is / en / dk

 

Félag framhaldsskólakennara var stofnað árið 1999 og tók sama ár þátt í stofnun Kennarasambands Íslands. Formaður FF í dag er Guðjón Hreinn Hauksson en nánari upplýsingar um félagið má finna hér.

 

Helstu hlutverk Félags framhaldsskólakennara
  Fara með málefni félagsmanna sem sinna kennslu eða ráðgjöf í framhaldsskólum.
  Vera málsvari félagsmanna.
  Gera kjarasamning fyrir félagið.
  Efla faglega umræðu.
  Halda fundi og námskeið fyrir trúnaðarmenn.

 

Félagið stendur fyrir viðamikilli útgáfu. Þar má helst nefna:

 • Rauða eplið: Rafrænt fréttabréf sem FF kemur út eftir efnum og aðstæðum.
 • Fréttir og tilkynningar til félagsmanna.

Um KÍ

KÍ tók til starfa í janúar árið 2000 en átta aðildarfélög eiga í dag aðild að því. Þau eru:

Félagsmenn eru nú rúmlega 10.000. Formaður KÍ er Ragnar Þór Pétursson (ragnar@ki.is) og varaformaður Anna María Gunnarsdóttir (anna@ki.is).
 

Innan KÍ starfa nokkrar fastanefndir að sérstökum málefnum félagsmanna sem fulltrúar aðildarfélaganna eiga sæti í:

Skólavarðan er rafrænt tímarit KÍ sem kemur út á prenti tvisvar á ári.
Eplið er rafrænt fréttablað KÍ og er sent reglulega til félagsmanna eftir efnum og aðstæðum.

 

Í Kennarahúsinu eru skrifstofur KÍ, skrifstofur orlofssjóðs KÍ, sjúkrasjóðs KÍ og endurmenntunarsjóða félaga KÍ, utan Vísindasjóðs.

Húsið var sérstaklega byggt undir Kennaraskóla Íslands árið 1908 eftir að skólinn var stofnaður með lögum 14. september 1907.

Þórbergur Þórðarson fjallar um veru sína í Kennaraskólanum og kallar húsið „musteri viskunnar“.
 

Kjaramál

Kjarasamningar framhaldsskólans eru tvískiptir:

 • Miðlægir kjarasamningar sem kveða á um vinnutíma, réttindi og skyldur, miðlægar launahækkanir o.s.frv.
 • Stofnanasamningar sem samstarfsnefndir í framhaldsskólum gera en þeir eru hluti af miðlægum kjarasamningi.

Félag framhaldsskólakennara og Félag stjórnenda í framhaldsskólum standa saman að samningagerð við ríki og einkaaðila og starfa saman í samstarfsnefndum. Á vef KÍ undir kjaramál eru hægt að finna mikið af upplýsingum, s.s. kjarasamninga, launatöflur, stofnanasamninga framhaldsskóla og fleira.
 

Samstarfsnefndir í framhaldsskólum gera einn stofnanasamning um launaröðun félagsmanna FF og FS í hverjum skóla. Í stofnanasamningi er m.a. að finna röðun starfa í launaflokk og mat á persónubundum og tímabundnum þáttum (álagsþrep). Stofnanasamningar á vef KÍ. 
 

ATHUGIÐ:

Samkvæmt kjarasamningi undirrituðum þann 4. apríl 2014 mun fara fram nýtt vinnumat kennara haustið 2014. Nýtt vinnumat verður lagt í atkvæðagreiðslu í febrúar 2015.

Eftirfarandi upplýsingar um vinnumat byggjast því á eldri kjarasamningi og gilda skólaárið 2014-2015 eða þar til nýtt vinnumat liggur fyrir:

Vinnutími:
Árlegur starfstími framhaldsskóla er 180 kennslu- og matsdagar. Upphaf skólaárs getur verið frá 18. ágúst og skólalok skulu vera fyrir 31. maí.

Skv. gr. 2.1.6.2 í kjarasamningi er skipting vinnutíma kennara þessi:
Árlegur vinnutími kennara í fullu starfi er sem hér segir: Á starfstíma skóla, skv. ákvæðum 8. gr. (nú 7. gr.) reglugerðar um starfslið skóla (nr. 1100/2007) skal hann að jafnaði skiptast á milli kennslu, undirbúnings kennslu og annarra starfa. Þar við bætist undirbúningur og frágangur í fjóra daga og 80 klukkustundir utan starfstíma skóla ætlaðar til endurmenntunar eða undirbúnings eftir atvikum.

 • Kennsluskylda í framhaldsskólum er að hámarki 24 kennslustundir á viku, hún lækkar í 23 stundir við 55 ára aldur og í 19 stundir við 60 ára aldur.
 • „Önnur störf“ kennara eru: kennarafundir, viðtalstími kennara fyrir þá nemendur sem hann/hún kennir/forráðamenn þeirra og faglegt samstarf kennara.
 • Tími til „annarra starfa“ er um 4 klst. á viku hjá kennara sem er í 100% starfi.  

Sjóðir

Á „Mínum síðum“ sér félagsmaðurinn endurmenntunarsjóðinn sinn, sjúkrasjóð og orlofssjóð KÍ og getur sent inn umsóknir rafrænt. Til að komast inn á „Mínar síður“ þarf rafræn skilríki eða íslykil. Allar upplýsingar og leiðbeiningar eru á vef KÍ.
 

OKÍ greiðir niður gistingu á hótelum innanlands og leigir út orlofshús sem eru ýmist í eigu sjóðsins eða framleigu og selur tjaldsvæða- og veiðikort. Orlofshús í eigu OKÍ eru á Flúðum í Hrunamannahreppi og í Kjarnaskógi á Akureyri. Fróði, funda- og ráðstefnusalur OKÍ er á Flúðum. Þar geta 100 manns komið saman. Fullbúið eldhús er í húsinu. 

Nánari upplýsingar má m.a. finna á heimasíðu orlofssjóðs eða bókunarvef orlofssjóðs (Frímann).
 

Sjúkrasjóður Kennarasambands Íslands var stofnaður 1999. Félagsmenn öðlast rétt til úthlutunar eftir sex mánaða greiðslur vinnuveitanda í sjóðinn. Á vef KÍ eru allar upplýsingar um Sjúkrasjóð KÍ.
 

Markmið Vísindasjóðs er að auka tækifæri félagsmanna til framhaldsmenntunar, endurmenntunar og rannsókna. Vinnuveitandi greiðir 1,72% framlag í Vísindasjóðinn af mánaðarlegum dagvinnulaunum félagsmanns. Vísindasjóðurinn skiptist í tvær deildir:

 • B deild; Styrkir til sérstakra verkefna á sviði endur- og viðbótarmenntunar. Að hámarki kr. 500.000 á fjögurra ára tímabili.
 • A deild: Styrkir til kaupa á bókum og kennslugögnum. Að hámarki 84.000 á ári miðað við fullt starf.

Hægt er að sækja um styrk eftir þriggja mánaða greiðslu vinnuveitanda í sjóðinn. Netfang sjóðsins er visffogfs@ki.is. Sótt er um styrki úr sjóðnum á „Mínum síðum“. Sjá nánari upplýsingar um sjóðinn hér.
 

Vinnudeilusjóður er sameiginlegur sjóður aðildarfélaga Kennarasambandsins. Sjóðurinn styrkir félagsmenn í verkfalli og greiðir kostnað við vinnudeilur.
 

Hagnýtar upplýsingar

Trúnaðarmenn eru fulltrúar stéttarfélagsins á hverjum vinnustað. Þeir tala máli félagsins og eru aðaltengiliðir við stjórn og samninganefnd FF og starfsfólk. Lögbundið hlutverk trúnaðarmanna er að hafa eftirlit með kjarasamningi og að önnur réttindi starfsmanns séu virt.
 

Félagsgjald er 1,4% af mánaðarlaunum í dagvinnu félagsmanns. Þar af er:

 • Gjald í félagssjóð 1,15%
 • Gjald í vinnudeilusjóð 0,25%
   

KÍ úthlutar aðildarfélögunum fjármunum til starfsemi þeirra. Til viðbótar leggur launagreiðandi til:

 • 1,75% í Vísindasjóð sem er endurmenntunarsjóður framhaldsskólakennara
 • 0,25% í orlofssjóð
 • 0,75% í sjúkrasjóð
 • 0,1% í menntunar- og fræðslusjóð
   

Á hverjum vinnustað þar sem 15 félagsmenn eða fleiri starfa skal stofna félagsdeild og er hún grunneining Félags framhaldsskólakennara. Heimilt er að stofna félagsdeild séu félagsmenn færri en 15 á vinnustað.

Hlutverk félagsdeildar er að vera málsvari félagsmanna FF á vinnustaðnum, vinna að kjara-, réttinda- og faglegum málefnum þeirra í samstarfi við FF og KÍ og kjósa fulltrúa á fulltrúafund og aðalfund FF og á þing KÍ.

Félagsdeildir kjósa sér stjórnir, setja sér lög og starfsáætlun, kjósa trúnaðarmenn og fulltrúa félagsmanna FF í framhaldsskólum í samstarfsnefndir framhaldsskóla.

Félagsdeildir senda stjórn FF á hverju ári upplýsingar um starfsemi, ársreikninga sína og lög. FF veitir fjármunum til starfsemi félagsdeilda.

Á vef FF má finna margvíslegar upplýsingar um félagsdeildirnar. 
 

Grunnviðmið reiknilíkans um nemendafjölda í námshópum byggja á reglugerð og kjarasamningi frá 4. apríl 2014 með síðari tíma viðbótum:
 

 • 15 nemendur í verknámshópum
 • 15 nemendur í list- og tölvufræðihópum
 • 25 nemendur í almennum bóklegum greinum
   

Leita skal samþykkis viðkomandi kennara ef nemendur eru 20% fleiri eða meira.

 

Samstarfsnefnd um endurmenntun framhaldsskólakennara heldur á hverju ári mörg námskeið í samstafi við faggreinafélög kennara. Hægt er að sækja um námskeiðs- og ferðastyrki til endurmenntunar.  

 

 

 

Tengt efni