is / en / dk

Félag stjórnenda í framhaldsskólum var stofnað árið 1999 og er í dag eitt af sjö aðildarfélögum Kennarasambands Íslands. Félagsmenn eru eitt hundrað, en rétt til að gerast félagar hafa aðstoðarskólameistarar, konrektorar, staðgenglar skólameistara/rektors, áfangastjórar og aðrir sem eru í a.m.k. hálfri stöðu sem stjórnendur í framhaldsskólum.

Hlutverk félagsins er að vera málsvari félagsmanna, gera kjarasamninga fyrir félagið, halda fundi og námskeið, efla faglega umræðu meðal félagsmanna og sjá um kjör fulltrúa á þing Kennarasambands Íslands.1. gr.
Félagið heitir Félag stjórnenda í framhaldsskólum og á aðild að Kennarasambandi Íslands. Félagssvæðið er allt landið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.
Hlutverk félagsins er að:

 •  Vera málsvari félagsmanna.
 •  Gera kjarasamninga fyrir félagið.
 •  Halda fundi og námskeið.
 •  Efla faglega umræðu meðal félagsmanna.
 •  Sjá um kjör fulltrúa á þing Kennarasambands Íslands.

3. gr.
Rétt til að gerast félagar hafa aðstoðarskólameistarar, konrektorar, staðgenglar skólameistara/rektors, áfangastjórar og aðrir sem eru í a.m.k. hálfri stöðu sem stjórnendur í framhaldsskólum. Stjórn félagsins veitir mönnum inngöngu í félagið.

4. gr.
Aðalfundur Félags stjórnenda í framhaldsskólum skal haldinn einu sinni á ári og hefur æðsta vald í málum félagsins, sbr. þó 10. gr. Á aðalfundi eiga allir félagsmenn sæti með atkvæðisrétt. Til aðalfundar skal boða með a.m.k. 4 vikna fyrirvara. Tillögur um lagabreytingar þurfa að berast stjórn félagsins eigi síðar en 3 vikum fyrir aðalfund. Kosning til stjórnar skal vera skrifleg ef fleiri eru í framboði en embætti segja til um. Aðalfundargögn skulu send út með minnst 2 vikna fyrirvara. Stjórn félagsins skal senda félagsmönnum fundargerð aðalfundar svo fljótt sem auðið er. Jafnframt skal stjórn senda félagsmönnum upplýsingar um helstu viðfangsefni félagsins milli aðalfunda. Ef ástæða er til má boða til aukaaðalfundar og þá með sama fyrirvara og sömu dagskrá.

5. gr.
Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

 1.  Skýrsla stjórnar.
 2.  Ársreikningar félagsins.
 3.  Ársreikningar Vísindasjóðs FF/FS.
 4.  Kosning nýrrar stjórnar og varamanna.
 5.  Kosning aðal- og varafulltrúa FS í stjórn Vísindasjóð FF/FS.
 6.  Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og eins til vara.
 7.  Kosning í framboðsnefnd og í önnur trúnaðarstörf sem aðalfundur ákveður.
 8.  Kosning fulltrúa á þing Kennarasambands Íslands. Heimilt er að vísa kosningum til stjórnar.
 9.  Lagabreytingar.
 10.  Önnur mál.

6. gr.
Stjórn félagsins getur boðað til almennra félagsfunda. Skylt er henni að boða til almenns félagsfundar ef 10% eða fleiri krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni.

7. gr.
Stjórn félagsins skipa formaður auk fjögurra stjórnarmanna. Stjórn er kjörin á aðalfundi félagsins. Formaður er kosinn sérstaklega en aðrir stjórnarmenn saman og skipta þeir með sér verkum. Stjórnin heldur stjórnarfundi svo oft sem þurfa þykir. Formaður félagsins situr í stjórn Kennarasambands Íslands en varaformaður er staðgengill hans í forföllum. Stjórnin er jafnframt samninganefnd félagsins.

8. gr.
Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda og fylgir eftir samþykktum þess. Í því felst m.a. að:

 •  Ganga frá kröfugerð.
 •  Annast gerð kjarasamnings.
 •  Taka ákvörðun um hvort efna skuli til atkvæðagreiðslu um verkfall.
 •  Taka ákvörðun um hvort undirrita eigi kjarasamning með fyrirvara um samþykki félagsmanna og um hvort fresta skuli verkfalli.
 •  Fjalla um fagleg málefni og skólamál í samráði við skólamálaráð KÍ.
 •  Vinna að eflingu endurmenntunar félagsmanna.
 •  Annast tengsl við fagfélög og aðrar uppeldisstéttir.

9. gr.
Ritari félagsins heldur gerðabækur og fundargerðir skulu samþykktar á stjórnarfundi og undirritaðar af ritara og formanni.

10. gr.
Þing Kennarasambandsins ákveður rekstrarfé aðildarfélaga sinna. Gjaldkeri félagsins hefur umsjón með fjárreiðum þess og bókfærslu og leggur fram endurskoðaða reikninga á aðalfundi.

11. gr.
Á aðalfundi félagsins skal kjósa þriggja manna framboðsnefnd. Hlutverk hennar er að leggja fram tillögur um frambjóðendur til kjörs formanns, meðstjórnenda, skoðunarmanna reikninga og til annarra trúnaðarstarfa sem aðalfundur ákveður. Áður en nefndin leggur fram tillögur um frambjóðendur skal hafa samráð við viðkomandi einstaklinga. Við val frambjóðenda í trúnaðarstörf á vegum félagsins skal tryggja jafnræði. Framboðsnefnd skal hafa samráð við sitjandi stjórn.

12. gr.
Um kjarasamninga og boðun verkfalls skal fara fram leynileg, skrifleg allsherjaratkvæðagreiðsla meðal félagsmanna, skv. lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lög nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Kjörskrá skal miða við félagatal í þeim mánuði sem atkvæðagreiðsla fer fram. Stjórn félagsins getur efnt til allsherjaratkvæðagreiðslu um önnur mikilvæg málefni sem eigi falla sérstaklega undir aðalfund.

13. gr.
Lögum þessum má einungis breyta á aðalfundi félagsins enda hafi tillögur um breytingar verið kynntar í formlegu fundarboði. Tillögur um lagabreytingar þurfa að hafa borist stjórn 3 vikum fyrir aðalfund og skulu þær kynntar félagsmönnum eigi síðar en 2 vikum fyrir aðalfund. Tillögur sem fram koma á aðalfundi og eru um breytingar á auglýstum lagabreytingum skulu vera skriflegar. Til þess að breyting nái fram að ganga verður hún að hljóta samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða. Breytingar á lögunum koma fyrst til framkvæmda er stjórn Kennarasambandsins hefur staðfest þær.

14. gr.
Ef leysa á félagið upp skal bera tillögu þess efnis upp á aðalfundi félagsins, eða aukaaðalfundi og skal auglýsa það með tryggilegum hætti eins og um lagabreytingu sé að ræða. Eignum félagsins skal ráðstafa á sama fundi. Til þess að slík tillaga teljist samþykkt þurfa minnst 2/3 fundarmanna að greiða henni atkvæði sitt.

Samþykkt á aðalfundi 2013.

 

Tengt efni


Warning: array_filter() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 35

Warning: array_flip() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 42