is / en / dk

1. gr. Nafn
Félagið heitir Skólastjórafélag Íslands og á aðild að Kennarasambandi Íslands. Félagssvæðið er allt landið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
 

2. gr. Hlutverk

a.  Að fara með málefni félagsmanna í Skólastjórafélagi Íslands.
b.  Að vinna að bættum kjörum og gæta hagsmuna félagsmanna.
c.  Að stuðla að umbótum í fræðslu- og uppeldismálum þjóðarinnar.
d.  Að vinna að aukinni menntun og starfsþróun félagsmanna.
e.  Að stuðla að kynningu milli félagsmanna og efla faglega umræðu meðal þeirra.
f.  Að gæta hagsmuna skólanna í hvívetna ásamt því að kynna sem best starf þeirra.
g.  Að annast tengsl við sambærileg félög erlendis og stuðla að samskiptum við aðrar þjóðir.
 

3. gr. Aðild að félaginu eiga:
Skólastjórar, aðstoðarskólastjórar og deildarstjórar á grunnskólastigi.
 

4. gr. Aðalfundur
Aðalfund félagsins skal halda fjórða hvert ár fyrir þing Kennarasambands Íslands. Til fundarins skal boðað með tveggja mánaða fyrirvara. Rétt til setu á aðalfundi hafa allir félagsmenn. Sex mánuðum fyrir aðalfund skipar stjórn félagsins fimm manna uppstillingarnefnd. Uppstillingarnefnd auglýsir eftir framboðum, kynnir frambjóðendur og gerir tillögur til aðalfundar um fulltrúa í stjórn.Uppstillingarnefnd gerir tillögu til aðalfundar um skoðunarmenn reikninga. Uppstillingarnefnd gerir tillögu til aðalfundar um fulltrúa í samninganefnd. Tveimur mánuðum fyrir aðalfund skipar stjórn Skólastjórafélags Íslands þriggja manna nefndanefnd sem gerir tillögur um skipan starfsnefnda aðalfundar og skulu starfsnefndir skipaðar a.m.k. þremur fulltrúum.
 

5. gr. Dagskrá aðalfundar

a.  Fundarsetning og skipan embættismanna.
b.  Kosnar starfsnefndir: Menntamálanefnd, Kjaranefnd og Allsherjarnefnd.
c.  Skýrsla stjórnar.
d.  Reikningar lagðir fram til afgreiðslu.
e.  Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga.
f.  Lagðar fram tillögur stjórnar, nefnda og einstaklinga.
g.  Nefndir starfa.
h.  Nefndaskil.
i.  Lagabreytingar.
j.  Kosningar:
     -  Kosning fulltrúa í samninganefnd.
     -  Kosning skoðunarmanna reikninga.
     -  Kosning formanns.
     -  Kosning nýrrar stjórnar.
k.  Önnur mál
 

6. gr. Kosningar

a.  Kjósa skal formann sérstaklega. Kjósa skal fjóra menn í aðalstjórn og þrjá til vara. Kjósa skal tvo skoðunarmenn reikninga og tvo til vara. Formaður félagsins skal vera fulltrúi í stjórn Kennarasambands Íslands en varaformaður félagsins skal vera varamaður hans þar.

b.  Kjósa skal bundinni leynilegri kosningu, ef stungið er upp á fleirum en kjósa á. Að öðrum kosti teljast þeir sjálfkjörnir sem tilnefndir hafa verið.

c.  Kjör fulltrúa á þing Kennarasambands Íslands fer fram á aðalfundi.
 

7. gr. Stjórn
Stjórn félagsins skipa fimm menn og þrír til vara, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Kjörtímabil stjórnar er fjögur ár og eru stjórnarmenn kjörnir á aðalfundi félagsins. Formaður er kjörinn sérstaklega en aðrir stjórnarmenn saman og skiptir stjórnin með sér verkum. Stjórnin heldur stjórnarfundi svo oft sem þurfa þykir. Heimilt er stjórn að ráða starfsfólk til að annast störf fyrir félagið. Stjórnin skal skipa tvær fastanefndir sér til aðstoðar:

a.  Kjararáð sem skal vera baknefnd fyrir samninganefnd félagsins og gerir m.a. tillögur um launa- og kjaramál félagsmanna.

b.  Skólamálanefnd. Starfandi skal vera þriggja manna skólamálanefnd auk tveggja varamanna. Skólamálanefnd sem sinnir faglegum málefnum fyrir félagsmenn. Stjórn SÍ skipar fulltrúa í nefndina, en formaður nefndarinnar skal vera einn af stjórnarmönnum félagsins.

Hlutverk nefndarinnar er:

a.  Að fjalla um fagleg málefni og skólamál í samráði við stjórn félagsins og skólamálaráð Kennarasambands Íslands.
b.  Að vinna að eflingu starfsþróunar og símenntunar félagsmanna.
c.  Að annast tengsl við fagfélög og sambærilegar nefndir annarra uppeldisstétta.
d.  Að undirbúa með stjórn fundi og námstefnur skólastjóra.
 

8. gr. Skipulag
Félagið er deildarskipt og er formaður hverrar deildar trúnaðarmaður á sínu svæði. Skylt er stjórn félagsins að boða trúnaðarmenn til fundar a.m.k. einu sinni á ári. Stjórn félagsins er heimilt að greiða rekstrarstyrk til einstakra deilda félagsins.
 

9. gr. Ársfundir
Þau ár, sem ekki er haldinn aðalfundur, skal boða til ársfundar. Á ársfundi er m.a. fjallað um starfsemi félagsins og starfsáætlun auk þess sem reikningar eru lagðar fram til kynningar.
 

10 gr. Almennir félagsfundir
Stjórn Skólastjórafélags Íslands getur boðað til almennra félagsfunda. Skylt er að boða til almenns fundar ef 10% eða fleiri krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni.
 

11. gr. Um gjörðarbækur
Ritari félagsins heldur gjörðarbækur og fundargerðir skulu samþykktar á stjórnarfundi og undirritaðar af ritara og formanni. Fundagerðir stjórnar og nefnda skulu birtar félagsmönnum á aðgengilegan hátt.
 

12. gr. Fjárreiður og bókhald
Þing Kennarasambands Íslands ákveður skiptingu félagsgjalda. Gjaldkeri félagsins hefur umsjón með fjárreiðum þess og bókfærslu og leggur fram endurskoðaða reikninga á aðalfundi. Auk þess skal hann gefa stjórn og ársfundi yfirlit yfir stöðu deildarinnar a.m.k. einu sinni á ári.
 

13. gr. Kosning til stjórnar Kennarasambands Íslands
Formaður félagsins situr í stjórn Kennarasambands Íslands en varaformaður er staðgengill hans í forföllum.
 

14. gr. Samninganefnd
Á aðalfundi félagsins skal kjósa þrjá fulltrúa, sem ásamt stjórn félagsins, mynda samninganefnd og fer hún með gerð kjarasamninga fyrir félagsmenn sína, sbr. lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Samninganefndin skiptir með sér verkum.

Hlutverk samninganefndar er:

a.  Að ganga frá markmiðum og áherslum í samningagerð og endanlegri kröfugerð.
b.  Að annast gerð kjarasamninga.
c.  Að taka ákvörðun hvort undirrita eigi kjarasamning með fyrirvara um samþykki félagsmanna og hvort fresta skuli verkfalli.

Formaður SÍ í umboði KÍ ber ábyrgð á undirritun kjarasamninga fyrir sína félagsmenn og gerð og undirritun viðræðuáætlana vegna endurnýjunar þeirra sbr. 9. gr. í lögum KÍ.

Formaður og varaformaður Kennarasambands Íslands starfa með samninganefndinni eftir nánari ákvörðun stjórnar félagsins hverju sinni.
 

15. gr. Allsherjaratkvæðagreiðsla um kjarasamninga o.fl.
Um kjarasamninga skal fara fram leynileg, skrifleg allsherjaratkvæðagreiðsla meðal félagsmanna SÍ og annarra félagsmanna KÍ sem falla beint undir kjarasamning Sambands íslenskra sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna Skólastjórafélags Íslands skv. lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Heimilt er að framkvæma skriflega atkvæðagreiðslu rafrænt. Í því felst að félagsmenn Kennarasambands Íslands þurfa vera starfsmenn þeirra sveitarfélaga sem Samband íslenskra sveitarfélaga semur fyrir. Kjörskrá skal miða við félagatal í þeim mánuði sem atkvæðagreiðsla fer fram. Stjórn félagsins getur efnt til allsherjaratkvæðagreiðslu um önnur mikilvæg málefni sem eigi falla sérstaklega undir aðalfund.

 

16. gr. Lagabreytingar
Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi félagsins enda hafi breytingarnar verið kynntar í fundarboði. Tillögur um lagabreytingar þurfa að hafa borist stjórn 6 vikum fyrir aðalfund og skulu þær kynntar aðalfundarfulltrúum eigi síðar en þrem vikum fyrir aðalfund. Til þess að breyting nái fram að ganga verður hún að hljóta samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða. Breytingar á lögunum koma fyrst til framkvæmda er stjórn Kennarasambands Íslands hefur staðfest þær.
 

17. gr. Gildistaka
Lög þessi öðlast gildi þegar stjórn Kennarasambands Íslands staðfest þau.

Samþykkt á aðalfundi Skólastjórafélags Íslands 14. október 2017
(Lög á pdf)

 

Tengt efni