is / en / dk

04. Júlí 2017


Leiga á íbúðum KÍ Í Reykjavík er mjög dýr fyrir félagsmenn og þá sérstaklega fyrir félagsmenn af landsbyggðinni sem oft og tíðum þurfa að skreppa í höfuðborgina yfir helgi til að sinna erindagjörðum.

Það sem er í boði hjá KÍ er 63 m2 íbúð á Sóleyjargötu. Þar kostar einn dagur 10.500 krónur og tveir dagar, eða helgin, 21.000 krónur. Vikan er á 47.000 krónur. Ef þú ákveður að taka átta daga í þessari íbúð þá kosta þeir 57.750 krónur, þar sem 8. dagurinn er dýrari en sá fyrsti. Þetta er náttúrlega alveg meingallað reikniverk. Þetta er stærsta íbúð sem er í boði fyrir félagsmenn KÍ í Reykjavík. Ef við tökum næststærstu íbúðina á Sóleyjargötunni sem er 52 m2, þá kostar helgin 18.800 krónur og vikan 42.300 krónur. Hér kosta átta dagar 51.700 krónur. Þess má einnig geta að þessar íbúðir KÍ kosta einnig 5 punkta á dag, sem gerir 35 punkta á viku.

Leiga á íbúð hjá FÍH (Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga) er 3.500 krónur á sólarhring auk eins punkts, sem gerir 7 punkta fyrir vikuna. Þar er í boði 86 m2 íbúð í Sóltúni, 61 m2 íbúð á Klapparstíg og 55 m2 íbúð á Boðagranda. Hver nótt er á 3.500 krónur, sama hvaða íbúð þú leigir, sem gerir 7.000 krónur fyrir helgina, og 24.500 krónur fyrir vikuna. Átta dagar kosta 28.000 krónur, en átta dagar í stærstu íbúðinni hjá KÍ kosta 57.750 krónur sem er meira enn 100% dýrara en hjá FÍH og ef við lítum á punktana, þá er punktakostnaðurinn 500% dýrari hjá KÍ. Finnst fólki þetta í lagi? Ég tek fram að þetta hefur lengi verið svona meingallað, í það minnsta síðustu 10 ár.

Ég og mín fjölskylda þurftum að sinna erindagjörðum í bænum um páskana, fara til læknis o.fl. og þetta er það sem er í boði hjá mínu stéttarfélagi, svo við tölum nú ekki um alla punktana sem fylgja þessu. Þetta er náttúrlega ekkert nema okur, þar sem KÍ okrar fyrst og fremst á sínu fólki á landsbyggðinni, fólki sem þarf að sækja þjónustu í bænum. Það væri miklu sanngjarnara ef sama verð væri á öllum dögum eins og hjá FÍH, enda á það ekki að skipta máli hvort þú takir tvo daga eða fjóra, þar sem þú þrífur sjálfur eftir þig, hvað þá heldur þar sem bætt er við áttunda deginum, þá fer reikniverkið aftur á flug. Þetta er meingallað kerfi og þörf á að endurskoða það alveg frá GRUNNI.

Það sem er skrifað hér fyrir ofan á við um páskana 2017.

Ég fór á endurmenntunarnámskeið nú í júní, auk þess sem frúin fór með strákana í litahlaupið, svo við leigðum hjá KÍ, fengum íbúð fyrstu þrjá dagana en þurftum svo að flytja okkur í lítið herbergi. Fyrstu tveir dagarnir voru á 9.600 krónur hvor = 19.200 krónur, þriðji dagurinn var á 50% afslætti og fengum við hann því á 4.800 krónur. Því næst þurftum við að flytja okkur í lítið herbergi og fengum engan afslátt af því það var fyrsti dagurinn í nýju svefnplássi, þó að það hafi verið í sama húsi. Herbergið kostaði 5.400 krónur, meira en 4. dagurinn hefði kostað ef við hefðum haldið íbúðinni. Í raun er kostnaður á nótt á dag fyrstu 3 næturnar (19.200 + 4.800)/3 = 8.000 krónur á nótt. Ég sótti um styrk fyrir gistingu, en þar sem fyrstu tvær næturnar voru vegna litahlaupsins, fékk ég bara niðurfellingu á 4.800 króna nóttinni og 5.400 króna nóttin, þ.e. 3. og 4. nóttinni. Hefðum við fengið 4. nóttina á sama stað og fyrstu þrjár, þá hefði kostnaðurinn fyrir þær verið 9.600 x 2 + 4.800 x 2 = 28.800 krónur., Sem gerir raunkostnað á nótt 7.200 kr.

Ég hefði þá getað sótt um styrk fyrir þær nætur upp á 7.200 x 2 = 14.400 krónur. Þ.e. að við fengjum að borga sama gjald á nótt. Hver nótt hefur sinn raunkostanað en með þessu meingallaða kerfi hjá KÍ þá er fyrst og fremst verið að okra á þeim sem þurfa að skreppa í tvo daga, sem er örugglega mun algengara hjá kennurum af landsbyggðunum. Ég tek það fram að á Íslandi eru margar mismunandi landsbyggðir, ekki bara ein landsbyggð eins og er haldið er fram í fjölmiðlum sums staðar. Ég vona að þetta berist víða og ykkur er velkomið að dreifa greininni á fésbókinni, því einhvern veginn hef ég litla trú á að KÍ muni dreifa þessu eða gera nokkuð í málinu.

p.s. Ég ætla líka að taka það fram að þegar ég var á Sóleyjargötunni í júní þá mætti ég útlendingum á leiðinni út úr húsinu. Það er því líklegtað borgarbúar séu að leigja útlendingum íbúðirnar og KÍ/Orlofssjóður/Orlofsnefnd, eða hvaða nöfnum ber að kalla þetta, gerir ekkert í því frekar en fyrri daginn.

Ásgeir Hannes Aðalsteinsson framhaldsskólakennari
 

Tengt efni


Warning: array_filter() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 35

Warning: array_flip() expects parameter 1 to be array, null given in /home/kiis/public_html/modules/mod_articles_relative/helper.php on line 42