is / en / dk

21. September 2015

Kennarar og hið mikilvæga starf sem þeir gegna á degi hverjum er í brennidepli á heimsvísu 5. október ár hvert.

Alþjóðadagur kennara er árviss viðburður á vegum UNESCO 5. október ár hvert. Þá er kennurum fagnað með margvíslegum hætti og vakin athygli á störfum þeirra.

Málþing um samfélagsmiðla í kennslu

Málþing verður haldið á Grand hóteli Reykjavík síðdegis 5. október. Fjallað verður um samfélagsmiðlana; hvernig hægt er að hafa gagn af þeim við kennslu og einnig hvað ber að varast við notkun þeirra. Málþingið er haldið í samstarfið við Heimili og skóla. 

Málshefjendur verða Sólveig Jakobsdóttir, dósent á menntavísindasviði HÍ, Ingvi Hrannar Ómarsson, grunnskólakennari og ráðgjafi í upplýsingatækni, og Ægir Karl Ægisson, formaður Siðaráðs KÍ. Að loknum erindum verða pallborðsumræður þar sem frummælendur taka sæti ásamt fulltrúa foreldra, Þresti Jónassyni, og fulltrúa nemenda, Önnu Mínervu Kristinsdóttur. Hægt verður að fylgjast með málþinginu í beinni útsendingu á netinu.

Málþingið er öllum opið og stendur frá 16 til 18 en nauðsynlegt er að skrá sig hér.

Kennarar hvattir til að halda upp á daginn

Kennarasambandið hvetur skólafólk á öllum skólastigum til að halda upp á alþjóðadag kennarans 5. október. Tilvalið er að opna skólana og varpa ljósi á hið mikilvæga starf sem fram fer í kennslustofum landsins á hverjum degi og efna til skemmtilegra viðburða til heiðurs kennurum. 

Fylgist með okkur á viðburðasíðunni á Facebook og látið vita af því sem verður gert í ykkar skóla. 

 

Auglýst eftir smásögum nemenda á öllum skólastigum

Af þessu tilefni hefur Kennarasambandið í samstarfi við Heimili og skóla efnt til smásagnasamkeppni meðal nemenda í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Þemað að þessu sinni er „kennarinn“ en efnistök eru að sjálfsögðu frjáls. Verðlaun fyrir bestu sögurnar verða veitt í Kennarahúsinu í dag, á alþjóðadegi kennara.

Skilafrestur sagna rann út 25. september. Dómnefnd hefur nú farið yfir innsendar sögur en nafnleyndar var gætt gagnvart henni. Dómnefndina skipa Brynhildur Þórarinsdóttir rithöfundur, Kristján Jóhann Jónsson dósent og Bryndís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SAMFOK og fulltrúi foreldra. 

Verðlaun verða veitt fyrir bestu söguna á leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólastiginu. Verðlaunahafar fá vandaða lestölvu frá BeBook og rafbók að eigin vali.  

Tengt efni