráðstefnur og fundi sem tengjast með einum eða öðrum hætti kennslu í grunnskóla.

Starfsreynsla / starfsferill: Ég hóf minn starfsferil haustið 1987 sem kennari í Hjallaskóla í Kópavogi og starfaði þar í tvo vetur. Því næst lá leið mín í Vesturbæjarskóla í Reykjavík þar sem ég starfaði einn vetur. Þann vetur bauðst mér starf sem forstöðumaður í félagsmiðstöðinni Bústaðir svo ég kenndi einungis einn vetur í Vesturbænum. Ég var forstöðumaður í 4 ár en kennslan togaði alltaf í mig svo eftir verkfall kennara vorið 1995 snéri ég til baka í kennslu og þá í Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði þar sem ég starfaði það vor og næsta vetur þar á eftir. Haustið 1996 réði ég mig í Rimaskóla í Grafarvogi þar sem ég starfa enn, lengi vel var ég umsjónarkennari á miðstigi og kenndi jafnframt heimilisfræði en síðustu 10 árin hef ég verið stærðfræðikennari á unglingastigi. Síðustu 6 árin hef ég auk þess að kenna verið í 50% starfi sem formaður Kennarafélags Reykjavíkur.

Af hverju býðurðu þig fram? Mér hefur alltaf þótt kennsla vera eitt af merkilegri störfum samfélagsins. Í dag eru blikur á lofti varðandi framtíðarhorfur kennarastéttarinnar, nýliðun er alltof lítil og þeir sem starfa innan skólanna eru margir hverjir komnir að þolmörkum þar sem starfsumhverfið er ekki í takti við þær kröfur sem gerðar eru til grunnskólans í dag.

Ég vil vinna að því að kennarastarfið njóti þeirrar virðingar sem það á skilið, að það verði eftirsóknarvert að fara í kennaranám og vinna í grunnskólum landsins.

Ég vil vinna að því að launakjör kennara samræmist þeirri ábyrgð sem fylgir starfinu. Grunnskólakennarar hafa verið í kjarabaráttu þau 30 ár sem ég hef starfað innan grunnskólans. Í öll þessi ár hefur alltof mikil orka stéttarinnar þurft að fara í kjarabaráttu, orka sem betur væri komin í að gera góða skóla betri.

Ég vil vinna að því að ná samfélagslegri sátt um að hækka laun grunnskólakennara svo skólar landsins verði áfram í fremstu röð og hæfir einstaklingar velji sér kennslu sem framtíðarstarf. Við megum engan tíma missa. Ef ekkert verður að gert verður alvarlegur kennaraskortur á landinu innan tíu ára.

Á hvað muntu leggja áherslu náir þú kjöri? Ég mun leggja áherslu á að bæta launakjör og starfsaðstæður kennara, það eru algjör forgangsmál. Í dag er háskólamenntað fólk illa launað í íslensku samfélagi. Kennarasambandið og Bandalag háskólamanna þurfa að taka höndum saman í baráttunni við að breyta þessu. Ég vil líka leggja áherslu á að að kennarar verði leiðandi í umræðu samfélagins um skólamál. Samtök atvinnulífsins gefa reglulega út skýrslur og pistla um það hvernig skólar landsins ættu að vera. Í nýjasta pistli þeirra samtaka frá því í nóvember síðastliðnum er fjallað um styttingu grunnskólans. Kennarar eiga að leiða þessa umræðu af því að þeir hafa mesta þekkingu á skólamálum svo ekki gerist það sama og gerðist með framhaldsskólann þegar hann var styttur um eitt ár í sparnaðarskyni. Góður skóli lítur ekki lögmálum markaðshyggjunnar.

Góður skóli byggir á fagmennsku þar sem vel menntaðir kennarar vinna að því að mennta framtíð landsins og búa einstaklingana undir að takast á við samfélag sem verður sífellt flóknara. Það er ekki ódýrt að búa vel að skólunum en ef það er gert þá skilar það margföldum þjóðhagslegum ávinningi. Ég mun leggja áherslu á að vera í góðu sambandi við félagsmenn með skólaheimsóknum, málþingum og fundum þar sem skoðanir og áherslur félagsmanna ná beint til stjórnar FG.

Annað? Ég hef mikla reynslu af félagsstörfum fyrir kennara. Ég var trúnaðarmaður í mörg ár, hef setið í stjórn Vonarsjóðs, í undanþágunefnd grunnskóla og er í stjórn Félags grunnskólakennara. Ég hef verið formaður Kennarafélags Reykjavíkur síðastliðin 6 ár og setið í skóla- og frístundaráði sem áheyrnarfulltrúi þann sama tíma. Ég hef auk þess átt sæti í mörgum ráðum og nefndum á vegum Reykjavíkurborgar og menntamálaráðuneytisins.

Ég þekki starfsumhverfi kennara út og inn enda unnið í grunnskóla í 30 ár. Kjaramál og kjarasamninga þekki ég líka vel eftir öll mín störf í félagsmálum kennara og hef þá þekkingu sem þarf til að vera formaður samninganefndar kennara.

Ef þið viljið spyrja mig nánar sendið mér þá endilega línu á netfangið: rosogas@gmail.com.
 

Ég heiti Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, starfandi grunnskólakennari í Árbæjarskóla. Ég er fjögurra barna móðir gift Hilmari Harðarsyni, formanni Samiðnar og FIT, félags iðn- og tæknigreina.

Ég hef brennandi áhuga og metnað til að bæta starfskjör og starfsskilyrði kennara hér á landi. Kennarar eru lykilmenn í starfi með nemendum og því mikilvægt að starfskjör og starfskilyrði séu með þeim hætti að þeir geti unnið starf sitt af metnaði og einurð. Ég tel að reynsla mín og þekking geti komið að góðum notum til þess að halda utan um kennara og búa þeim eins góð starfsskilyrði og mögulegt er. Jafnframt tel ég að reynsla mín í samskiptum við sveitafélög og ríki geti nýst til þessa starfs.

Á undanförnum árum hef ég aflað mér umfangsmikillar reynslu og þekkingar og unnið ötullega í þágu kennara. Ég hef gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir þá, var formaður Kennarafélags Reykjavíkur 2005-2011, fulltrúi reykvískra kennara í skóla- og frístundaráði Reykjavíkur (áður menntaráði) í sjö ár og tók þátt í margvíslegri stefnumótun fyrir hönd kennara á vettvangi fræðslumála. Þessa þekkingu vil ég nýta frekar og býð því fram krafta mína til formanns Félags grunnskólakennara.

Ég er jákvæð, sjálfstæð og á auðvelt með að vinna í hóp. Ég er metnaðarfull, skipulögð í starfi, dugleg, áræðin og úrræðagóð, hef góða innsýn í stefnumótunarvinnu og kjarasamninga starfsmanna skóla og hef verið farsæl í starfi. Ég hef unnið margskonar krefjandi störf í gegnum tíðina og reynslan hefur kennt mér að vinna undir álagi. Ég er fljót að tileinka mér nýja hluti og hef gaman að viðfangsefnum mínum.

Áherslur mínar verða á bætt starfskjör og starfsskilyrði kennara, aukið samráð kennara um allt land, gagnsæi í ákvörðunartöku og endurheimt faglegs sjálfstæðis með valdeflingu kennarastarfsins.

1. Það á enginn að hætta að kenna vegna lélegra launa

a. laun grunnskólakennara eiga að vera í samræmi við álag, ábyrgð og mikilvægi starfsins.
b. launakjör grunnskólakennara eiga að endurspegla mikilvægi menntunar í landinu.

i. í þessari lotu þarf að meta síðasta kjarasamning út frá verðmætum sem kennara gáfu eftir í síðasta samningi s.s. bundna viðveru, kennsluskylduafslátt, 27/28 tímann og uppbrotsdaga og sækja þannig eðlilegar kauphækkanir sem við sannarlega eigum inni.
ii. mikilvægt er að grunnlaun allra kennara verði jöfn, en leita verður réttlátra leiða til að greiða sérstaklega fyrir einstök verkefni, s.s. umsjón með nemendahópi, teymisfundi, umsjón með nemendarými og innkaupum o.fl.

2. Menntun íslensku þjóðarinnar er í höndum grunnskólakennara. Öll íslensk börn eru skyldug til að ganga í grunnskóla

a. kennarar eru sérfræðingar í menntun og fræðslu.

i. mikilvægt er að valdefla kennara og gefa kennurum tækifæri til að efla sérfræðiþekkingu sína og fagmennsku. Til þess þurfa þeir gott aðgengi að endurmenntun og tíma til að íhuga og skoða kennsluhætti sína.
ii. binding vinnutímans er í hrópandi mótsögn við fagmennsku kennarastarfsins. Kennurum er treystandi til að sinna hlutverki sínu
iii. kennarar eru kallaðir til vegna sérfræðiþekkingar sinnar á kennslu þannig að eðlilegt er að greitt sé fyrir öll þau verkefni sem ríki, sveitafélög og aðrir hagsmunaaðilar óska eftir að séu unninn.

3. Kennarar geta haft áhrif á laun og starfsskilyrði sín

a. stéttarfélagið á að gera kjarasamning og sjá til þess að hann sé virtur.

i. stéttarfélagið á að beita öllum ráðum til þess að knýja á um fjármagn til að standa vörð um gerða kjarasamninga.
ii. trúnaðarmannakerfi félags grunnskólakennara nær út í hvern einasta skóla á landinu og styrkur félagsins er fólginn í góðu aðgengi að upplýsingum og skjótum viðbrögðum stéttarfélagsins.

b. forysta stéttarfélagsins á að beita sér á öllum vígstöðvum til að tala máli grunnskólans og kennara.

i. formenn svæðafélaga eru mikilvægur hlekkur í grasrótinni og mikilvægt er að efla samstarf milli svæðafélaga sem og við forystu félags grunnskólakennara.

c. skólamálaumræða á Íslandi þarf að endurspegla landið allt.

i. kennarar í öllum sveitafélögum eiga fulltrúa í skólanefndum samkvæmt lögum um grunnskóla. Mikilvægt er að nýta sér þessa sérstöðu til þess að hafa áhrif á skólamálaumræðu í landinu.

Verði ég kosin formaður félags grunnskólakennara mun ég nýta reynslu mína og þekkingu fyrir kennara.

TENGLAR

Netfang: thorgerdur.laufey.didriksdottir@gmail.com
Vefsíða: www.thorgerdur.is

 

 

 

 

 

 

 

 

 
 

Tengt efni