is / en / dk

Samninganefnd Félags tónlistarskólakennara skrifaði undir kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga skömmu fyrir klukkan hálfsex í morgun. Fundur hafði þá staðið sleitulaust síðan klukkan 13 í gær. Verkfalli tónlistarskólakennara hefur verið aflýst en það hefur stóð í nærfellt fimm vikur.

Nýi kjarsamningurinn, sem er til skamms tíma, verður kynntur félagsmönnum FT á næstu dögum og síðan borinn undir atkvæði. Niðurstaða mun liggja fyrir 8. desember.  

 

Fréttapunktar úr verkfallinu

Samstöðufundur verður haldinn í Hörpu klukkan fimm á þriðjudag, 18. nóvember. Upplýsingar um fundinn er að finna á Facebook. Félagar eru hvattir til að dreifa „viðburðinum“ og hvetja sem flesta til að mæta. 

Við vekjum athygli á myndböndum sem hafa að geyma stuðningsyfirlýsingar frá ýmsum unnendum tónlistar og tónlistarnáms. 

Verkfall FT – stikla 1 

Fram koma Ásgeir Trausti tónlistarmaður, Guðrún Eva Mínervudóttir rithöfundur, Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður, Brynhildur Guðjónsdóttir leikari, Steinunn Birna Ragnarsdóttir, tónlistarstjóri Hörpu, Haraldur Ólafsson veðurfræðingur, Ágúst Einarsson prófessor og Bjarki Karlsson rithöfundur.

Verkfall FT – stikla 2
Fram koma Egill Helgason sjónvarpsmaður, Melkorka Ólafsdóttir tónlistarkona, Gunnar Kvaran sellóleikari, Áslaug og Jófríður í Samaris, Egill Tómasson, hjá Iceland Airwaves,og Guðný Guðmundsdóttir fiðluleikari.

Félagsmenn eru hvattir til að dreifa stiklunum á samfélagssíðum. 

 

Verkfallsmiðstöðvar í Reykjavík og á Akureyri

 • Reykjavík: Verkfallsmiðstöðin í Valsheimilinu á Hlíðarenda er opin mánudaga, miðvikudaga og fimmtudaga frá 12 til 14. Félagar eru hvattir til að heimsækja verkfallsmiðstöðina; það er alltaf heitt á könnunni. 

Dagskráin fram undan

Mánudagurinn 17. nóvember

 • Fulltrúi samninganefndar kemur klukkan 12.30. Kammerhópurinn Stilla flytur tónlistaratriði. Hópinn skipa Sigrún Harðardóttir og Margrét Soffía Einarsdóttir fiðlur, Þórunn Harðardóttir víóla, Gréta Rún Snorradóttir selló og Lilja Eggertsdóttir sópran.

Mðvikudagurinn 19. nóvember

Fulltrúi samninganefndar kemur klukkan 12.30. 

Fimmtudagurinn 20. nóvember 

Fulltrúi samninganefndar kemur klukkan 12.30. 

 • Akureyri: Verkfallsmiðstöð á Akureyri þjónar tónlistarkennurum á Norðurlandi. Hún er til húsa í sal Hjálpræðishersins að Hvannavöllum 10 á Akureyri. Opið er á þriðjudögum og fimmtudögum frá 11 til 14

 

Upptökur frá fundum og viðburðum

Verkfallstikur þar sem fjöldi listamanna, fræðimanna, fjölmiðlamanna og fleiri sendir tónlistarkennurum baráttukveðjur er að finna hér og hér. 

Bein netútsending var frá verkfallsmiðstöðinni 6. nóvember. Sigrún Grendal, formaður FT, fór yfir stöðuna í samningaviðræðunum og Aðalheiður Steingrímsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands, hélt ávarp. Hægt er að horfa á upptöku af fundinum á vefnum netsamfelag.is

Tónlistarkennarar komu saman í Hörpu að kvöldi 6. nóvember og vöktu athygli á kjarabaráttu sinni og þeirri staðreynd að verkfall þeirra hefur nú staðið yfir í meira en tvær vikur. Hér er stutt myndband frá viðburðinum

Sigrún Grendal, formaður FT, og Oddur S. Jakobsson, hagfræðingur KÍ, komu í Verkfallsmiðstöðina mánudaginn 27. október síðastliðinn. Sigrún fór almennt yfir stöðu kjaraviðræðnanna og Oddur skýrði samningagerð aðildarfélaga KÍ, fór yfir hvað nýjasta tilboð Sambands íslenskra sveitarfélaga þýðir. Síðan tóku við umræður. 

 

Verkfallsbætur:

Til að sækja um verkfallsbætur vegna verkfalls félagsmanna í FT skal fara inn á heimasíðu KÍ – Mínar síður og velja flipa sem heitir "Vinnudeilusjóður". Þar verður hægt að sækja um bætur frá miðvikudegi 5. nóvember. Greitt verður fyrir 14 daga, kr. 6000- á dag miðað við 100% starf. Af greiðslunum verður tekin staðgreiðsla í þrepi 2.

Bæturnar verða greiddar út eins fljótt og kostur er eftir að sótt hefur verið um.

 

Upplýsingaskjöl:

Starfsumhverfi tónlistarskóla - hvað eru sveitarfélögin að kaupa?

Til skýringar á breytingum í starfsumhverfi tónlistarskóla - aukinn nemendafjöldi per kennara

Til skýringar á breytingum í starfsumhverfi tónlistarskóla - sveigjanlegt kennslutímabil

 

Frá verkfallsstjórn

Verkfall Félags tónlistarskólakennara hófst miðvikudaginn 22. október og af því tilefni vill verkfallsstjórn FT hvetja til góðrar samvinnu til að tryggja farsæla framkvæmd aðgerðanna. Af því tilefni vill verkfallsstjórnin árétta eftirtalin atriði. 

Hverjir eru í verkfalli?

 • Allir tónlistarskólakennarar, deildarstjórar, millistjórnendur og aðstoðarskólastjórar sem greiða félagsgjöld í FT fara í verkfall.

Hverjir eru ekki í verkfalli?

 • Skólastjórar eru undanþegnir verkfalli vegna stjórnunarstarfa, en starfa ekki sem kennarar á meðan á verkfalli stendur.
 • Aðstoðarskólastjórar fara í verkfall nema að þeir séu kallaðir til sem staðgenglar skólastjóra í stjórnunarstörf.
 • Kennarar sem ekki greiða félagsgjöld í FT og starfa sem verktakar fara ekki í verkfall en mega ekki ganga í störf þeirra sem eru í verkfalli.

Viðvera

 • Kennarar eiga ekki að vera við störf né nokkuð annað í skólahúsnæði meðan á verkfalli stendur.

Verða skólar opnir til æfinga meðan á verkfalli stendur?

 • Ekki er heimilt að nota skólana til æfinga í verkfalli og gildir það jafnt um kennara og nemendur. Hvorki nemendum né kennurum er heimilt að stunda einkakennslu sína sem verktakar innan veggja skólans.
 • Tölvuver, sem eru í umsjón og á ábyrgð kennara sem eru í verkfalli eiga að vera lokuð.

Verða bókasöfn skólanna opin?

 • Svo fremi sem starfsfólk þeirra er ekki félagsmenn í FT. Kennarar sem vinna einhvern starfshluta á bókasafni leggja niður störf í verkfalli.

Verða skrifstofur skólanna opnar?

 • Ef starfsfólk þeirra er ekki félagsmenn í FT. Ef kennarar í verkfalli vinna hlutastarf á skrifstofum skulu þeir leggja þau störf niður á meðan á verkfalli stendur.

Laun í fæðingarorlofi

 • Greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til þeirra sem eru í fæðingarorlofi haldast óbreyttar í verkfalli.

Laun í námsleyfi

 • Þeir sem eru í námsleyfi halda launum sínum í verkfalli.

Laun í veikindaleyfi

 • Laun í veikindaleyfi falla niður í verkfalli hvort sem veikindin hefjast fyrir eða eftir að verkfall kemur til framkvæmda. Staðgenglar þeirra sem vinna fyrir þá sem eru í veikindaleyfi leggja líka niður störf.
 • Sé kennari í veikindaleyfi þegar verkfall kemur til framkvæmda, mun réttur hans til launagreiðslna í veikindum ekki skerðast í dögum talið, á meðan á verkfalli stendur.

Námskeið

 • Meðan á verkfalli stendur er ekki gert ráð fyrir að kennarar sæki endurmenntunarnámskeið sem eru starfstengd og fara fram í skólanum. Skólanum er ekki heimilt að halda námskeið á sínum vegum á meðan á verkfalli stendur.
 • Námskeið sem eru starfstengd einhverri deild og skipulögð af kennurum viðkomandi skóla s.s. leiklistarnámskeið fyrir söngnema eru ekki heimil.

Breytingar á stundatöflu og vinnuskipulagi

 • Óheimilt er að færa til stundatöflur eða breyta vinnuskipulagi þeirra tónlistarskólakennara sem eru ekki í verkfalli. Öðrum er óheimilt að ganga í störf tónlistarkennara í verkfalli.

Hljómsveit, samspil og söngur

 • Hljómsveitaræfingar og samspils eða söngtímar undir leiðsögn kennara í verkfalli sem eru félagsbundnir í FT eru ekki heimilar.

Fjarkennsla og einkakennsla

 • Öll fjarkennsla sem er á vegum skóla og í umsjón eða á ábyrgð kennara sem eru í verkfalli fellur niður. Kennara er ekki heimilt að kenna nemendum tónlistarskóla í einkakennslu á öðrum vettvangi meðan á verkfalli stendur.

Hljóðfæra- og söngkennaradeildir

 • Nám fellur niður í verkfalli, svo og kennsluþáttur þess þegar nemendur kenna á vegum skólans s.s í æfingakennslu.

Kennsla skiptinema

 • Fellur einnig niður í verkfalli. Engir nemendur eru undanþegnir verkfalli.

Greiðslur úr verkfallssjóði

 • Kennarar í FT sækja um greiðslur úr verkfallssjóði á heimasíðu KÍ, Mínum síðum. Félagsmenn munu fá tölvupóst um leið og hægt verður að sækja um, en það verður fljótlega. 

Verkfallsstjórn hvetur til þess að vafaatriðum, álitamálum og fyrirspurnum verði vísað beint til hennar. Hún hefur aðsetur í Kennarahúsinu við Laufásveg og netfangið er verkfall@ki.is og síminn er 595 1111. Formaður verkfallsstjórnar er Þórarinn Sigurbergsson.

Tengt efni