is / en / dk

Ég trúi því einlæglega að menntun sé mikilvægasta sameiginlega verkefni hvers samfélags. Hluti menntunar fer fram í skólum og miklum fjármunum er varið í menntakerfið. Því er mikilvægt að hugað sé vel að því hvað þar er gert og hvernig. Umræða um menntamál er mikilvæg til að þróa og þroska hugmyndir um það hvernig best sé staðið að þeim málum. Oft finnst okkur skólafólkinu lítið fara fyrir slíkri umræðu í samfélaginu og því er réttast að fagna öllum tilraunum til að koma menntamálum á dagskrá. Samtök atvinnulífsins gera slíka tilraun þegar þau birta hugsanir sínar á vef samtakanna undir fyrirsögninni: Er tímabært að stytta grunnskólanám? Það er mjög gild spurning og í hugleiðingum SA er farið um víðan völl og víða villst í tölfræði OECD í tilraun til að færa rök fyrir því að skynsamlegt sé að fjölga kennsludögum í grunnskólum og fækka skólaárum um eitt, ef ég skil hugleiðingarnar rétt. SA telur þetta góða leið til að bæta gæði grunnskólanáms á Íslandi.

Því miður eru hugleiðingar SA uppfullar af rangfærslum og misskilningi og víða er hlutunum snúið á hvolf. Hér eru nokkur atriði sem SA ætti að fara betur yfir:

  1. Gæði náms verður ekki metið út frá stöðluðum PISA prófum. Prófin gefa ákveðnar og mikilvægar upplýsingar en eru ekki tæmandi mælikvarði á gæði grunnskólanáms. Mikilvægt er að hafa í huga að PISA mælir gæði skólakerfa út frá árangri nemenda í stærðfræði, lestri og náttúrufræði annars vegar og hins vegar út frá jafnræði eða jöfnuði í skólakerfinu. Við skorum mjög hátt á síðari mælikvarðanum en þurfum að bæta okkur á þeim fyrri. Miðað við gögnin sem SA vísar í er ekkert sem bendir til að stytting grunnskólans hafi áhrif á árangur nemenda í PISA en ég velti því fyrir mér hvort hún geti haft neikvæð áhrif á jafnræði eða jöfnuð í námi. Það að ekki sé fylgni milli fjölda kennslustunda og árangurs í PISA þýðir ekki að hægt sé að draga þá ályktun að tími skipti engu máli heldur að aðrar breytur séu líklegri til að skýra muninn. Sagt er í greininni að gæðum í skólastarfi hafi hrakað. Þessa fullyrðingu þarf að rökstyðja betur. Vissulega hefur árangri íslenskra barna í PISA hrakað en fyrir því geta verið margar ástæður.
  2. Það er rétt sem fram kemur í greininni að kennaraskortur er fyrirsjáanlegur eða þegar orðinn raunverulegur. Ástæður þess eru helst þær að stór hópur kennara er að komast á lífeyrisaldur, að of fáir velja að mennta sig inn í stéttina og að of margir af þeim sem hafa menntað sig hafa ákveðið að starfa ekki við kennslu. Það að fjölga kennsludögum um 10% og hækka laun kennara um sömu prósentutölu mun ekki breyta þessari þróun nema síður sé.
  3. Víða er misskilningur eða rangfærslur um lengd skóladags og fjölda skóladaga og skólaára. Í grunnskólum á Íslandi eru skóladagarnir 180 en ekki 170 eins og segir í greininni. Kennsludögum var fjölgað úr 170 í 180 skólaárið 2001-2002 og því heldur ekki rétt að segja að skóladögum hafi ekki fjölgað á Íslandi á þessari öld. Það eru svo aðeins 17 ár liðin af öldinni en það skiptir svo sem ekki öllu máli. Það skiptir hins vegar máli að rangt er að íslenskir nemendur séu ári lengur að ljúka grunnskólagöngunni en nemendur í samanburðarlöndunum. Víðast hvar er skyldunám 10 ár. Í Evrópu eru fleiri dæmi um að skyldunám sé lengra en 10 ár en að það sé styttra. Það er hins vegar svo að skólakerfi eru nokkuð ólík og fjölbreytt að uppbyggingu og því oft erfitt að bera þau saman á þennan hátt. Það hefur oft lítinn tilgang. Mun líklegra til árangurs er að velta því upp hvað við viljum fá út úr okkar menntakerfi og hvernig við getum best gert það. Alþjóðleg tölfræði hjálpar okkur ekki nema að litlu leyti við að svara þeim spurningum.
  4. Í hugleiðingum SA er bent á að við ættum að stefna að því að nálgast heildarklukkustundafjölda sem hin Norðurlöndin nota í grunnskólanám. Réttilega er bent á að gríðarlega mikill munur er meðal Norðurlandaþjóðanna þar sem Danir nota flestar klukkustundir, Finnar fæstar og við Íslendingar erum nákvæmlega mitt á milli. Hvaða Norðurlandaþjóðir á að nálgast? Ef við ætlum að nálgast Finna, ættum við að halda skólaárunum 10 en fækka kennslustundum á viku og kennsludögum á hverju ári. Ef við ætlum að nálgast Dani, ættum við að fjölga kennslustundum á viku og kennsludögum á ári og halda skólaárunum í 10. Árangur Finna er betri í PISA en ég er ekki viss um að það henti SA að stytta skóladaginn og skólaárið.
  5. Áhugaverðasti punkturinn í greininni og sá sem kom mér mest á óvart af öllu var þó sú fullyrðing að stytting grunnskólans hafi þegar hafist með því að færa samræmd könnunarpróf úr 10. bekk niður í 9. bekk. Ég, sem skólastjórnandi, kem alveg af fjöllum enda hefur Menntamálastofnun þvertekið fyrir að þessi breyting hafi nokkuð með það að gera að stytta grunnskólann. Hverjum getur líka dottið það í hug? Samræmd könnunarpróf eru könnunarpróf í grunnskóla en ekki lokapróf. Skólastjórar útskrifa nemendur en ekki Menntamálastofnun sem sér um framkvæmd könnunarprófanna og ég á ekki von á því að nokkur skólastjóri líti á niðurstöður samræmdra prófa sem vitnisburð um hæfni nemanda við lok grunnskóla. Prófin geta mögulega verið ágæt en þau verða aldrei mæling á hæfni nemenda við lok grunnskóla. Það þarf ekki annað en að líta á lykilhæfni í aðalnámskrá grunnskóla til að sjá hversu vonlaus rafræn könnunarpróf eru til að meta hæfni nemenda á fullnægjandi hátt.

Við lestur hugleiðinga SA velti ég því fyrir mér hver tilgangur svona skrifa er. Það læðist að mér sá grunur að þessi skrif séu liður í niðurbroti frekar en uppbyggingu menntakerfisins. Til eru sannfærandi fræðileg skrif um þessa aðferðafræði og hvernig henni hefur t.d. verið beitt í Englandi til að veikja traust á skólakerfinu og jafnvel notað gegn kennurum í kjarabaráttu þeirra.

Að lokum. Í hugleiðingunum er stytting framhaldsskólans lofuð en ekki er annað að heyra á umræðunni en að ýmis sjónarmið séu uppi um að hún hafi verið mjög misráðin. Bent er á að álag á nemendur sé allt of mikið og að þeir sem vilji standa sig í námi verði að fórna íþróttaiðkun og tómstundum fyrir námið. Það er ekki jákvæð þróun.

Á sama tíma heyrum við fréttir af því að leikskólabörn á Íslandi verji lengstum tíma í leikskólum af öllum börnum innan OECD. Það er heldur ekki jákvætt. Ég skil hugleiðingar SA þannig að samtökin vilji líka sjá grunnskólanema meira í skólunum og minna með foreldrum sínum. Mögulega hentar það hagsmunum sem SA berst fyrir en það er ekki rétt að setja þá baráttu í þann búning að verið sé að berjast fyrir bættu menntakerfi. Hér hangir eitthvað allt annað á spýtunni.

Ómar Örn Magnússon, aðstoðarskólastjóri í Hagaskóla. 

 

Tengt efni